Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Skuggahliðar merkjanna – Seinni hluti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og flest fólk er hvert og eitt merki stjörnuspekinnar ýmsum kostum gætt. Að sama skapi eiga þau öll sína galla, jafnvel skuggahliðar, sem fólk í þeim merkjum gæti þurft að vinna meira í en öðrum.

Í hinum og þessum spiritúalismanum er oft talað um skuggavinnu, eða „shadow work“, þar sem viðkomandi skoðar sérstaklega og vinnur með eigin skuggahliðar. Ekki með því að reyna að hrekja þær burt eða fela þær, heldur þvert á móti með því að viðurkenna þær, skoða þær, læra að skilja þær og svo vinna með þær. Oft getum við lært margt af þessum hliðum okkar og stundum er okkur hreinlega lífsnauðsynlegt að tjá sumar þeirra, í réttu jafnvægi.

Skuggahliðar okkar eru jafn stór partur af okkur eins og þær björtu – enda getur ekkert ljós orðið án myrkurs. Eða, eins og meistari Leonard Cohen orti:

„There is a crack, a crack in everything. That’s how the light get’s in.“

Hér á eftir verður farið yfir nokkrar best þekktu eða mest áberandi skuggahliðar hvers stjörnumerkis fyrir sig. Taki þeir það til sín sem eiga.

Í síðasta helgarblaði Mannlífs birtust skuggahliðar fyrstu sex stjörnumerkjanna í hringnum – frá Hrúti til Meyju. Hér á eftir verður farið yfir seinni helming merkjanna, frá Vog til Fiska. 

- Auglýsing -

 

Vog

 

Óákveðni – Flestar ákvarðanir, hvort sem þær eru stórar eða smáar, eiga það til að verða voginni þrautin þyngri. Það er til dæmis yfirleitt alveg vonlaust að láta þær ákveða hvað á að vera í matinn. Stærri ákvarðanir valda þeim valkvíða og þær sjá fyrir sér alla möguleika og ómöguleika. Vogir eru samt hreint ekki skoðanalausar – þær láta þig nefnilega sannarlega heyra það, finnist þeim þú hafa valið rangt. Þær þurfa að hafa það í huga, að það að taka ekki ákvörðun er ákvörðun út af fyrir sig.

- Auglýsing -

 

Fórnarlamb – Vogir eiga auðvelt með að setja sig í fórnarlambshlutverk. Lífið kemur fyrir þær. Í átökum, eins og rifrildi við vini eða maka, eru þær fljótar að setja hlutina þannig upp að þær séu fórnarlamb í aðstæðunum og allt sé hinum aðilanum að kenna; jafnvel að hinn sé vondur eða grimmur við þær. Þær geta verið dálítið slyngar í þessu, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því sjálfar.

 

Ástsýki – Hvort of djúpt sé í árina tekið með því að nefna ástsýki, er alveg á hreinu að vogir hafa á sér orðspor fyrir að sækja í sambönd og vilja eiga maka. Þeim hugnast einvera ekki og þær eru ófáar vogirnar sem stökkva sífellt úr einu sambandinu yfir í það næsta.

 

 

Sporðdreki

 

Hefnigirni – Hefndin er sannarlega sæt í huga sporðdrekans. Hann trúir á „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“. Sumir sporðdrekar þyrftu að læra þá lexíu að yfirleitt gefur hefnd þeim ekki mikla gleði þegar allt kemur til alls. Sumir sporðdrekar vita þetta þó, en hafa gaman af því að plana útpælda og ískalda hefnd og tala um hana, þrátt fyrir að þeir framkvæmi hana sennilega ekki. Sennilega.

 

Langrækni – Þetta er gott fyrir alla nákomna sporðdrekum að vita: Sporðdrekar gleyma engu. Það er ótrúlegt hvað þeir geta haldið dauðahaldi í eitthvað sem einhver gerði á hlut þeirra einhvern tíma. Flestir þeirra eiga einhvers konar svartan lista, hvort sem hann er í föstu formi eða í höfðinu á þeim. Það er erfitt að komast af þeim lista, hafir þú á annað borð ratað þangað.

 

Stjórnsemi – Sporðdrekar sækja í völd og vilja hafa ákveðna stjórn á aðstæðum. Þeir vilja bæði skrifa og leikstýra atburðarásinni. Þeir eiga það til að sýna stjórnunarhegðun í garð sinna nánustu, sem eðlilega getur fallið í grýttan jarðveg.

 

 

Bogmaður

 

Flótti – Bogmenn eru sífellt á hlaupum. Hvort sem það eru verkefni, áhugamál eða utanlandsferðir, þá eru þeir á ferð og flugi og er oft þvert um geð að nema staðar til þess að fara djúpt í saumana á einhverju. Þeir eiga það til dæmis til, að byrja í nýju sambandi og stinga svo af til Honulúlú eða annars spennandi staðar. Þú færð kannski póstkort.

 

Óáreiðanleiki – Það getur verið dálítið erfitt að treysta á bogmenn. Þeim virðist sumum til dæmis lífsins ómögulegt að vera stundvísir. Klukkan þeirra bara virkar ekki og þannig er það. Þetta er sums staðar í lagi, en getur verið flókið þegar fólk þarf að treysta á bogmann í mikilvægum verkefnum.

 

Skapofsi – Já, þótt bogmenn séu gjarnan taldir hressasta og jákvæðasta stjörnumerkið þá eru þeir ansi skapstórir. Þeir geta orðið öskureiðir á ofsahraða og sagt ýmislegt sem þeir ef til vill iðrast seinna. Eða ekki, því þeir eiga það líka hreinlega til að gleyma því sem þeir hafa sagt og skilja svo ekkert hvers vegna fólk er súrt.

 

 

Steingeit

 

Stjórnsemi – Steingeitur vilja hafa stjórn á lífi sínu og kunna best við að hafa eitthvert plan í höndunum. Þær eiga það þó til að reyna að stjórna öllu og öllum. Málið er einfaldlega að þær treysta engum betur en sjálfum sér.

 

Valdagræðgi – Steingeitur eru rómaðar fyrir metnaðargirni sína en sú metnaðargirni getur líka farið út í öfgar og orðið að valdagræðgi. Völd eru alltaf heillandi í augum steingeita, á einn eða annan hátt. Þær verða að reyna að láta það ekki stíga sér til höfuðs, sér í lagi ef þær fá einhver völd í hendurnar.

 

Kaldlyndi – Þegar steingeitur verða of uppteknar af markmiðum og tapa sér í vinnu geta þær virst kaldar og ekki sýna tilfinningum annarra mikla tillitssemi. Steingeitur eru kaldhæðnar í eðli sínu, en í þessu ástandi verður kaldhæðnin beittari en nokkrum sinni fyrr og stundum notuð ótæpilega, jafnvel gegn þeirra nánustu.

 

 

Vatnsberi

 

Skeytingarleysi – Þegar vatnsberar eru á kafi í hugðarefnum sínum er þeim yfirleitt sama um allt annað. Það er eins og þeir nái að aftengja sig og annað fólk og hlutir hafi hreinlega ekki áhrif á þá. Þeir halda til í eigin heimi og allt annað verður lítilvægt í þeirra augum.

 

Þrjóska – Eins víðsýnn og vatnsberinn er gjarnan, er alveg merkilegt hvað hann getur verið þrjóskur. Þegar hann hefur myndað sér skoðun eða bitið eitthvað í sig er fátt sem fær honum haggað. Hann egnir fólk jafnvel í rökræður og er síðan álíka sveigjanlegur og múrsteinn.

 

Sjálfselska – Vatnsberar botna stundum ekkert í því, þegar þeir átta sig allt í einu á því að þeir hafa fælt vini, vandamenn og elskhuga frá sér. Þegar þeir hafa verkefni fyrir stafni finnst þeim oft ekkert mikilvægara til. Þeim þykir þá ekki mikilvægt að rækta sambandið við aðra. Þeir fá ofurfókus á það sem þeir vilja fyrir sjálfa sig.

 

 

Fiskar

 

Tvöfeldni – Þetta fyrirbæri er flókið í tilfelli fiska. Þeir eru í eðli sínu síbreytilegir og flæða eins og vatnið. Þegar þeir veigra sér of mikið við því að taka afstöðu og koma hreint fram með skoðanir sínar, geta þeir virst tvöfaldir í roðinu. Þeir eiga það til að segja eitt í dag og annað á morgun, lofa þessum einhverju en hinum öðru og ekkert af þessu fer saman.

 

Viðkvæmni – Fiskar eru afskaplega tilfinningaríkir. Þeir finna bókstaflega fyrir öllu. Stundum finnst þeim eins og sársauki heimsins hvíli á herðum þeirra og þá eiga þeir það til að draga fyrir gluggana og leggjast í rúmið. Það getur liðið einhver tími þar til þeir treysta sér út í lífið aftur.

 

Leti – Fiskum þykir gott að láta berast með straumnum, sem er stundum gott og blessað en getur farið út í öfgar þegar fiskarnir hætta að láta til sín taka og flatmaga heilu og hálfu dagana að „velta hlutunum fyrir sér“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -