Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup hefur hlutfall fólks sem ber mikið traust til Þjóðkirkjunnar lækkað um fimm prósentustig undanfarin tvö ár.

Nú er svo komið að einungis 27 prósent landsmanna segjast nú bera mikið traust til Þjóðkirkjunnar.
Kemur fram í þjóðarpúlsinum að traust til kirkjunnar hafi ekki mælst lægra frá því að mælingar hófust hér á landi, árið 1993.

Traustið Þjóðkirkjunnar hefur minnkað jafnt og þétt yfir það tímabil – og mælist nú í sögulegu lágmarki.
Óhætt er að segja að Þjóðkirkjan undir stjórn Agnesar M. Sigurðardóttur hafi verið í ólgusjó í langan tíma; hvert deilumálið á fætur öðru hefur dunið á stofnuninni og ekki hægt að sjá að öldurnar séu teknar að lægja.

Agnes tók við sem biskup árið 2012, en hún tilkynnti nýverið að hún myndi hætta störfum eftir tæpt eitt og hálft ár.
Hún sagði við það tilefni í frétt á Vísi að hún hafi vitað að starfið yrði ekki auðvelt:

„Ég vissi að oft yrði á brattann að sækja í þeirri umbótavinnu sem ég vildi leggjast í. Og oft hefur gefið á bátinn. En þá er gott að hafa styrkingarorð frelsarans í huga og hjarta sem hefur ávallt lægt öldurnar þegar við lærisveinarnir verðum hrædd, þreytt og mædd í bátnum.“