Þriðjudagur 21. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Anna minnist gamalla félaga: „Við sættumst að lokum eftir nokkrar ískaldar vikur á milli okkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Anna Kristjánsdóttir minnist tveggja fallinna starfsmanna Vélskóla Íslands í nýjustu dagbókarfærslu sinni.

Frá því að Anna Kristjánsdóttir vélstjóri flutti til Tenerife, sem hún kallar Paradís, hefur hún skrifaði dagbókarfærslur á Facebook á hverjum degi. Skín kaldhæðnin og húmorinn í gegn í þeim öllum og má það sama segja um nýjust færslu hennar.

Í færslunni minnist Anna tveggja starfsmanna Vélskóla Íslands, þeirra Boga Arnars Finnbogasonar, fyrrum skrifstofustjóra skólans sem lést á dögunum og Andrésar Guðjónssonar, fyrrum skólastjóra skólans sem lést árið 2009. Þá rifjar hún upp í leiðinni spaugilegar smáauglýsingar sem Anna birti sem ritstjóri Skrúfunnar, sem var málgagn Skólafélags Vélskólan Íslands. Færsluna má lesa hér í heild sinni:

„Dagur 1260 – Ársritið Skrúfan.

Þegar ég var ung og falleg bar ég ekki sömu virðingu fyrir fólki eins og síðar varð. Þar sem vafi er hvort ég hafi gegnt stöðu fréttaritara né öðrum fjölmiðlastörfum hefi ég aldrei þurft að standa skil á ýmsum vafasömum ummælum sem ég hefi látið frá mér fara í gegnum tíðina. En samt. Einu sinni var ég ritstjóri og kunni mér að sjálfsögðu engin takmörk og birti allt sem að mér var rétt. Tímaritið hét Skrúfan og var málgagn Skólafélags Vélskóla Íslands. Skólastjóri vor lá veikur með alvarlegan hjartakvilla á spítala og þótti okkur ekki nema eðlilegt að reyna að hjálpa honum með eftirfarandi auglýsingu sem birtist í blaðinu:
„Vantar lensidælu. Andrés.“
Skólastjóri vor náði sér ágætlega eftir þessi veikindi og stjórnaði skólanum í mörg ár eftir þetta og aldrei man ég til þess að hann gerði athugasemd við þessa litlu smáauglýsingu.
Einn af mínum bestu félögum í Vélskólanum var Hallgrímur Guðfinnsson frá Bolungarvík. Hann var róttækur og síðar átti hann bát í félagi við aðra sem hét Karl Marx ÍS-153. Þeir félagarnir gerðu í því að gleyma tilkynningaskyldunni til þess eins að heyra auglýst eftir Karli Marx í útvarpinu. Hallgrímur þótti fremur forn í háttum og því birtist eftirfarandi smáauglýsing í Skrúfunni:
„Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður hélt því fram að til að komast af á heimskautasvæðum þyrfti fólk að lifa og hegða sér að hætti innfæddra. Hallgrímur Guðfinnsson lifir að hætti berfættra og sýpur soðið af sokkunum sínum.“
Síðar eignaðist Hallgrímur kvóta og seldi og fékk fullt af peningum fyrir. Að sögn kunnugra varð hann alveg miður sín er hann sá hve mikið hann fékk og gerði allt sem hann gat til að losna við þessa fjármuni enda sósíalisti af guðs náð. Ég held að hann sé enn á lífi, orðinn aldraður bóndi á Suðurlandi. Yndislegur félagi.
Skrifstofustjóri Vélskólans sem jafnframt var kennari var Bogi Arnar Finnbogason þekktur enskukennari og þýðandi hjá Sjónvarpinu sem lést á dögunum hinn ágætasti maður, en hann slapp samt ekkert við grínið. Hans veikleiki var hárkollan sem hann bar stoltur og hélt að fæstir vissu. Einhver skólafélaginn bað mig um að birta eftirfarandi smáauglýsingu í Skrúfunni og sem mér var ljúft að sinna:
„Er ég eða er ég ekki með hárkollu. Það er eitt af leyndarmálum náttúrunnar.
Bogi Arnar Finnbogason“.
Bogi var ekki sáttur við þessa auglýsingu, en við sættumst að lokum eftir nokkrar ískaldar vikur á milli okkar.
Síðar varð ég varaformaður og loks formaður skólafélagsins um skeið, sat jafnframt í skólanefnd Vélskólans áður en ég varð aftur ritstjóri skólablaðsins í fjórða stigi og við breyttum fyrirkomulagi útgáfu Skrúfunnar í það form sem það hefur verið alla tíð síðan og fram á þennan dag, þá sem fjáröflunarverkefni fyrir úrskriftarnemendur Vélskólans. Þar með hefi ég játað syndir mínar í blaðamennsku ef hægt er að nota þau orð um misheppnaðan ritstjórnartíma minn.
Þetta ritað í tilefni af andláti og útför Boga Arnars Finnbogasonar á dögunum. Blessuð sé minning hans sem og Andrésar Guðjónssonar skólastjóra sem lést árið 2009.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -