„Á meðan þeir tala, þá gerir ríkisstjórnin ekkert af sér hér í þingsalnum,“ sagði formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á þingfundi í dag; uppskar hann framíköll og hlátur.

Með orðum sínum átti Sigmundur Davíð við Pírata sem héldu upp málþófi um afar umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómamálaráðherra.
Voru greidd atkvæði um lengingu þingfundar, sem ríkisstjórn Íslands var fylgjandi í ljósi umræðna um útlendingafrumvarpið – en þær hafa oft staðið yfir fram á nótt undanfarna daga.

Sigmundur Davíð sagðist lítt botna í málþófi Pírata í umræðum um áðurnefnt útlendingafrumvarp; hann vill meina að ríkisstjórnin hafi þynnt málið það mikið út að það sé orðið að engu:
„Píratar ættu að gleðjast yfir því að þeim hafi tekist á fimm árum að þynna út þetta litla útlendingamál dómsmálaráðherra að því marki að það mun ekki skipta neinu máli,“ sagði Sigmundur og bætti þessu við, líkt og kemur fram í frétt mbl.is af málinu:
„En að því sögðu þá er svokallað málþóf háttvirtra Pírata ekki gagnslaust. Því að á meðan þeir tala, þá gerir ríkisstjórnin ekkert af sér hérna í þingsal,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar mikinn hlátur og talsverð framíköll:
„Þess vegna ættum við að huga að því, herra forseti, að það getur verið gott að koma í veg fyrir tjón. Engu að síður ætla ég að greiða atkvæði með lengingu þingfundar svona til þess að liðka fyrir þingstörfum eins og minn er háttur herra forseti.“