Sósíalistinn Þór Saari vekur athygli á atriði varðandi kosningar þær sem fram undan eru á samfélagsmiðli og byrjar á því að segja:
„Jæja. Best að skaffa Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins verkefni fyrir daginn.
Oddviti Sósíalistaflokksins í Norðvestur kjördæmi er alveg með þetta,“ og á við hina 71 árs gömlu Helgu Thorberg:
„Hún fer fram fyrir Sósíalistaflokkinn í Norðvesturkjördæmi og segist hissa á að ekki skuli vera fleiri konur á hennar aldri að leiða lista að þessu sinni. . . . „Mér finnst svolítið flott að við séum komnar í tísku, alla vega hjá sósíalistum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé breidd í því hverjir sitja á Alþingi. Konum á mínum aldri er frekar ýtt til hliðar í pólitísku starfi og í samfélaginu almennt, þannig að ég mun auðvitað bera hag okkar hóps fyrir brjósti í mínum störfum,“ segir Helga sem varð 71 árs í sumar.
„Þetta er nefnilega málið, Sósíalistaflokkurinn einn flokka, boðar afnám allra skerðinga á ellilífeyrir. Fólk sem hefur skilað sínu á bara alls ekki að vera dæmt til fátæktar. Við boðum líka róttækan Sósíalískan femínisma sem mótvægi við þann smáborgaralega yfirstéttarfemínisma sem VG og Samfylking, ásamt Lilju Alfreðsdóttur í Framsókn, standa fyrir.
„Sósíalistaflokkurinn er nefnilega líka framboð fullorðins fólks með reynslu, fólks sem hefur skilað sínu og veit hvað gott samfélag þarf að innihalda. Fram undan er að stærsti árgangur Íslandssögunar – árgangur 1960 – er að nálgast eftirlaunaaldurinn, og það fólk má bara alls ekki verða dæmt til skerðinga og peningaleysis vegna nýfrjálshyggju ríkjandi stjórnarfars.“