Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Vill skipakirkjugarð á Vestfirði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tillaga um að koma á fót skipakirkjugarði á Vestfjörðum var rædd í bæjarráði Ísafjarðar í vikunni. Markmiðið er annars vegar að varðveita gömul skip sem annars myndu grotna niður og hins vegar að skapa vettvang fyrir sportköfun.

Tillagan sem er hugarfóstur bæjarfulltrúans Sigurðar J. Hreinssonar felur í sér að bæjarstjóra verði falið að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp um stofnun vinnuhóps sem hafi það hlutverk að gera staðarvals- og fýsileikakönnun á að koma upp skipakirkjugarði í einhverjum innfjarða Ísafjarðardjúps. Sér Sigurður fyrir sér að skipakirkjugarðurinn samanstandi af 5 til 10 tréskipum á hafsbotni. Samhliða væri hægt að byggja upp aðstöðu fyrir sportköfun sem nýtur vaxandi vinsælda í heiminum og bendir Sigurður á að á dögunum var Airbus 330-farþegaþotu sökkt undan ströndum Tyrklands í þeim tilgangi. Aðspurður hvort hann hafi einhverja sérstaka staðsetningu í huga, svarar Sigurður: „Firðirnir fyrir innan okkur eru skjólsælli og tiltölulega straumléttir, það er ef við horfum á þetta út frá hagsmunum kafara. Það er til dæmist flak í Álftafirði sem er mjög vinsælt. Sá fjörður er líka nálægt byggð og annarri þjónustu en það er vissara að gefa Súðvíkingum tækifæri til að tjá sig um það. En þetta snýst líka um hvað svæðið þolir, það þarf að huga að mengun og að ganga ekki of langt á umhverfið.“

En málið snýst ekki síður um að bjarga menningarverðmætum, segir Sigurður. Á síðustu árum og áratugum hafi miklum fjölda tréskipa verið fargað á eldi eða niðurbroti og svo mun áfram verða þar sem fjármagn til varðveislu þessara minja sé af skornum skammti. Mjög kostnaðarsamt sé að halda svona skipum við og bendir Sigurður á reynslu Skagamanna af kútter Sigurfara, en honum verður líklega fargað þar sem ljóst er að endurbætur eru of kostnaðarsamar. Í tillögunni er bent á að dæmi séu um að sokkin timburskip hafi varðveist mjög vel og þess vegna megi sækja þau af hafsbotni síðar og endurgera.

Tréskipið María Júlía hefur legið við bryggju í Ísafjarðarhöfn í rúman áratug þar sem það grotnar niður.

Sigurður segir að Vestfirðingar standi frammi fyrir álíka vandamáli og Skagamenn því tréskipið María Júlía hafi legið við bryggju í Ísafjarðarhöfn í rúman áratug þar sem hún grotnar niður. Hann sér því fyrir sér að hægt verði að varðveita það skip í skipakirkjugarðinum. „Það stóð alltaf til að endurgera skipið en það er orðið svo risavaxið verkefni sem ég sé ekki annað en að menn muni ýta á undan sér næstu árin. Það blasir við að á næstu fimm árum komi hún til með að sökkva upp við bryggju og þá mun kosta milljónir að ná henni upp og maður spyr sig hvort það sé ekki bara betra að sökkva skipinu.“

Ríkið stendur í skuld við Vestfirðinga
María Júlía er í eigu Byggðasafns Vestfjarða og Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti en það fyrrnefnda hefur séð um að fóstra skipið og greiða af því hafnargjöld. Skipið á sér um margt merka sögu því þetta var fyrsta björgunarskip Vestfirðinga og voru það kvenfélög á svæðinu sem sáu um að fjármagna kaupin. Helga Þórsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða, segir það afleita hugmynd að sökkva skipinu. „Mér finnst það ekki koma til greina, en það kemur heldur ekki til greina að láta það liggja í höfninni,“ segir Helga við Mannlíf.

„… maður spyr sig hvort það sé ekki bara betra að sökkva skipinu.“

Endurgerð Maríu Júlíu hefur setið á hakanum um árabil sökum fjármagnsskorts. Helga segir að ríkið hafi á sínum tíma gert heiðursmannasamkomulag um að veita opinberum fjármunum til að endurgera skipið en aðeins brot af þeim 148 milljónum sem var lofað hafi skilað sér. Verði skipinu hins vegar sökkt þurfi að skila þeim fjármunum sem þó hafa skilað sér. „Ef það á að afskrá Maríu Júlíu þá þarf bærinn eða safnið að borga 20 milljónir til baka. Safnið á ekki slíka fjármuni. Staðreyndin er sú að ríkið stendur í skuld við okkur og það ætti að sjá sóma sinn í að standa við það samkomulag sem var gert. Mér finnst ekki hægt að leyfa þeirri sögu að sökkva og það væri óvirðing við vinnu allra þessara kvenna á Vestfjörðum sem lögðu í þessa ótrúlega söfnun.“

Á fundi bæjarráðs var óskað eftir því að tillagan yrði rædd í sveitarstjórn Súðavíkurhrepps.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -