Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Tífalt fleiri gæslu­varð­halds­fang­ar í ein­angr­un hér en í Dan­mörku: „Lögreglan fær frítt spil“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Niðurstaða nýrrar skýrslu Amnesty International er Heimildin fjallaði um er sú að mannréttindi og alþjóðalög séu fótum troðin og þverbrotin af íslenskum stjórnvöldum; þykja þau ofnota einangrunarvist þegar grunaðir menn sitja í varðhaldi.

Rannsókn Amnesty er sláandi en það er þó ekki nýtt að stjórnvöld á Íslandi sæti gagnrýni vegna þess.

Kemur fram að alþjóðastofnanir hafa ítrekað gert svipaðar athugasemdir í úttektum sínum á Íslandi; beint því til stjórnvalda að minnka eða hætta jafnvel alveg að vista grunaða menn í einangrun.

Fyrir átta árum vakti athygli samanburðarrannsókn Elísabetar Ingólfsdóttur, meistaranema í lögfræði, þar er hún bar saman stöðu mála á Íslandi og á Norðurlöndunum.

Elísabet Ingólfsdóttir lögfræðingur.

Kom berlega í ljós að á Íslandi var einangrun gæsluvarðhaldsfanga miklu algengari en í Skandinavíu; var hlutfall gæsluvarðhaldsfanga sem sættu einangrun hér á landi 76% á árunum 2009 til 2014, samanborið við 1% í Danmörku og 13% í Noregi á sama tímabili.

- Auglýsing -

Svo segir að samanburðurinn við Svíþjóð hafi ekki verið fyllilega marktækur þar sem aðeins lágu til grundvallar tölur yfir hlutfall þeirra er sætt höfðu einhverju formi þvingunarúrræða samhliða gæsluvarðahaldi; má þar nefna mynda-, síma-, eða heimsóknarbanni; Jafnvel þá kom Ísland verr út úr samanburðinum.

Einangrunarvist er ekkert grín; hún felur í sér algjöra innilokun á klefa í 22 tíma á sólarhring, án alls möguleika á sambandi við umheiminn.

Athygli vekur að þrátt fyrir mikinn mun á fólksfjölda sátu fleiri einstaklingar í einangrun á Íslandi en í Danmörku á árinu 2013 – 55 í Danmörku og 83 hér á landi.

- Auglýsing -

Danir hafa unnið markvisst í því að fækka enn frekar í hópi þeirra sem sæta einangrun en sömu sögu er ekki að segja af Íslandi

Þegar sú staðreynd er höfð í huga að íbúar Danmerkur eru um 6 milljónir en hér á landi búa um 370 þúsund manns, verður samanburðurinn margfalt óhagstæðari fyrir Ísland.

Guðmundur Ingi Þóroddsson er formaður Afstöðu, félags fanga hér á landi, og segist hann í samtali við Heimildina fagna því að Amnesty láti þetta mál til sín taka, það sé löngu kominn tími til að aukinn þrýstingur sé settur á íslensk stjórnvöld til breytinga í þessum málaflokki:

„Þetta er auðvitað löngu vitað og marg tuggið. Eins sorglegt og það er sýnir þetta best hversu lítill áhugi er á því að hafa hlutina í lagi hér, þegar kemur að þessum málefnum. Á meðan fær lögreglan algjörlega frítt spil til að gera það sem hún vill og dómstólar spila einfaldlega með. Það er löngu tímabært að tekið verði á þessum fangelsismálum öllum og þau endurhugsuð frá grunni.“

Guðmundur Ingi hefur reynslu af því að vera handtekinn og grunaður um alvarleg lögbrot, bæði á Íslandi og í Danmörku:

„Ég var handtekinn 28. desember 1999 hér á Íslandi og settur í gæsluvarðhald. Næstu sex vikurnar var ég í algjörri einangrun inni á klefa og án sambands við umheiminn. Þetta skemmir fólk. Ég hef margoft séð menn koma út úr svona langri einangrun mölbrotna –  breytta menn fyrir lífstíð. Og það er mikilvægt að fólk muni það að þarna erum við að tala um saklausa menn, að lögum. Þeir sem lögregla og dómarar senda í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna hafa ekki verið sakfelldir fyrir brot ennþá, þeir eru til rannsóknar,“ segir Guðmundur Ingi.

Fyrir tíu árum síðan var Guðmundur handtekinn í Danmörku – grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl – sem danskir lögreglumenn og fjölmiðlar sögðu með umfangsmeiri málum Danmerkur og hreinlega í allri Evrópu á þeim tíma:

„Þrátt fyrir það þótti ekki ástæða til að láta mig vera í einangrun lengur en í tvo daga, þann tíma sem ég sat í gæsluvarðhaldi vegna þess máls,“ segir Guðmundur sem var á endanum dæmdur til 12 ára fangelsisvistar, og hefur hann tekið út sinn dóm; snúið við blaðinu.

Hann segir áhugaleysi stjórnvalda á Íslandi í málaflokknum vera mikið:

Ríkisstjórn Íslands.

„Þetta er annars bara lýsandi fyrir áhuga- og sinnuleysi yfirvalda fyrir því að taka allt þetta kerfi til endurskoðunar. Það er löngu tímabært að tekið verði á þessum fangelsismálum öllum og þau endurhugsuð frá grunni. Árið 2003 skrifuðum við skýrslu um fangelsismál og það sem augljóslega mátti laga. Ég fletti henni svo um daginn og sá þá hún gæti farið óbreytt í birtingu í dag, tuttugu árum síðar,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Heimildina. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -