Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Viðbrögð íbúa Grindavíkur við risaskjálfta í morgun: „Mér leið skelfilega, ég er ofboðslega hrædd við jarðskjálfta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jarðskjálfti upp á 5,1 að stærð varð í morgun við Fagradalsfjall við Grindavík. Skjálftans varð vart víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu og kallaði Veðurstofa Íslands út aukamannskap. Eins og komið hefur fram í fréttum hefur mikil jarðskjálftavirkni verið á svæðinu á árinu, en skjálftinn í morgun er sá stærsti til þessa.

Mannlíf heyrði í nokkrum íbúum Grindavíkur, sem allir urðu vel varir við skjálftann. Þó að lítið eignatjón hafi orðið hjá þeim sem Mannlíf ræddi við brá þeim öllum verulega og nokkrir voru skelfingu lostnir.

„Ég held að það sé erfitt að setja sig í stöðu okkar í Grindavík með óvissustimpil í undirmeðvitundinni ofan á þessa skjálfta og drunurnar sem óma um bæinn. Við reynum nú að halda okkur niðri en í svona augnablikum falla bara allar varnir.“

Halla
Mynd / Facebook

„Já ég fann skjálftann, ég er heima með veikt barn,“ segir Halla Þórðardóttir og segist hafa verið nýbúin að finna einn lítinn hnykk og þá hugsað: „Hmmm bíddu nú við.“ Hún hafi þá farið að skoða skjálftayfirlit og séð að skjálftavirkni var að aukast þegar stóri skjálftinn kom. „Manni bregður verulega, myndir og myndlykill hrundu niður og ég rauk til sonar míns sem var mjög hissa. Enda hans fyrsta upplifun. Manni stendur alls ekki á sama yfir þessu og lýst alls ekki á blikuna. Engir hlutir skemmdust en ég er búin að finna sprungur sem voru alls ekki í gær á veggjum innan húss.“

Hún segir íbúa reyna að halda ró sinni, en þegar svona gerist þá aukist óttinn. „Ég held að það sé erfitt að setja sig í stöðu okkar í Grindavík með óvissustimpil í undirmeðvitundinni ofan á þessa skjálfta og drunurnar sem óma um bæinn. Við reynum nú að halda okkur niðri en í svona augnablikum falla bara allar varnir. En maður er fljótur að vinna sig niður.“

Anna Sigga
Mynd / Facebook

Anna Sigga Sigurðardóttir var við vinnu sína í verslun Nettó. „Ég hélt að spegillinn í grænmetishorninu myndi brotna. Enn það fór allavega ekkert úr hillum,“ segir Anna Sigga.
Ég er svo slök samt yfir þessu öllu saman, ég er búin að bíða eftir að það kæmi skjálfti svo umræða um kórónufaraldurinn myndi minnka. Ég er komin með ógeð af þeirri umræðu.“

Stella
Mynd / Facebook

„Ég er heima að jafna mig eftir aðgerð á ökkla og lá við að ég hafi gleymt því til að hlaupa út,“ segir Guðveig Sigurlaug Ólafsdóttir (Stella) og segir hún að sér hafi liðið skelfilega þegar skjálftinn reið yfir. „Ég fraus í smá tíma, svo komu nokkur auka slög.“ Hún segist hrædd við skjálftavirknina á svæðinu, enda alltaf verið hrædd við jarðskjálfta. „Ég hélt að þetta væri að komast upp í vana eins og með alla hina litlu, en þessi var eitthvað annað og kæmist aldrei upp í vana.“ Aðspurð sagði hún að ekkert hefði skemmst á heimilinu við skjálftann.

- Auglýsing -

„Ég var nýsest í sófann heima þegar skjálftinn kom, og hann var svakalegur. Mér fannst hann svo langur. Ég er með hangandi ljós í stofunni og það sveiflaðist heillengi,“ segir Þórdís Anna Þórarinsdóttir.  „Ég er ekki beint hrædd við skjálftavirknina, en mér stóð alls ekki á sama núna! Það skemmdist ekkert en ég sé að hlutir hafa færst aðeins til, myndir og svoleiðis.  Ef það fer að verða mikil skjálftavirkni þá tek ég hluti niður úr hillum og fer í sveitina.“

Guðrún Kristín
Mynd / Facebook

„Mér dauðbrá, var með svaka hjartslátt og gæsahúð í langan tíma eftir á! Get svarið það að húsið mitt fór af stað,““ segir Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem var heima hjá sér með nýfæddan son sinn. Aðspurð um hvort hún sé hrædd við skjálftavirknina á svæðinu segist hún ekki láta hana trufla sig, „en viðurkenni að þessi í morgun kom pumpunni vel af stað!“ Hún segir ekkert hafa skemmst á heimilinu við skjálftann, „enda hreyfðist ekkert á heimilinu nema ég og litli nýfæddi gaurinn minn hló bara af mömmu sinni.“

Þorgerður
Mynd / Facebook

„Mér leið skelfilega, ég er ofboðslega hrædd við jarðskjálfta,“ segir Þorgerður Elíasdóttir. „Ég bý í timburhúsi og ég horfði á veggina hér í stofunni og mér fannst þeir ganga í bylgjum,“ segir hún, en bætir þó við að ekkert hafi skemmst. „Ég nötra og skelf enn úr hræðslu.“

- Auglýsing -
Berglind
Mynd / Facebook

„Það glumdi vel í öllu hér heima, en ekkert skemmdist,“ segir Berglind Kolbeinsdóttir, sem var heima hjá sér. „Skjálftinn var mjög stór og langur og ég fékk mikið sjokk eftir á. Ég er mjög hrædd við skjálftavirknina.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -