Miðvikudagur 17. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Sólveig segir Agnieszku ljúga: „Einstaklega vanþroskuð, svo vægt sé tekið til orða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég get ekki annað en spurt mig hvort að varaformanni sé sjálfrátt þegar hún tekur ákvörðun um að láta hafa eftir sér ósannindin í blaðaviðtali,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar í Facebook færslu í dag. Í færslunni segir Sólveig varaformann ljúga.

Agnieszka Ewa Ziolkowska, varaformaður Eflingar, segir frá atvikum og samskiptum innan Eflingar í helgarviðtali Fréttablaðsins. Heldur Sólveig því nú fram að Agnieszka ljúgi í viðtalinu. Þá bætir hún því við að sýn Agnieszku á bæði félagsstörf og rétt félagsfólks sé „einstaklega vanþroskuð, svo vægt sé tekið til orða.“

Hér að neðan má lesa Facebook færslu Sólveigar í heild sinni.

„Ég var að enda við að lesa viðtal við varaformann Eflingar í Fréttablaðinu. Rangfærslurnar og ósannindin eru fjölmörg. Það er engu líkara en að ég og hún höfum síðustu ár ekki dvalið í sama veruleika. Til dæmis er afskaplega undarlegt að lesa frásögn Agnieszku af atburðarás þeirri sem fór af stað þegar að starfsmaður á skrifstofunni sakaði hana um einelti. Ég get ekki annað en spurt mig hvort að varaformanni sé sjálfrátt þegar hún tekur ákvörðun um að láta hafa eftir sér ósannindin í blaðaviðtali. Tilraun mín til að liðsinna henni og finna lausn svo að ekki kæmi til formlegrar eineltiskvörtunar gegn henni er nú máluð upp sem illvilji minn gagnvart henni, og samsæriskenning útbúin þar sem kvörtunin er í raun runnin undan mínum rifjum til að koma í veg fyrir að Agnieszka gæti setið fundi. Samskonar furðulega afbökun á raunveruleikanum má lesa í frásögn varaformanns af fundi sem við áttum síðar. Hún virðist trúa því að ég hafi óskað eftir fundi með henni til að koma í veg fyrir að hún sæti fund um vinnu við vefsíðu félagsins. Ástæða þess að ég átti með henni samtal var framkoma hennar á vinnustaðnum, en þar átti hún því miður iðulega erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu. Varaformaður lætur einnig hafa það eftir sér að ég hafi iðulega reiðst henni og sýnt henni einhverskonar fautaskap, en það er ekki svo. Þau sem sátu stjórnarfundi með okkur sem og þau sem urðu vitni að samskiptum okkar á vinnustaðnum eru til vitnis um að ég sýndi henni aldrei annað en vinskap og hlýju, og reyndi mitt besta til að hjálpa henni að fóta sig í nýju vinnuumhverfi en það reyndist henni mikil áskorun.

Í viðtalinu segir Agnieszka Ewa að ég hafi ekki tilkynnt hótun frá starfsmanni skrifstofunnar gegn mér til lögreglunnar. Ég skil ekki af hverju hún finnur sig knúna til að segja ósatt um þetta. Samskipti mín við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu hófust 20. október og hótunin var skráð/tilkynnt í málakerfi lögreglunnar þann 4. nóvember. Í hugarheimi Agnieszku er þetta allt mjög óljóst og mikið sem hún skilur ekki eins og kemur fram í viðtalinu, en hún sér samt ekkert athugavert við að staðhæfa um málið í þeim tilgangi að láta það hljóma líkt og ég segi ósatt. Þarna fetar hún í fótspor Gabríel Benjamíns, starfsmanns skrifstofunnar sem fann sig knúinn til að senda mönnum útí bæ persónuleg skilaboð um það að frásögn mín af hótuninni sem beinist gegn mér og heimili mínu væri “pjúra lygi”.

Enn af ósannindum varaformanns í viðtalinu: Hún heldur því fram að ég hafi krafist þess að fá að sitja alla fundi trúnaðarráðs eftir að ég sagði af mér sem formaður. Staðreyndin er sú að ég óskaði eftir því með tölvupósti dagsettum 8. nóvember að fá að sitja einn fund þar sem að afsögn mín yrði til umræðu, til þess að segja mína hlið. Þann 10. nóvember dró ég ósk mína til baka, enda hafði þá runnið upp fyrir mér að Agnieszka og Ólöf Helga ætluðu sér ekki að virða mig svars. Það er sorglegt að lesa hvernig varaformaður ræðst svo með svívirðingum að meðlimum trúnaðarráðs í viðtalinu. Enn á ný sýnir Agnieszka að sýn hennar á félagsstörf og rétt félagsfólks á lýðræðislegum vettvöngum félagsins er einstaklega vanþroskuð, svo vægt sé tekið til orða.

Ég gæti skrifað fjölmargt til viðbótar um þær rangfærslur og þau ósannindi sem lesa má í viðtalinu. En ég læt þetta duga, í það minnsta í bili. Segi þó að lokum að það er sorglegt að sjá og upplifa dómgreindarleysi fólks í kjölfar þess að það tapar í lýðræðislegum kosningum. Ég skil auðvitað að það er erfitt að tapa en þá er mikilvægt að sýna sæmd, sýna sjálfsvirðingu og sýna að leikreglur lýðræðisins eru manni í það minnsta fremur skiljanlegar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -