Sýnishorn úr þriðju heimildarmynd Hafdal-feðga hjá framleiðslufyrirtækinu Hafdal framleiðsla, hefur nú litið dagsins ljós. Heimildarmyndin heitir Háski: Hlíðin hrynur og fjallar að miklu leiti um aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði 18. desember 2020.
Um er að ræða þriðju heimildarmyndina frá Hafdal framleiðslu í Háska seríunni en áður hafa komið út myndirnar Háski: Fjöllin Rumska og Háski í Vöðlavík en sú fyrrnefnda var tilnefnd til Edduverðlaunanna árið 2018 sem besta heimildarmyndin.

Ljósmynd: Aðsend
Mannlíf heyrði í öðrum framleiðanda myndarinnar, sem frumsýnd verður síðar á árinu.
„Að taka viðtölin auðvitað tók að sumu leiti á, fólk sem missti allt sitt. En það sem mér finnst merkilegast er að það slasast eða ferst enginn, því ef þú lendir í svona flóði þá eru afskaplega litlar líkur á því að þú komist lífs af. Tilviljanir einar réðu því að enginn var í all nokkrum húsum sem að fóru í flóðinu,“ sagði Eiríkur Hafdal, annar þeirra sem stendur að myndinni, aðspurður hvort það hafi ekki tekið á að gera myndina.

Ljósmynd: Aðsend
Eiríkur útskýrir svo hvað sé fjallað um í myndinni.
„Í þessari mynd förum við yfir sögu Seyðisfjarðar, saga skriðufalla á svæðinu og svo eru þessum atburðum gerð góð skil. Svo uppbygging og framtíðin.“
Segir hann að Seyðfirðingar hafi tekið afar vel í verkefnið.
„Þegar við fórum af stað með þetta fengum við mjög góðar viðtökur hjá heimamönnum sem voru boðnir og búnir til að aðstoða okkur á allan hátt. Verð líka að nefna aðgerðar stjórnina á svæðinu, en þeir voru mjög liðlegir varðandi aðgang okkar að svæðinu og að veita okkur upplyisngar bæði í viðtölum og svo bara upplýsingar yfir höfuð. Svo er það auðvitað er ég að gera þetta með pabba. Það er Þórarinn Hávarðsson. Og fyrirtækið mitt Hafdal framleiðsla.“

Ljósmynd: Aðsend
Blaðamaður spurði Eirík hvort þeir feðgar hefðu ekki einnig gert hinar tvær Háska myndirnar saman.
„Jú við gerðum heimildarmynd um snjóflóðin í Neskaupstað 1974 fyrir nokkrum árum, en það var einmitt í þessari sömu seríu. Erum að halda í þetta nafn Háski. Sú mynd hét HÁSKI FJÖLLIN RUMSKA og var hún tilnefnd til Eddunnar 2018 sem besta heimildarmyndin. Gerðum líka mynd sem heitir Háski í Vöðlavík en það er um sjóslys austur á fjörðum 1993. Þannig Seyðisfjörður er þriðja myndin í þessari seríu.“
Hið magnaða sýnishorn úr Háski: Hlíðin hrynur má sjá hér að neðan.