Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Dóra og Sævar eignuðust son – „Velkominn í heiminn elsku barnið mitt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi og odd­viti Pírata til­kynnti fæðingu barns hennar og Sæ­vars Ólafs­sonar íþróttafræðings á Facebook í gær. Eignuðust þau dreng, fimm dögum fyrir settan dag og er Dóra í skýjunum. ,,Hann er svo undur­fal­legur og bjartur og lýsir upp hjörtun okkar. Ég hef aldrei upp­lifað slíka ást,“ skrifar Dóra um erfingjann í fallegum pistli. Við óskum Dóru og Sævari innilega til hamingju með soninn, pistilinn má lesa í heild hér að neðan.

„Baráttubarnið okkar er fætt 

Í dag 1. maí er settur dagur drengsins okkar Sævars, sem er baráttubarn í víðum skilningi. En hann lét sjá sig fyrir fimm dögum síðan, á þriðjudag. Hann var 16,5 merkur og 52 cm og litli ljónsunginn fæddist með dökkan makka eins og mamma sín. Hann er svo undurfallegur og bjartur og lýsir upp hjörtun okkar. Ég hef aldrei upplifað slíka ást.

Koma hans í heiminn og fyrstu dagar hafa þó reynst okkur fjölskyldunni krefjandi. Áætluð heimafæðing endaði uppi á Landspítala í töluverðum hasar og aðeins tveggja daga gamlan þurfti að leggja hann inn á vökudeild Barnaspítalans vegna slappleika. Allt hefur þó gengið upp og við fjölskyldan fengum að fara heim í dag, á settum degi. Við njótum þess að vera saman og kynnast. Hann setur allt lífið vissulega í alveg nýtt samhengi.

Í dag á 1. maí er líka eins og við vitum öll baráttudagur vinnandi fólks. Mér hefur alltaf þótt svo vænt um þennan mikilvæga dag. Barátta launafólks um bætt kaup, kjör og vinnuaðstæður og fyrir því að hlustað sé á raddir verkafólks og vinnandi fólks hefur skipt sköpum þegar kemur að eflingu lífsgæða okkar allra. Ég brenn fyrir því að þessar raddir fái að heyrast og að á þær sé hlustað og að mikilvæg vinna í þágu samfélagsins sé metin að verðleikum.

Í því samhengi vil ég nefna botnlausa virðingu mína fyrir vinnu og mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks í ljósi nýliðinnar reynslu okkar. Heilbrigðisstarfsfólk er okkur til halds og trausts á okkar bestu og erfiðustu stundum og stendur vörð um okkar allra dýrmætasta og hefur sannarlega gert það í okkar tilfelli. Ég vil þakka ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, fæðingarlæknum og barnalæknum bæði Bjarkarinnar og Landspítala frá innstu hjartarótum fyrir að grípa mig og fjölskylduna mína á ögurstundu. Fagleg og styrk hjálparhönd þeirra í bland við botnlausa umhyggju og hlýju sem við höfum hlotið síðustu daga frá þessu yndislega fólki gerir mig klökka.

- Auglýsing -

Þau hafa ekki bara tryggt okkur fjölskyldunni viðeigandi og rétta meðhöndlun og meðferð sem hefur lyft okkur yfir þessa erfiðu hjalla heldur líka sáluhjálp, ráðgjöf og öxl til að gráta á. Undursamlegar ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa bæði fyrir, undir og eftir fæðingu og á meðan dvöl okkar á vökudeild stóð hlustað á mig, ráðlagt mér, sýnt mér endalausan skilning og stuðning og hafa bókstaflega gripið mig í sinn faðm þegar tárin hafa streymt niður vangana í rosalegasta tilfinningarússíbanakokteil lífs míns.

Borið hefur á þungri umræðu um fæðingar og heilbrigðisstarfsfólk síðustu mánuði en ég vil segja að mín erfiða reynsla er þó böðuð ljóma þessa fólks. Þeirra visku og hjartagæsku. Ég verð þessu fólki ævinlega þakklát. Þetta fólk á allt gott skilið. Það á skilið miklu meira en það fær. Gleðilegan 1. maí. Baráttan lifir. Velkominn í heiminn elsku barnið mitt.“

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -