Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Scandia-hnífapörin – alltaf klassísk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margir kannast við þessi hnífapör, Scandia-hnífapörin, sem Kaj Franck hannaði árið 1952 og voru framleidd af Hackman, oft kennd við framleiðandann. Mörg okkar ólumst upp við þau, aðrir muna eftir þessum kúptu skeiðum hjá ömmu sem voru svo fullkomnar fyrir Cheerios-ið. Þetta voru hér áður hin dæmigerðu hversdagshnífapör Íslendinga.

 

Við hönnun hnífaparanna var hugsunin sú að notagildið væri í fyrirrúmi og formin fylgdu á eftir, einföld og falleg. Kaj Franck hannaði Scandia-hnífapörin á sama tíma og Kilta-borðbúnaðinn sem seinna fékk nafnið Teema en segja má að það leirtau sé táknmynd fyrir finnska framleiðandann Arabia.

Á þessum tíma voru silfurhnífapör staðalbúnaður á öllum betri heimilum og með tilkomu þessara einföldu hnífapara sem laus voru við allar dúllur og flúr má segja að Kaj Franck hafi verið brautryðjandi, komið með nýja strauma inn í borðbúnaðarflóruna sem fyrir var.

Skeiðin var hönnuð dýpri og meira hringlaga en tíðkaðist og því þægilegri til að borða súpur, gaffallinn var gerður sterklegri, með flatari teina sem átti að gera fólki auðveldara með að ná baunum og öðru smáu upp. Hnífapörin fara sérstaklega vel í hendi og um leið og rendurnar gefa hnífapörunum sterkan svip þá skapa þær einnig betra grip.

Hnífapörin fara sérstaklega vel í hendi.

Hnífapörin voru í framleiðslu frá 1952-1989 og aftur frá 1996-1998 og voru þau ekki aftur fáanleg fyrr en 2016. Vinsældir þeirra höfðu þá aukist ár frá ári og var svo komið að setið var um þau á nytjamörkuðum og í verslunum sem selja húsbúnað frá þessum tíma. Til að mæta eftirspurn ákvað finnski framleiðandinn Iittala að dusta rykið af teikningunum árið 2016 og betrumbæta þær örlítið, þ.e. stækka hnífapörin til að koma til móts við þarfir hins stóra nútímamanns. Það ár voru hnífapörin sett á markað í nýrri útgáfu sem hluti af heildarlínu Kaj Franck hjá Iittala, ásamt Teema-leirtauinu og Kartio-glösunum sem er hönnun hans frá 1953.

Texti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Myndir / Frá framleiðanda

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -