Miðvikudagur 10. apríl, 2024
0.8 C
Reykjavik

Þráinn hefur látið loga í 20 ár: „Hugsa um félagslegu hliðina á þessu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rapphljómsveitin Eldmóðir gaf í gær út sína aðra plötu og ber hún nafnið Láttu loga en í hljómsveitinni eru þeir Þráinn Gunnlaugur Þorsteinsson og Óli Hrafn Jónasson.

Þráinn ætti að vera flestum kunnur sem hafa fylgst með íslenskri rapptónlist undanfarin 20 ár en hann gekk lengi undir nafninu Brisk og var meðal annars í hljómsveitinni Hinir Dæmalausu. Í tilefni nýju plötunnar ræddi Mannlíf við Þráinn um ferilinn, íslenska tónlist og hljómsveitina.

„Auðvitað er ótrúlega gaman að líta til baka og hugsa um félagslegu hliðina á þessu,“ sagði Þráinn þegar hann var spurður um hvað stendur upp úr á löngum ferli. „Það er að segja hvað þetta gaf manni færi á að mynda snertifleti við fólk sem maður hefði annars ekki kynnst. Sömuleiðis þegar maður hitti á rétta tengingu við einhvern og sköpunarkrafturinn sem myndaðist var svo magnaður. Þá er mér kannski efst í huga „Svona rúllum við“ platan sem ég og Benni Valdez, eins og hann kallaði sig þá, gáfum út árið 2010. Þar vorum við að vinna út frá bandaríska mixteip-forminu og því ríkjandi sándi sem var í gangi þar, og sömdum yfir 30 lög á nokkrum mánuðum. Mér finnst ég upplifa það sama í samspili okkar Holy Hrafns í okkar vinnu sem Eldmóðir, við vinnum gríðarlega vel saman og bætum hugmyndir hvors annars.“

En hver er munurinn á rappmenningunni í dag og þegar hann var að byrja fyrir 20 árum?

„Að mínu mati er það svolítið tvíþætt,“ sagði Þráinn. „Annars vegar er aðgengi að tækni þegar kemur að upptökum, eftirvinnslu, útgáfu og myndrænni umgjörð á allt öðrum stað. Tæknilega hliðin á tónlistarsenunni í dag gefur svo rík tækifæri fyrir tónlistarfólk að vinna sjálfstætt frá A til Ö og þar af leiðandi skila frá sér tónlist út frá eigin hugsjón og persónuleika ómengaðri af málamiðlun og utanaðkomandi áhrifum.

- Auglýsing -

Þar kemur inn seinni punkturinn, þó það sé auðvitað alltaf eitthvað ríkjandi sánd hverju sinni í rapptónlist eins og í annarri tónlist þá finnst mér aðgengi sjálfstæðra tónlistarmanna til eigin útgáfu hafa skapað gríðarlegan fjölbreytileika innan senunnar og mikið af röppurum í dag eru með sterkan sérstæðan stíl.“

Óhætt er að segja að rapptónlist sé sú vinsælasta á landinu í dag og hefur verið undanfarin áratug. Hvað stendur upp úr í dag að mati Þráins?

„Ég held mjög mikið upp á rappdúóið CYBER, en mér finnst þær ná þessu fullkomna jafnvægi á að vera með sterk séreinkenni hvor fyrir sig en hljóma síðan svo ótrúlega vel saman á lagi. 2020 platan þeirra Vacation er mín uppáhalds plata síðustu ára og ég bíð spenntur eftir næstu frá þeim. Önnur þeirra gaf nýverið út plötu undir nafninu Neonme sem er líka algjör veisla fyrir eyrun. Aðrir sem ég held sérstaklega upp á þessa dagana eru Daniil, Jóhann Kristófer, Birnir og Alexander Jarl en mér finnst þeir vera gott dæmi um rappara með mjög sterkan stíl. Verð líka að nefna Ella Grill sem einn af mínum allra uppáhalds á Íslandi, algjörlega einstakur.“

- Auglýsing -

„Við Óli höfum verið vinir síðan í framhaldsskóla og höfum verið dyggur stuðningur fyrir hvorn annan yfir þann tíma,“ sagði rappkappinn þegar hann var spurður út í hvernig Eldmóðir urðu til. „Hann hefur alltaf verið svakalega virkur í tónlistinni á meðan ég stökk til öðru hverju yfir árin með stakar innkomur í lögum hjá honum. Á einhverjum tímapunkti 2022 ákváðum við að taka höndum saman og vinna skipulega sem ein eining. Hann sér um undirspil og upptökur, saman sjáum við um texta og flutning svo svo sé ég að endingu um útgáfuatriði eins og plötuumslag, myndvinnslu og myndbandagerð. Það samstarf hefur verið mjög frjótt og hófst opinberlega með plötunni Bálsýnir í maí 2023 og síðar klúbba laginu Stefán Braga um haustið, á bak við tjöldin er svo ýmislegt í bígerð.“

Eldmóðir eru hvergi nærri hættir

En hvað tekur við nú þegar platan er komin út?

„Við erum að halda nokkrum boltum á lofti á sama tíma. Við fylgjum eftir útgáfu á þessari plötu með sér „single“ þegar nær dregur sumri. Svo í haust gefum við út aðra plötu þar sem við leikum okkur með aðeins dansvænni hljóm og stefnan fyrir 2025 er plata sem lokar ákveðnum hljóðheima þríleik sem við erum að vinna að með Bálsýnir árið 2023 og Láttu loga núna í mars.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -