Mánudagur 17. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Einkennin þrjú – Stjörnumerkin sem taka stjórnina, halda í hana eða láta stjórnast af umhverfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áður hefur verið talað um „elementin“ í stjörnuspeki; eld, jörð, loft og vatn, og hvernig merkin tólf skiptast niður á þau og hvað hver þrjú merki í sama elementi eiga sameiginlegt. Annað flokkunarkerfi sem notað er samhliða elementunum eru „einkennin“ (e. qualities). Einkennin eru þrjú og hvert þeirra heldur utan um fjögur merki dýrahringsins.

Merkin innan hvers einkennis eiga þar með ákveðna hluti sammerkta, sem hafa að gera með lífsviðhorf og hegðun. Innan hvers einkennis eru fjögur stjörnumerki sem tilheyra hvert sínu elementinu.

Þannig deila hver fjögur merki ákveðnu grundvallareinkenni sem gefur til kynna hvernig þau hreyfa sig í lífinu og bregðast við ytra umhverfi sínu. Birtingarmynd einkennisins tekur síðan á sig persónulegan blæ hvers merkis, sem og þess elements sem þau tilheyra.

Hvert einkenni tekur til sín eitt merki úr hverju elementi. Þannig er hvert og eitt einkenni með eitt eldmerki, eitt jarðarmerki, eitt loftmerki og eitt vatnsmerki.

 

Kardínáli – upphafsmenn (e. Cardinal)

Hrúturinn, krabbinn, vogin og steingeitin

- Auglýsing -

Þessi merki búa yfir miklum drifkrafti og geta flokkast sem „upphafsmenn“ stjörnumerkjanna. Þetta eru þau merki sem líklegust eru til að byrja á verkefnum og æða af stað út í óvissuna. Þau kunna vel við að vera skrefi á undan fjöldanum og vilja láta til sín taka á hinum ýmsu sviðum. Þessi merki eru táknræn fyrir fyrsta neistann sem gefur af sér bál. Það er engin tilviljun að stjörnuspekiárið hefst á hrútnum – fyrsta kardínála-merkinu.

Þessi merki kjósa gjarnan hafa stjórn á því sem gerist í kringum þau. Þau ætla að stjórna umhverfinu en ekki láta stjórnast af því, hvert á sínu sérsviði. Þetta kemur fram á ólíkan hátt, eftir því hvaða merki á í hlut. Þannig sækja hrútar í stjórn á mörgum sviðum en kunna helst vel við að vera í einhvers konar leiðtogahlutverki, vilja keyra hlutina áfram og fá upphafshugmyndina, á meðan krabbar sækja í stjórn á sviði tilfinninga, heimilis og fjölskyldu. Vogir vilja vera við stjórnvölinn í sínum persónulegu samböndum og í félagslegum aðstæðum. Fyrir þær eru það afar mikilvægir hlutar af lífinu og þær búa yfir mikilli færni á þeim sviðum. Steingeitur vilja stjórna hinum efnislega heimi, peningum, eignum og því sem almennt snýr að fjárhagslegu öryggi og velgengni. Þær hafa yfirleitt náttúrulega færni á þeim sviðum og eiga auðvelt með að taka af skarið í slíku.

 

- Auglýsing -

Föst (e. Fixed)

Nautið, ljónið, sporðdrekinn og vatnsberinn

Þessi merki eru, með fullri virðingu, þrjóskupúkar stjörnuspekinnar. Þau reyna ekki eins mikið að hafa stjórn á umhverfi sínu eins og kardínála-merkin, heldur streitast ef til vill frekar á móti utanaðkomandi áhrifum og því að einhver reyni að hafa áhrif á þau, skoðanir þeirra eða gjörðir. Þessir einstaklingar telja sig yfirleitt vita best og þegar þeir ákveða eitthvað er ekki auðvelt að fá þá til að skipta um skoðun. Hér birtist stjórn helst í sjálfinu og því hvernig merkin koma í veg fyrir að einhver eða eitthvað stjórnist í þeim. Þau eru tengd kjarnanum og sjálfinu, og það er þeim eðlislægt að verja og passa upp á það sem er þeirra, hvort sem um ræðir eitthvað efnislegt eða tilfinningalegt.

Þessi merki eiga auðvelt með að einbeita sér að persónulegum hlutum og því sem snýr að þeim sjálfum. Oft velta þau sjálfinu töluvert fyrir sér. Þau eru almennt staðföst og traust. Rökfesta er þeim í blóð borin og það sem einkennir þau öll er færni þeirra í að setja höfuðið undir sig og halda hlutina út, hvernig sem viðrar.

Festan sem einkennir öll þessi fjögur merki kemur fram á ólíkum sviðum eftir því hvað einkennir merkin sjálf og hvaða elementi þau tilheyra. Þannig á naut auðveldast af þessum merkjum með að finna sér stað í viðteknum venjum og meginstraumi. Þau tileinka sér það sem þeim þykir rétt og viðurkennt. Ljón geta átt dálítið erfitt með að aðlaga hegðun sína ólíkum aðstæðum. Þau koma til dyranna eins og þau eru klædd, hvort sem er í einlægni eða hroka, og eiga þannig oft erfitt með að aðlagast ólíkum aðstæðum, fólki og viðtöku. Vatnsberar eiga það til að festast í neikvæðri sjálfsmynd. Þeir eiga stundum erfitt með að skilja sjálfa sig og taka það stundum inn á sig að finnast þeir á jaðrinum; ekki hluti af hópnum, enda eru þeir fastir fyrir og breytast ekki með umhverfi sínu. Sporðdrekar eiga það til að festast á bólakafi í tilfinningalegum forarpyttum þar sem þeir spóla í sömu hjólförum neikvæðra tilfinninga út í hið óendanlega. Þeir búa yfir innsæi og visku en beina kastljósinu of oft að hinu neikvæða og því sem lætur þeim líða illa. Þeir festast þar og enginn og ekkert annað getur híft þá upp – einungis þeir sjálfir.

 

Breytileg (e. Mutable)

Tvíburarnir, meyjan, bogmaðurinn og fiskarnir

Þetta eru hreyfanlegustu merkin – þau sem eru hvað móttækilegust fyrir utanaðkomandi áhrifum og umhverfi sínu hverju sinni. Þetta eru þau merki sem eiga einna auðveldast með að sleppa takinu og skipta um ham. Stundum geta þessi merki virst hreyfast eins og lauf í vindi og tilfinningar þeirra, skoðanir og gjörðir með. Þau eru í eðli sínu breytileg og eiga auðvelt með að tengjast umhverfi sínu og tíðaranda. Þau eru líka móttækileg fyrir áhrifum frá öðru fólki og drekka oft í sig tilfinningar annarra og andrúmsloft. Þau takast á við þessa hluti á mjög ólíkan hátt.

Tvíburar skipta títt um skoðanir, hugmyndir og stefnu. Þeir virðast stundum leika tveimur skjöldum. Þeir eiga auðvelt með að taka inn ólík sjónarmið og skilja þau. Þannig eru þeirra eigin viðhorf og ákvarðanir í sífelldri þróun og geta tekið hröðum breytingum.

Hegðun og líðan meyja stjórnast mjög af ytri aðstæðum og því sem er að gerast í kringum þær hverju sinni, þær taka allt inn. Þannig verða þær yfirleitt mjög sjálfsgagnrýnar og fara inn í skel ef þær mæta hörku. Fái þær góða endurgjöf og styrkingu er líklegra að þær öðlist trú á sjálfum sér og efist ekki eins mikið og annars. Bogmenn fara í gegnum lífið sem nemendur og eru sífellt að þróa og breyta viðhorfi sínu og sjónarhorni á hlutina. Þeir vilja fara í gegnum lífið þannig að þeir uppgötvi sem mest nýtt og geti tekið hlutina inn.

Líkt og meyjur taka fiskar mikið inn úr umhverfi sínu og samferðafólki. Þeir virðast hins vegar aðlagast umhverfi sínu meira en meyjurnar; eru meira eins og kamelljón. Þannig eru fiskar gjarnan síbreytilegir og taka á sig ýmsar myndir á meðan þeir láta sig berast með straumnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -