Föstudagur 26. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Anna fór í störukeppni við skrímsli: „Lengi lék vafi á hvort okkar myndi sigra“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir skrifar um baráttu sína við skrímsli á Tenerife, sem hún kallar reyndar vorboðann ljúfa.

Eins og alþjóð veit heldur Anna Kristjánsdóttir úti dagbókarfærslum sem hún birtir á Facebook á hverjum degi. Í færslu dagsins segir hún frá baráttu sinni við lítið „skrímsli“ sem mætti óumbeðið á heimili hennar í Paradís. Færslan er drepfyndin að vanda en hana má lesa hér að neðan:

„Dagur 1344 – Vorboðinn ljúfi.

Ég sat á settinu í fyrrakvöld og rétt búin að ljúka mér af þegar ég heyrði þennan dómadagshávaða frá útidyrahurðinni, hún lyftist upp næstum af hjörunum og undan hurðinni kom skríðandi þetta skaðræðis skrýmsli sem engu virtist vilja eira. Mér brá ekki lítið, hljóp fram á gang og hvessti augum á skrýmslið sem hvessti augunum á móti mér og þarna var störustund dauðans og lengi lék vafi á hvort okkar myndi sigra. Þetta var hræðileg stund og ég óttaðist, ekki aðeins um líf mitt og heilsu, heldur einnig um æru mína.
Eftir að manndrápsaugun höfðu barið hvert á öðru um stund í þeirri von að hitt myndi detta niður dautt, gafst skrýmslið upp, snéri við og hörfaði til baka, útidyrahurðin lyftist og skrýmslið skreið þar undir og fram á ganginn í sameigninni og lét sig hverfa. Það er kominn tími til að útidyrahurðin hjá mér fái að blotna hressilega svo hún nái að þrútna nógu mikið til að litlir kakkalakkar nái ekki að skríða undir hana.
Þetta var þá bara pínulítill kakkalakki, vorboðinn ljúfi sem gerir engum mein og er hvers manns hugljúfi.
Eða hvað?
Þetta er annar kakkalakkinn sem ég sé innan sameignarinnar þetta árið og er ekki frá því að kakkalakkarnir séu óvenjusnemma á ferðinni í ár sem er einkennilegt miðað við fimbulkulda vetrarins sem hefur ríkt hér í vetur. Hinn kakkalakkinn var öllu stærri og með vængi og hafði lent í miðjum stiganum bakdyramegin, en hafnaði á bakinu og slíkt kann ekki góðru lukku að stýra og því harmdauði öðrum ættingjum sínum.
Það stefnir í gott kakkalakkaár þetta árið, en af gefnu tilefni fylgja engar myndir þessari frásögn.
—–
Ég mætti á Íslendingahitting á Mónikubar í gær, afsakið Lewinski bar. Það var svo sannarlega tilefni til í þetta sinn því Sverrir og Kolla voru þar, en Sverrir Gunnlaugsson var skipsfélagi minn á henni Vestmannaey VE um fimm ára skeið árin 1974-1980, 1. stýrimaður og afleysningaskipstjóri, virkilega góður félagi, Siglfirðingur að uppruna, en hefur búið í Vestmannaeyjum frá því nokkru fyrir gos, en ef frá er talinn tíminn sem þau hjónin bjuggu í ráðsmannsbústaðnum á Bessastöðum vegna gossins og síðan um tíma í kaupfélagsblokkinni í Hafnarfirði, hafa þau hjónin búið í Vestmannaeyjum. Kolbrún er hinsvegar eðal Vestmannaeyingur.
Þau hafa átt íbúð hér í Paradís í mörg ár, en hafa ekki komið hingað lengi vegna veikinda Kollu, en eru loksins komin hingað og varð það fagnaðarfundur. Þess má geta að þrátt fyrir ítarlegar umræður um menn og málefni, fékk enginn Eyjamaður né kona hiksta vegna orða okkar. Það er ekki í eðli hvorki Sverris né Kollu að tala illa um nokkra persónu og ekki þorði ég að véfengja góð orð þeirra.
Það er á hreinu að við munum hittast oftar næstu tvær vikurnar áður en þau fara heim aftur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -