Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Óttar upplifir ellismánun á Íslandi: „Umræðan á netinu er mjög hatrömm“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þeir sem hæst láta á netinu eiga það sammerkt að vilja þagga niður í “elliærum gamalmennum” með öllum ráðum,“ segir geðlæknirinn og pistlahöfundurinn Óttar Guðmundsson. Hann segir að umræðan í netheimum sé afar hatrömm og reglulega verði hann fyrir ellismánun. Þegar fólki mislíki eitthvað sem hann hefur skrifað í pistlum sínum er hann oft kallaður „elliær kallfauskur“, „hálfviti“ eða „svokallaður geðlæknir“.

Óttar birti skoðun sína á vefnum Lífið er núna. Hér kemur pistill hans í heild sinni:

 

„Umhverfi pistlahöfunda hefur breyst mikið í áranna rás. Lesendur eru mun viðkvæmari en fyrr. Fólk á til að móðgast út í það óendanlega fyrir hönd annarra. Samfélagsumræðan  er full af hættulegum jarðsprengjusvæðum. Það úir og grúir af pólitískum varðhundum á netinu sem gelta hátt ef einhver villist út af réttri braut. Netið viðheldur þannig ákveðinni skoðanakúgun í nafni rétthugsunar.

Umræðan á Íslandi er því einhæf þar sem ákveðnir valinkunnir álitsgjafar gefa tóninn og kommentakerfið endurómar skoðanir þeirra. Fastur pistlahöfundur til margra ára verður að haga seglum eftir vindi. Það hefur þó ekki alltaf tekist og ég hef uppskorið mikinn reiðilestur netverja vegna ógætilegra ummæla. En stundum hefur mér heppnast ágætlega og fengið mikið hrós í pottum sundlauganna og frá fisksalanum mínum.

Vinsælustu pistlarnir eru venjulega þeir sem fólk tengir við tilfinningalega. Ég skrifaði einu sinni pistil sem kallaðist “Ertu enn?” Hann höfðaði til fjölmargra sem í sífellu fá  spurninguna hvort þeir séu enn að vinna, enn í gamla húsinu eða enn að keyra bíl. Samfélagið gengur útfrá því að gamalt fólk eigi að leggja árar í bát á ákveðnum aldri og bíða dauða síns með golfkylfu í hendi.

- Auglýsing -

Umræðan á netinu er mjög hatrömm og fæstir virðast óttast meiðyrðalöggjöfina. Þegar netinu mislíkar eitthvað sem ég hef skrifað er ég venjulega kallaður “elliær kallfauskur,” “hálfviti” eða “svokallaður geðlæknir.” Það er lærdómsríkt fyrir eldri borgara hversu fljótir menn eru að grípa til ellismánunar þegar eldri maður á í hlut. Sömuleiðis er þess krafist að ég hætti að vinna enda eiga “karlæg gamalmenni” að halda sig innan veggja skilgreindra stofnana. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ummæli sem þessi gagnvart eldri borgurum eru ekki skilgreind sem hatursorðræða eins og sams konar ummæli gagnvart öðrum samfélagshópum.

Þeir sem hæst láta á netinu eiga það sammerkt að vilja þagga niður í “elliærum gamalmennum” með öllum ráðum. Þau eigi ekkert erindi inn í þjóðfélagsumræðuna. Það skiptir því miklu máli að láta ekki deigan síga heldur halda áfram að tjá sig og viðra skoðanir sínar þótt þær falli utan ramma hinnar viðurkenndu pólitísku rétthugsunar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -