Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Sólveig velgir ráðherra undir uggum: „Ég óska því eftir að þú takir á móti mér að morgni mánudags“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Í ljósi pólitískrar og stjórnsýslulegrar ábyrgðar þinnar á framlagningu ríkissáttasemjara á svokallaðri miðlunartillögu, svo og á tilhæfulausri kröfu embættisins um afhendingu gagna úr félagaskrá Eflingar, geri ég kröfu um að fá áheyrn þína án tafar,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í harðorðu bréfi sem hún sendir Guðmundi Inga Guðbrandssyni félagsmálaráðherra í gærkvöld. Hún birti bréfið á Facebook í gærkvöld ásamt skýringum.
Krafan er tilkomin vegna þeirrar ákvörðunar Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara að leggja fram miðlunartillögu í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Deilan er í hörðum hnút og hafa Sólveig Anna og Halldór Benjamín Þorbergsson skipst á köpuryrðum.
Tillagan, sem fer í dóm félagsmanna beggja samtakanna, felur í sér samning á sömu nótum og Starfsgreinasambandið gerði fyrir áramót. Þá gerir samningurinn ráð fyrir afturvirkni þannig að Eflingarfólk fái það sama og Starfsgreinsambandið. Á sama tíma eru félagsmenn að greiða atkvæði um verkfallsboðun á Íslandshótelum. Niðurstöðu í þeirri atkvæðagreiðslu er að vænta eftir helgi.

„Þrátt fyrir augljósa lagalega annmarka, skýrar vísbendingar um hlutdrægni, stórkostlega skert traust verkalýðshreyfingarinnar á embætti ríkissáttasemjara og fjölmargar áskoranir um að embættið dragi svonefnda miðlunartillögu sína til baka hefur embættið ekki gert það, heldur þvert á móti aukið á forherðingu sína. Kom það berlega í ljós síðastliðinn föstudag þegar embættið lét Héraðsdóm Reykjavíkur birta Eflingu fyrirkall vegna dómsmáls þar sem krafist er afhendingar á viðkvæmum persónuupplýsingum Eflingarfélaga,“ skrifar Sólveig og telur engar lagaheimildir vera fyrir þessu.

Mörg verkalýðsfélög hafa gagnrýnt ríkissáttasemjara fyrir aðferðian við að beita miðlunarúrræðinu. Félagsmálaráðherra hefur aftur á móti lýst stuðningi við sáttasemjara í málinu en segist skilja gagnrýni Eflingarfólks. Sólveig ítrekar kröfu sína um fund með ráðherra og setur honum tímaramma.
„Ég óska því eftir að þú takir á móti mér að morgni mánudagsins næstkomandi 30. janúar. Ég legg þunga áherslu á að þú eigir fund með mér eigi síðar en á þeim tíma, þar sem seinna þann dag mun fara fram fyrirtaka í fyrrnefndu dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað og um kvöldið verða tilkynnt úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum,“ segir Sólveig.
Hún áréttar að um sé að ræða grafalvarlegt fordæmisgefandi mál sem snúi að lögmæti stofnana aðila vinnumarkaðarins, grundvallarréttindum vinnandi fólks og því trausti sem verkafólki verður unnt að bera til opinbers ramma vinnumarkaðsmála á Íslandi til framtíðar. Sólveig gerir ráðherranum grein fyrir því að hann eigi ekki von á góðu ef ekki verði brugðist strax við.
„Ég bið þig að vanmeta ekki þann þunga sem Efling – stéttarfélag mun fyrir sitt leyti setja í viðbrögð vegna þessa máls og eftir atvikum beina að þeim stofnunum hins opinbera sem á því bera ábyrgð. Því höfða ég til ábyrgðar þinnar sem ráðherra vinnumarkaðsmála að verða við ósk minni um fund án vífilengja.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -