Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Til gamans gert um áramót

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margir telja nauðsynlegt að gera eitthvað alveg sérstakt til hátíðabrigða um áramót. Sumir dusta rykið af dansskónum sínum og fagna nýju ári með gleði og gamni, aðrir kjósa að safna um sig vinum og ættingjum og gleðjast saman og sumir vilja helst taka það rólega. Hvað sem þú kýst eru hér nokkrar skemmtilegar leiðir til að gera áramótin eftirminnileg.

Mjög margir taka upp kampavínsflösku klukkan tólf að miðnætti og skála fyrir nýju ári. Ef þið viljið reyna eitthvað nýtt má nudda barm glassins með appelsínu- eða sítrónusafa og þrýsta glasinu síðan ofan í sykurkarið. Sykurinn situr þá eftir á barminum og gefur skemmtilegt yfirbragð svo má skreyta glasið með appelsínu- eða sítrónusneið. Kampavín blandað ýmsum líkjörum er einnig mjög gott. Kirsuberjalíkjör og kampavín er kokkteillinn Kír en eins má blanda ferskjubrandíi, perulíkjör eða yfirleitt hvaða ávaxtalíkjör sem er saman við freyðivínið til að gera það bragðsterkara og til að fá á það nýjan lit. Hlutföllin eru 1 hluti af líkjör á móti 2 hlutum af kampavíni.

Ef þið ætlið að halda samkvæmi er kjörið að létta lund gestanna með því að fara í alls konar samkvæmisleiki. Þeir eru margir til og flestir kunna nokkra. Einn er ákaflega vel til fundinn um áramót en hann er þannig að ljósin eru slökkt þegar klukkan byrjar að slá á miðnætti og áður en tólfta slagið heyrist verða allir að vera búnir að grípa í einhvern og sá hinn sami verður sá fyrsti sem þú óskar gleðilegs árs með kossi að sjálfsögðu.

Breytið á einhvern hátt út af venjunni og gerið eitthvað sem þið eruð alls ekki vön. Fyrir þá sem nota andlitsfarða er gaman að gera eitthvað nýtt. Notið gylltan eða silfurlitan glitrandi augnskugga, eldrauðan varalit eða glimmermaskara.

Safnið saman þeim lögum sem þið teljið að hafi sett svip á árið sem er að líða og haft áhrif á líf ykkar. Reynið að komast yfir að spila þau öll áður en klukkan slær tólf.

Leitið ráðlegginga að handan. Spyrjið rúnir hvað muni gerast á nýja árinu, leitið til spákonu, farið í andaglas eða inn á vefinn facade.com/Occult/tarot og látið spá fyrir ykkur. Sumir nota tækifærið einmitt nú og ráðgast við miðil um líf sitt. Tímamót sem þessi eru líka til þess að gera upp fortíðina og losa sig við öll gömul leiðindi úr fortíðinni og líta bjartari augum til framtíðar. Ef fólk er hjátrúarfullt má benda á að ýmsir litir eru líklegri til að bera með sér gæfu en aðrir. Kínverjar segja að rautt sé gæfulitur og í Kína klæðist brúður rauðu á heiðursdegi sínum. Ef lukkan sem fylgir litnum er látin liggja milli hluta eru rauðklæddar konur yfirleitt glæsilegar og draga að sér augu allra nálægra karlmanna.

Takið upp þann sið að halda dagbók og byrjið á gamlárskvöld. Gerið það í þeim tilgangi að muna betur það góða sem gerist í lífi ykkar og til að festa ykkur betur í minni ýmsar lexíur sem þið lærið á hverjum degi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -