Laugardagur 14. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Svona spararðu stórfé í búðinni: Einfalt að halda eftir 150 þúsund krónum á ári

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ísland er eitt dýrasta land í Evrópu til að gera matarinnkaupin. Fyrir mörg okkar sem eyðum 12-14 prósentum af laununum okkar í matvöru skiptir það gríðarlegu máli að halda matarkostnaði í lágmarki.

Ef okkur tekst að spara þúsundkall á viku í matarkostnað spörum við 52 þúsund á ári og ef við náum reikningum niður um þrjú þúsund krónur á viku endum við með 156 þúsund aukalega í vasanum eftir árið!

Þetta er ekki flókinn reikningur en áhugavert að hafa þetta svona fyrir augunum.

Það hljómar eins og tugga en margt smátt gerir eitt stórt.

Gerðu lista

Þetta hljómar ótrúlega einfalt en gerðu lista í hvert sinn sem þú gerir stórinnkaupin og haltu þig við hann eftir fremstu getu. Það er svo hætt við að við veljum óþarfa og gleymum því nauðsynlega. Listinn flýtir líka fyrir, því mörg þurfum við að dröslast í gegnum troðfullar búðir með vinnudaginn ennþá á herðunum, með hundinn úti í bíl og börnin að hjálpa til.

- Auglýsing -

Blaðið og penninn eru óbrigðult ráð en það eru ýmsir aðrir kostir fyrir okkur í dag sem geta létt okkur lífið. Frábær öpp eins og AnyList, Out of Milk hjálpa þér að gera lista en svo eru önnur ítarlegri eins og Yummly eða Spoonacular sem hjálpa þér líka til dæmis að skipuleggja máltíðir og fylgjast með birgðastöðunni.

Skipulegðu máltíðir

„Hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld?“ er mögulega sú setning sem aðilar sem búa saman hafa hvað oftast hent á milli sín. Þá eru skáparnir opnaðir og niðurstaðan liggur fyrir; það er ekkert til nema hakk. Þá þarf að fara í búðina og heim kemur bréf af fajitas kryddi sem endar svo við hliðina á hinu fajitas kryddinu í kryddskápnum.

- Auglýsing -

Með því að stilla upp máltíðum viku fram í tímann verður auðveldara að gera innkaupalistann og sporna við matarsóun. Það þurfa ekki allar máltíðir að vera þriggja rétta með sósu og eftirrétti.

Farðu yfir skápana heima fyrst

Að kaupa ekki það sem við eigum til er 100% sparnaður. Við vitum alltaf nákvæmlega hvað er til í skápunum þangað til einn daginn áttum við okkur á því að við eigum sex pakka af Ritzkexi, blandaðar tegundir af pakkanúðlum, tvö hálf glös af kardimommudropum, þrjá rykfallna Royal búðinga og svo tvær dósir af niðursoðnum ávöxtum sem enginn man eftir að hafa viljað.

Eigðu nóg af því sem þú notar mest

Það er miklu erfiðara að velja dýran og óhollan skyndibita þegar það er flest til í fljótlega rétti heima. Til dæmis pasta, hrísgrjón, krydd, niðursuðuvara og pakkavara geymast vel og henta í marga fljótlega rétti.

Kauptu í magni, skiptu upp í smærri einingar og frystu

Margir sem búið hafa erlendis þekkja það að kaupa í magni, skipta niður í frystipoka eða box og grípa svo í það sem vantar eftir hentugleika. Oftar en ekki er ódýrara að kaupa í magni og smá forði af vöru í frysti eða frystikistu fækkar ferðum í búðina. Kjöt, fiskur, brauðmeti, bakkelsi, sumir ostar, mjólk og margar mjólkurafurðir og álegg henta vel til þess að frysta og geyma.

Veldu öftustu vöruna

Það er þekkt að matvörubúðir stafli nýjustu vörunum aftast til að passa upp á að elstu vörurnar seljist fyrst. Ef þú tekur þessa öftustu ertu að tryggja þér að varan endist lengur hjá þér og renni síður út.

Settu þér eyðslumarkmið

Áætlaðu þér ákveðna upphæð á viku í matarinnkaup og taktu frá í byrjun mánaðarins. Að setja reiðufé í umslag er klassísk aðferð en í dag erum við með svo mörg rafræn tól til að hjálpa okkur við þetta í dag. Ef við fylgjumst með því sem við eyðum erum við líklegri til að spara.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -