Sunnudagur 21. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Verðlaunabuguð Elísabet skrifar nýja bók: „Nýrnaveikindin ekki neitt miðað við þennan kvíða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elísabetu Jökulsdóttur gengur allt í haginn um þessar mundir, eða því sem næst. Hún vinnur nú að glænýrri bók sem fjallar um konu sem flytur til Hveragerðis en kemur sér ekki úr spori sökum kvíða. Sjálf flutti hún einmitt til Hveragerðis og þjáist af kvíða. Mannlíf ræddi við Elísabetu um listina, daginn og veginn. Og kvíðann.

Elísabet Jökulsdóttir
Ljósmynd: Aðsend

Hin margverðlaunaða skáldkona og rithöfundur, Elísabet Jökulsdóttir er eitt af óskabörnum þjóðarinnar en hún er þekkt fyrir hispursleysi, húmor, einlægni og frumleika, svo fátt eitt sé nefnt. Hún er ekki vön að feta troðnar slóðir, svo mikið er víst.

Þessa dagana er Elísabet í heimsókn í Reykjavík en fer brátt aftur heim í Hveragerði. „Ég segi allt fínt nema ég er alveg ofboðslega eitthvað þreytt og lúin og mig svimar af þreytu. Ég er búin að vera að gera svo mikið, hitta svo marga. Svo fer ég alltaf að sofa klukkan átta en ég fór að sofa klukkan hálf eitt í gær af því að ég var í Silfrinu. En ég hef það voða fínt og það er gaman í bænum. Ég vil ekkert fara aftur heim strax,“ segir Elísabet í samtali við Mannlíf.

Saknaðarilmur, leikrit sem gert er eftir samnefndri bók Elísabetar hefur heldur betur slegið í gegn en nýverið hlaut leikritið flestar tilnefningar Grímuverðlaunanna sem fram fara annað kvöld en skáldið ætlar auðvitað að mæta. „Já, ég ætla að mæta,“ segir Elísabet aðspurð hvort hún ætli að fara á Grímuna. „Maður er bara stoppaður út á götu,“ heldur hún áfram, og á við vinsældir leikritsins. „Ég hitti konu í gær sem fer aldrei í leikhús af prinsipp ástæðum, sagði hún mér en hún hefði farið á þetta og væri alveg í skýjunum.“

Erfiður flutningur

- Auglýsing -

Eins og oft hefur komið fram hér fyrir ofan, flutti Elísabet nýlega til Hveragerðis en hvernig er lífið þar? „Það er bara fínt. Það tók mig átta mánuði að vera í sorgarferli út af gamla húsinu mínu en svo allt í einu reis ég upp og fór að gróðursetja ræturnar og kannski á ég eftir að eiga heima í Hveragerði alla mína ævi, ég veit það ekki. En ég tek alltaf eitt ár í viðbót, one year at a time. En bærinn er voða fallegur, með foss í miðjunni og allan þennan gróður. En Reykjavík er líka voðalega falleg með öll sín tré. Í gamla hverfinu mínu, þar er maður eins og umvafin skógi. En svo hef ég verið með, til að tengjast Hveragerði, ljóðalestur og hljóðfæraslátt á listasafninu, fjórum sinnum í fyrrasumar. Það var voða gaman því maður vildi gefa eitthvað til bæjarfélagsins og tengjast.“

Síðustu ár hefur Elísabet glímt við erfið nýrnaveikindi en henni líður nú orðið betur með nýtt nýra. „Nema ég þarf að sofa voða mikið. En þá er ég með alveg fulla orku. Ég sef alveg tíu, tólf tíma, eins og engill. En þá er ég líka alveg á fullu í tólf tíma, get bara unnið eins og herforingi og ekkert bítur á mig.“

- Auglýsing -

Kvíði í Hveragerði

Elísabet situr alls ekki auðum höndum eins og sést hér að ofan en fyrir utan þess að sækja verðlaunahátíðir og sjónvarpsþætti, situr hún nú við skrif á glænýrri bók.

En um hvað er hún? „Hún er um konu sem flytur til Hveragerðis og lokast inni. Og þá fer hún að rannsaka allar fyrri innilokanir sínar, hvenær hún hafi lokast inni áður. Og hún hefur lokast inni í skaðlegu sambandi og hún hefur lokast inni í skjalatösku föður síns og hún hefur lokast inni í hugmyndum og herbergjum og leikhúsinu og afbrýðissemi og já, ef það er einhvers staðar innilokun þá skellir hún sér á hana þar til allt í einu er komið nóg og hún þolir ekki meira. Þá fer hún að rannsaka þetta, hvernig stendur á þessu. Og mótið er bara búið hjá henni eins og gengur, hvort sem þetta er kulnun eða burn out eða hvað það heitir. Alla vegana er hún algjörlega búin á því í upphafi bókarinnar og fer að rannsaka málið.“

Aðspurð segir Elísabet ekki enn vera komið nafn á bókina en nokkrar hugmyndir séu á lofti: „Ég hef kallað hana Fiðrildin eru komin og svo hef ég kallað hana Hvar sem þú ert en ég kalla hana bara núna Innilokunarkonan en ég veit ekki hvað hún mun koma til með að heita. Fiðrildin eru komin er nú gott og Elísabetarlegt nafn.“

En hvernig kom sagan til?

„Þetta kom bara allt í einu. Ég var búin að labba svo mikið um í íbúðinni í einmanaleika og leiða. Komst ekki út úr húsi og svo allt í einu fór ég bara að skrifa um það. Það var ógeðslega fyndið. Kona sem er að ráfa um og getur ekkert gert, getur ekki eldað mat og ekki farið í sturtu og svona. Og allt í einu varð hún bara kómísk þegar maður fór að skrifa þetta niður.“

Aðspurð hvort skrifin virki eins og þerapía fyrir hana, játar Elísabet því: „Já ég held það. Nú fer maður að komast út úr húsinu.“ Hún segist þó ekki vera orðin alveg full laus við kvíðann. „Ég get farið í sturtu núna en ég verð alltaf að mana mig upp í það. Ég tek alveg klukkutíma í að mana mig upp í það en stundum get ég bara skellt mér í sturtu eins og ég gerði í gamla daga. En ég er ekki farin að elda mat. Fyrst þegar ég kom til Hveragerðist hitaði ég 1944 rétti og ég keypti mér fisk. En nú er fiskbúðin farin og ég er ekki farin að geta eldað mat. Mig langar rosa mikið að geta spælt egg og búið til nautakjötsrétt og pastarétt en ég einhvern veginn fæ mig ekki til þess en þetta er afgangur af þessum kvíða sem ég hef verið með. Kvíðinn er mikið verri en þessi nýrnaveikindi, þau eru nú ekki neitt miðað við þennan kvíða. En ég er farin að geta keyrt, ég hef keyri um eins og herforingi í viku og á eftir að keyra heim á laugardaginn til þess að kjósa. Þannig að þetta kemur allt saman.“

En hvern ætlar Elísabet, sem bauð sig sjálf fram til embættis forseta árið 2016, að kjósa?

„Ég ætla að kjósa Steinunni Ólínu.“

Verðlaunabugun

Eins og áður hefur komið fram hér, er allt á fullu farti hjá Elísabetu þessi misserin en hún spaugar með álagið: „Ég er búin að vera sex mánuði að skrifa þessa sögu og svo hef ég náttúrulega verið að taka á móti verðlaunum og viðurkenningum. Það er mjög mikil bugun í því,“ segir Elísabet og skellir upp úr. „Ég fer bráðum að skrifa um konuna sem bugaðist af verðlaunaafhendingum.“

Það tók stofnanir og samtök sem útdeila viðurkenningum og verðlaunum nokkuð langan tíma að uppgötva Elísabetu sem skáld og rithöfund en fyrsta bók hennar, ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi, kom út árið 1989. Árið 2008 hlaut hún Fjöruverðlaunin fyrir bókina Heilræði lásasmiðsins og síðan hafa verðlaunin og viðurkenningarnar streymt til hennar. Að spurð hvað henni fyndist um það hversu seint hún fór að hljóta viðurkenningar fyrir verk sín svaraði Elísabet um hæl: „Það fer eftir því hvað maður kallar viðurkenningu. Ég hef gefið út 27 bækur og tvær síðustu voru gefnar út af forlagi og það er allt annað að vera undir handarjaðri forlags heldur en að gefa út sjálfur. Það er svo mikið hark.“

Elísabet seldi bækur sínar lengi vel í Melabúðinni og fékk þar fjölmargar viðurkenningar, frá fólkinu sem hún hitti þar. „Ég var að selja í Melabúðinni og ég fékk fullt af viðurkenningum þar og hitti lesendur sína auglitis til auglitis og átti stefnumót við lesendur eins og einhvern tíma var sagt. Og það var rosalega skemmtilegt. Fólk var að gefa manni viðurkenningu þótt það væri ekki verðlaun á Bessastöðum. Þetta var eitt heljarinnar ævintýri en ég var búin að selja í Melabúðinni í 20 ár og þá var kominn tími til að breyta um, svo maður staðni ekki og fólk fái ekki leið á manni þarna. En ég vil endilega taka það fram að forlagið heldur mjög vel utan um mig og þeir hugsa um mig eins og blóm í eggi og eru voða faglegir og nice líka. Þeir koma bara til Hveragerðis í heimsókn.“

Fyrirmyndirnar

Elísabet kveðst eiga þó nokkrar fyrirmyndir í listinni. „Mér dettur nú í hug Kristín Gunnlaugsdóttir, listmálari. Hún þorir að hafa kúgvendingu í sinni list. Hún fór úr því að mála íkona í kalþólskum stíl yfir í því að sauma risastórar píkumyndir. Mér finnst þetta mjög virðingavert og mér til fyrirmyndar þegar listamenn nenna að brjóta upp, gera eitthvað allt annað. Og svo er það Linda Vilhjálmsdóttir. Hún yrkir allt öðruvísi en ég en hún er mikil fyrirmynd. Hún svona sparar orðin en ég kannski læt þau flakka, öll orðin sem mér dettur í hug. En svo hef ég lært af Lindu að spara stundum orðin og hafa þetta svona beggja blands. Svo get ég nefnt Chaplin líka. Svo var ég að uppgötva nýjan listmálara, hann heitir Jakob Veigar Sigurðsson og hann málar svona kaótískar myndir, eða þú veist, það er svo erfitt að segja að eitthvað sé kaótískt en hann svona lætur allt flakka. Svolítið eins og ég geri sjálf en það er gott þegar maður efast um það hvort maður eigi að láta allt flakka en skoðar svo myndirnar hans.“

Málverk eftir Jakob Veigar Sigurðsson

Og fyrirmyndirnar eru fleiri: „Ég get líka nefnt Shakespear og Beckett, hann er svo góður að skrifa um ekki neitt og nýja bókin sem ég er að skrifa er kannski svolítið um ekki neitt.“

Þegar Mannlíf spurði Elísabetu hvort það væri eitthvað sem hún vildi segja að lokum, stóð ekki á svörum: „Lifi frjáls Palestína!“.

Allar ljósmyndirnar sem birtast með viðtalinu innihalda setningar úr Saknaðarilmi og eru aðsendar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -