Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Satúrnus – ábyrgð, metnaður og lífskrísur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Satúrnus er ein af ytri plánetunum í stjörnuspeki. Nokkrir árgangar í röð eru með Satúrnus í sama stjörnumerkinu og því er hún sögð ein af kynslóðaplánetunum.

Satúrnus í stjörnuspeki stendur fyrir lög og reglur, strúktúr, skyldur, metnað og aga. Satúrnus er kennarinn í stjörnukortinu. Það merki sem Satúrnus var í þegar þú fæddist getur gefið sterka vísbendingu um það hvernig þú nálgast ofangreind atriði og hvernig þú kemur fram í aðstæðum sem krefjast til að mynda aga og ábyrgðar. Sömuleiðis gefur það sterklega til kynna hvaða atriðum þú munt þurfa að vinna hvað mest í varðandi sjálfan þig.

Orka Satúrnusar er þung og raunar er um að ræða áhrif sem ýmsir eru ekkert ýkja hrifnir af. Það er ekki óalgengt að fólk flýi undan eigin Satúrnusi. Plánetan neyðir okkur nefnilega til þess að horfa á umhverfið og okkur sjálf gagnrýnum augum; greina það sem virkar ekki, hvar er hægt að gera betur og hvar við erum hreinlega ekki að standa okkur.

Það eru tvö áberandi lífsskeið um ævina sem hafa mikið með Satúrnus í stjörnukorti okkar að gera og það er vegna þeirra sem Satúrnus hefur orðið alræmdur í dægur-stjörnuspeki.

Tímabilin eru í kringum þrítugt og sextugt, rétt áður raunar, þegar Satúrnus „snýr aftur“ (e. Saturn return). Þetta er í stjörnuspeki talið afar öflugt „transit“.

Þegar fólk lítur yfir farinn veg er ekki ólíklegt að stórir póstar í lífinu; hjónaband, skilnaður, uppsögn, nýr ferill og fleira með svipað mikilvægi – hafi einmitt átt sér stað í kringum þessi tímabil.

- Auglýsing -

Þetta er þegar Satúrnus snýr til baka, nákvæmlega á þann stað í stjörnukortinu sem hann var í þegar þú fæddist. Yfirleitt er hann með allnokkrar lexíur í farteskinu. Þetta tímabil er þegar þú ert um það bil á milli 27-29 ára, 56-60 ára og 84-90 ára. Nákvæm tímasetning fer eftir þínum fæðingardegi, en tímabilið spannar yfirleitt í kringum tvö til þrjú ár. Þetta tímabil sem Satúrnus færir þér er frægt fyrir að umbreyta fólki. Því fylgja yfirleitt töluverðir vaxtarverkir – þetta er að mörgu leyti þungt og alvarlegt tímabil sem getur valdið geðrænum þyngslum, einkum og sér í lagi ef fólk streitist á móti þeim lexíum sem Satúrnus færir því.

Málið er að þú færð lexíuna, hvort sem þér líkar betur eða verr. Svo þá er bara um að gera að spenna beltin og taka fram glósubókina – það má nefnilega græða heilmikið á þessu tímabili. Það færir fólk gjarnan yfir á næsta þroskastig. Oft er talað um að það sem þú hefur reynt að bæla niður, neitað að vinna í eða svið sem þú hefur ekki tekið út nauðsynlegan þroska á – sé einmitt það svið sem Satúrnus hjóli hvað fastast í meðan á endurkomunni stendur.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða þýðingu Satúrnus hefur í hverju stjörnumerki fyrir sig. Hafið í huga að það skiptir líka miklu máli hvaða húsi plánetan lendir í, sem og tengingar hennar við aðrar sterkar plánetur og punkta í stjörnukortinu. Þetta er sérstaklega sagt um Satúrnus, vegna þess að áhrif hans á allt stjörnukort okkar geta verið ansi sterk með tilliti til afstöðu.

- Auglýsing -

 

Hrútur

Þú hefur mikinn drifkraft og átt auðvelt með að byrja á verkefnum. Þú býrð yfir miklum metnaði en átt stundum erfitt með að hafa þig í frammi og taka sterka afstöðu. Þú gætir verið átakafælinn en átt þrátt fyrir það erfitt með að sýna veikleika. Það er mikilvægt að þú leyfir þér að vera orkumikill, ákveðinn og stundum dálítið árásargjarn. Þannig mun sjálfstraust þitt vaxa og þú fylla betur út í sjálfan þig. Hugrekki er lykilatriði hér – það er allt í lagi að gera mistök.

 

Naut

Þú býrð yfir ákveðni og ró. Þú óttast að missa það sem þú átt og hefur, að vera háð öðrum og að hafa ekki það sem þú þarfnast. Það er mikilvægt að þú látir þetta ekki standa í vegi fyrir tækifærum – stundum þarf að láta slag standa og leggja eitthvað undir. Þú þarft að leyfa þér að hafa það gott og njóta ávaxta erfiðis þíns, án þess að fá samviskubit. Samviskubitið er fylgifiskur þinn þegar þú leyfir þér eitthvað og þetta getur fætt af sér skömm sem er engum holl. Þú átt það til að fara djúpt ofan í hjólför þess sem þú þekkir og er öruggt, þegar þú upplifir óöryggi. Þannig geturðu fest þig í sama fari. Lærðu að sleppa takinu á öryggisventlunum þínum og biddu um aðstoð endrum og sinnum.

 

Tvíburi

Þú átt það til að vera með of mörg járn í eldinum í einu og átt þannig stundum erfitt með að einbeita þér fyllilega að verkefnunum. Þú færð stundum óbeit á sjálfum þér í félagslegum aðstæðum og neitar þér um léttúð og gamansemi, þótt það sé mikilvægur partur af persónuleika þínum sem þú þarft að fá að tjá. Þú átt það til að verða afskaplega áhyggjufullur, yfir öllu og engu, svo jaðrar við taugaveiklun. Stundum finnst þér erfitt að þekkja sjálfan þig og upplifir þig sem tvær manneskjur í einni – þú veist ekki hvor er hin rétta og það truflar þig. Hið rétta er að þær eru báðar hin rétta. Þú þarft að gefa báðum hliðum af þér gaum. Þú ert einstaklega rökviss og klár.

 

Krabbi

Þrátt fyrir að hafa ríka þörf fyrir nánd og ástúð áttu stundum erfitt með að tjá þessa þörf, eða endar á því að vera alltaf í því hlutverki fyrir aðra. Stundum finnst þér eins og verið sé að sjúga úr þér alla orku og líf. Þú gerir þó oft ekkert til að stöðva það, en verður sár og bitur í einrúmi. Biturð og langrækni er einmitt annað sem þú berst eflaust við. Þú þarft að varast það að sökkva sífellt dýpra ofan í þann dimma pytt. Það getur haft afskaplega slæm áhrif á heilsu þína.

Þú átt oft erfitt með að hleypa fólki að þér og ert lokaður. Þú byrgir mikið inni og þetta getur hreinlega leitt til heilsufarsvanda. Það er afskaplega mikilvægt að þú forðist það ekki að biðja um ástúð og látir vita að stundum þurfir þú á því að halda að hugsað sé um þig. Þú þarft á öryggi í lífinu að halda. Þetta á til að mynda við um heimili, fjölskyldu og fjármál.

 

Ljón

Þú berst við að finnast þú ekki eiga að þurfa á athygli að halda eða samþykki frá öðrum. Þú átt það til að þróa með þér ýktar, neikvæðar tilfinningar í garð fólks sem sækir í sviðsljósið. Þú átt erfitt með að eiga við egó annarra og fólk sem hefur sig mikið í frammi. Allt hefur þetta að gera með sömu hliðar hjá þér sjálfu, sem þú átt það til að bæla niður. Stundum leyfirðu þér ekki að tjá léttari, barnslegri og orkuríkari hliðar þínar af ótta við hvað fólkinu í kringum þig gæti fundist. Gremja þín gagnvart öðrum í sviðsljósinu sprettur af þinni eigin þörf fyrir viðurkenningu og athygli. Það vill nefnilega þannig til að þegar þú færð enga viðurkenningu og þegar litið er fram hjá þér, þá verðurðu biturt.

Það er afar mikilvægt að þú leyfir þér að sleppa fram af þér beislinu og stígir fram á sviðið í einhverju sem þú hefur gaman af.

 

Meyja

Þú átt það til að vinna yfir þig án þess að finna gleði eða tilgang í því sem þú gerir. Stundum upplifirðu skyldur þínar sem bölvun og það er oft mikil þreyta og þyngsli sem umlykja þig. Þú ert nákvæm og með einstakt auga fyrir smáatriðum. Þetta getur hins vegar breyst í fullkomnunaráráttu sem með tímanum veldur þér kvíða og gerir það að verkum að þú átt erfitt með að klára verkefnin – það er nefnilega alltaf eitthvað sem má bæta. Þetta gerir það líka oft að verkum að þú verður hrædd við breytingar, ný verkefni og hugmyndir. Þú sérð skrattann í hverju horni og með honum tilefni til ótal mismunandi mistaka.

Þú þarft að viðurkenna þessa eiginleika og vinna í þeim til þess að geta smátt og smátt stigið inn í óttann og tekið fagnandi á móti nýjum verkefnum og tækifærum.

 

Vog

Valkvíði getur sannarlega orðið þér að falli – þú vegur og metur út í hið óendanlega og átt erfitt með að standa með ákvörðunum. Þú átt bara svo auðvelt með að sjá allar mögulegar útkomur og það er þér nánast óbærilegt að gera eitthvað „rangt“. Þú ert afar sanngjörn og réttsýn. Þetta er í sjálfu sér mikill kostur en getur þó einnig orðið til þess að þú verðir sár út í heiminn, finnist hann ljótur og ósanngjarn. Þetta getur valdið depurð. Einnig áttu það til að fara að búa í hálfgerðum fantasíuheimi, til þess að þurfa ekki að takast á við allt óréttlætið sem blasir við þér.

Þú sækir mikið í sambönd og samskipti við aðra. Félagsleg tengsl eru af hinu góða en það er mikilvægt að verða ekki meðvirk með öðrum eða háð öðru fólki. Það er eitthvað sem getur vel hent þig. Þú þarft því að leggja rækt við eigið sjálfstæði og æfa þig í að taka ákvarðanir – enda er engin ákvörðun, ákvörðun út af fyrir sig. Hefurðu velt því fyrir þér?

 

Sporðdreki

Þú átt það til að reyna að afneita dimmari kimum sjálfsins og eigin tilfinninga, sem búa þó svo kröftuglega í þér. Dæmi um þetta er afbrýðisemi, langrækni, hefnigirni og fleira. Þér er eðlislægt að tengjast dimmari kimum lífsins en það reynist þér oft flókið að horfast í augu við þá. Þegar þú bælir hluta af sjálfum þér niður geturðu orðið afar óhamingjusamur.

Þú átt stundum erfitt með að opna þig fyrir öðrum, vilt byrgja tilfinningar þínar inni og líkar illa að sýna veika bletti. Þú átt það til að kæla allt niður í frostmark og verða fjarlægur ef þér sárnar. Þú þarft að æfa þig í að treysta og finna hvað það getur verið gott að opna sig og treysta öðrum fyrir sínum hjartans málum. Enginn er eyland.

 

Bogmaður

Þú þarft að ganga þinn eigin lífsveg og semja þínar eigin reglur. Það hentar þér illa að fylgja uppskriftum annarra. Þú nálgast lífið af ákveðnum heiðarleika og ert ekkert fyrir að flækja hlutina. Þú gætir átt í sterku eða flóknu sambandi við trúarbrögð. Hugsanlega fylgir þú einu trúarkerfi fram í fingurgóma, af mikilli ástríðu, eða þú ert hugsanlega alla leiðina í hina áttina – fullkomlega trúlaus, svo mjög að það er nánast trú út af fyrir sig.

Þú átt það til að vera svolítið hrokafullur og finnst þú alltaf hafa rétt fyrir þér. Stundum reynist þér erfitt að hlusta á fleiri hliðar. Það er mikilvægt fyrir þig að vera sveigjanlegri. Það er hollt fyrir þig að stökkva á tækifærin og það skiptir ekki alltaf máli að hafa rétt fyrir sér. Stundum þarf bara að láta sig berast með straumnum.

 

Steingeit

Metnaðargirni er þér í blóð borin. Það er partur af þér, jafnvel stór, sem þráir velgengni og að áorka einhverju. Stundum teygir þessi þrá sig í völd. Þú átt hins vegar oft afar erfitt með að bæði viðurkenna og skilja þessa hlið á sjálfri þér og þú getur upplifað þetta sem yfirþyrmandi, eins og heimurinn sé á herðum þínum. Þú hefur djúpstæða þörf fyrir að hafa stjórn á hlutunum. Þetta getur þróast út í þráhyggju og ef þú hefur ekki heilbrigða leið til þess að tjá þessa stjórnsemi, til dæmis í gegnum verkefni eða störf, gæti þessi þörf tekið á sig myrkari mynd og farið að blæða inn í persónuleg sambönd. Þú ert klók manneskja og býrð yfir ríkri ábyrgðartilfinningu. Stundum getur verið að þú finnir fyrir svo mikilli pressu að þú afneitir þessari hlið og farir í öfgar í hina áttina; hristir af þér alla ábyrgð og aðhyllist algjört kæruleysi. Þetta er ekki hollt fyrir þig heldur er þetta hreinræktaður flótti.

Ef þú gengst ekki við metnaðargjarna hlutanum af sjálfri þér er hætt við því að þú finnir fyrir biturð og neikvæðni sem getur dreift úr sér í alla kima lífsins.

 

Vatnsberi

Þú nálgast hlutina blákalt, skoðar staðreyndir og ert vísindalega þenkjandi. Þú átt það til að eiga flókin sambönd við fólk. Þú missir vini ef til vill frá þér á þínum yngri árum. Fólki finnst þú stundum kaldur. Þú átt það til að óttast að standa utan við hópinn, að vera skrýtinn. Þú ert fastur fyrir og þetta getur stundum komið þér í hann krappan í samskiptum.

Fólk þarf að vera þolinmótt við þig í félagslegu samhengi. Hlutir koma gjarnan út úr þér óritskoðaðir. Þú ert rökfastur og vilt ekki dvelja of mikið við drauma. Þú átt það til að mála þig út í horn í félagslegu samhengi, þrátt fyrir að það sé í raun það sem þú óttast mest. Slíkar aðstæður gætu getið af sér einfara, sem er uppfullur af biturð. Þú þrífst nefnilega að hluta til á félagslegum samskiptum. Þú ættir að æfa þig í að vera dálítið óskynsamari og láta slag standa – fylgja hjartanu. Það er hollt fyrir þig.

 

Fiskar

Þú ert samúðarfullur og lætur þig velferð annarra varða. Þú veðjar oft á svarta hestinn og réttir fram hjálparhönd. Þú átt hins vegar erfitt með að taka á móti slíku sjálfur. Reyndar er það þér þvert um geð að finnast eins og aðrir líti á þig sem hjálparvana. Þetta stafar af því að þú átt það til að bæla niður tilfinningar þínar og þörf fyrir ástúð frá öðrum. Þú upplifir það oft sem veikleika.

Reyndar finnurðu fyrir vissri vanþóknun í garð fólks sem þér finnst leika fórnarlamb og þú myndir seint vilja teljast til þess. Allt þetta gerir það að verkum að þú átt erfitt með að þiggja hjálp og taka á móti bæði hrósi og hlýjum orðum. Þú þarft samt mikið á þessu öllu að halda, en hegðun þín gerir það að verkum að fólk lærir oft að vera ekki að hafa sig í frammi með slíka hluti við þig. Þú átt afar erfitt með að nefna og greina eigin tilfinningar. Þannig situr þú oft uppi með depurð, áhyggjur og kvíða sem þú kannt ekki að útskýra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -