Miðvikudagur 17. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Steypan skapar gjá milli Dags og Rósu – Hafnfirðingar koma af fjöllum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Deilur eru á milli meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur varðandi málefni malbikunarstöðvarinnar Höfða sem er staðsett í Reykjavík og er í eigu borgarinnar. Fyrirhugaður er flutningur fyrirtækisins til Hafnarfjarðar, og þá spruttu upp enn meiri deilur; svo virtist sem meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, undir forystu bæjarstjórans Rósu Guðbjartsdóttur, hafi ekki haft grænan grun um að Reykjavíkurborg væri að færa malbikunarstöðina til Hafnarfjarðar.

Íbúar á Ásvöllum í Hafnarfirði vilja alls ekki fá Höfða til Hafnarfjarðar og nú er í gangi undirskriftarsöfnun gegn gjörningnum.

Mannlíf náði tali af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Reykjavíkur og spurði hann út í þetta „malbikunarmál“ sem mikið er í umræðunni þessi misserin.

„Malbikunarstöðin Höfði er sjálfstætt fyrirtæki í eigu borgarinnar og með sjálfstæða stjórn. Félagið hefur undirbúið flutning undanfarin misseri og skoðað fjölmarga kosti á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Dagur og bætir við að „fyrirtækið hefur lagt sig fram um að vanda til verka. Lóðin sem um ræðir í Hafnarfirði fellur vel að rekstrinum að mati fyrirtækisins, enda hefur þar verið rekin malbikunarstöð undanfarin ár. Samkvæmt mínum upplýsingum er stöð Höfða sambærileg þeirri sem fyrir var, en er nýrri og mengar minna.“

Dagur bendir á að kaupin á lóðinni eru „gagnvart fyrirtækinu sem var þarna fyrir en ekki gagnvart sveitarfélaginu. Í raun er því um hefðbundin fasteignaviðskipti að ræða sem almennt koma ekki inn á borð kjörinna fulltrúa.“

Mannlíf sendi fyrirspurn um málið til Reykjavíkurborgar og segir Dagur að „vegna fyrirspurnarinnar hef ég aflað upplýsinga um það. Þegar samningar um lóðina  í Hafnarfirði voru í augsýn í viðræðum fyrirtækjanna tveggja óskuðu fulltrúar malbikunarstöðvarinnar Höfða eftir fundi með fulltrúum Hafnarfjarðarbæjar.

- Auglýsing -

Lögmaður fyrirtækisins sendi beiðni um slíkt til lögmanns bæjarins 17. maí sem benti á sviðsstjóra umhverfissviðs bæjarins. Haldinn var fundur 27. maí með sviðsstjóra umhverfissviðs Hafnarfjarðar þar sem fram kom að starfsemi Malbikunarstöðvarinnar félli að skipulagi á viðkomandi svæði og að gerðar yrðu sömu kröfur til Malbikunarstöðvarinnar Höfða og þeirra sem fyrir var. Þau skilyrði treystir Malbikunarstöðin sér til að uppfylla. Rekstrarleyfi hennar var til ársins 2035. Samningar voru kláraðir í kjölfarið og kaupin eru gengin í gegn,“ segir Dagur og bendir á að fyrirtæki borgarinnar eigi það flest sameiginlegt að starfsemi þeirra nær til alls höfuðborgarsvæðisins og oft víðar:

„Nægir að nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahafnir og byggðasamlögin Strætó og Sorpu; öll í sameign borgarinnar og mismunandi annarra sveitarfélaga. Malbikunarstöðin Höfði er einnig með starfsemi um allt svæðið þótt hún sé alfarið í eigu borgarinnar. Ég veit fyrir víst að Malbikunarstöðin ætlar að standa vel að verki og vonast eftir góðum samskiptum við Hafnarfjarðarbæ og aðra í tengslum við þetta mál.“

Það virðist því ljóst samkvæmt orðum Dags að innan Hafnarfjarðarbæjar hafi verið til staðar full vitneskja um málið, þvert ofan í það sem til dæmis Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar hefur sagt, til að mynda á fundi bæjarstjórnar:

- Auglýsing -

„Bæjarráð – 3577. Haldinn í fundarsal bæjarráðs, Strandgötu 6, 01.07.2021.

2106621 – Höfði, malbikunarstöð. Til umræðu. Bæjarráð lýsir yfir furðu sinni með þau áform sem fréttir berast af um að Malbikunarstöðin Höfði hyggist flytja starfsemi sína til Hafnarfjarðar. Bæjarstjóra er falið að ræða við borgarstjórann í Reykjavík vegna þessa og afla upplýsinga um fyrirætlanir fyrirtækisins, áhrif á umhverfi- og umferð á svæðinu og fleira sem málinu tengist.“

Það er í það minnsta deginum ljósara nú að lögmaður Hafnarfjarðarbæjar, Ívar Bragason, vissi allt um málið, sem og sviðsstjóri umhverfissviðs Hafnarfjarðarbæjar, Sigurður Haraldsson.

Ívar lögmaður (að ofan) og Sigurður sviðsstjóri vissu um málið en virðast ekki hafa greint Rósu bæjarstjóra frá því.

Eins og fram kemur í fundargerðinni hér að ofan, virðist Rósa bæjarstjóri koma algjörlega af fjöllum varðandi mál Höfða á fundinum, þrátt fyrir vitneskju Ívars og Sigurðar, og verður það að teljast heldur óvenjulegt að svo háttsettir aðilar innan stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar hafi af einhverjum ástæðum ákveðið að upplýsa ekki yfirmann sinn, Rósu bæjarstjóra, um undirritaðan samning við Reykjavíkurborg þess efnis að malbikunarstöðin Höfði myndi flytja starfsemi sína til Hafnarfjarðar; nánar tiltekið til Ásvalla, sem er stórt, mjög vaxandi og afar fjölskylduvænt hverfi í Hafnarfirði.

Það er líka ljóst af orðum Dags að Reykjavíkurborg hefur ekki haft neitt að fela í þessu máli – öll gögn er varða það eru uppi á borðinu og í raun virðist málið mjög einfalt, en ekki við fyrstu sýn.

Í byrjun, þegar undirskriftarsöfnunin var sett af stað, virtist Rósa bæjarstjóri ekkert hafa vitað af málinu, en eins og fram kom í grein Mannlífs um málið telja flestir í minnihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar afar hæpið að æðsti og valdamesti einstaklingur Hafnarfjarðar hafi ekki vitað um málið þrátt fyrir undirritaðan samning og þá staðreynd að lögmaður bæjarins og sviðsstjóri vissu um málið. Þess vegna verður að spyrja þeirrar spurningar, hver er að segja satt og hver er að segja ósatt?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -