Sunnudagur 16. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Börnin frá útlöndum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata

Þegar þetta er skrifað er 3. febrúar 2020. Í dag átti að senda sjö ára dreng að nafni Muhammed til Pakistans. Hann hefur verið hér í rúm tvö ár, á marga vini og talar íslensku. Eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun, samstöðufund með fjölskyldunni og mótmæli gegn brottflutningi hennar hefur dómsmálaráðherra brugðist við með því að tilkynna reglugerðarbreytingu sem á að gera fjölskyldunni kleift að vera hér áfram.

Í dag fagna því Muhammed og fjölskylda hans og er það vel.

Á sama tíma er hætt við því að fólk haldi að búið sé að laga meira en raunin er. Fyrirhuguð reglugerðarbreyting kemur nefnilega ekki í veg fyrir að sjö ára barn sem er búið að festa rætur hér eftir 26 mánaða dvöl verði sent til Pakistans á nákvæmlega sömu forsendum og átti að senda Muhammed. Eini munurinn er að framkvæmd brottvísunar, sem í þetta sinn tafðist í um 9 mánuði, þyrfti að tefjast í rúma 10 mánuði.

Það er vegna þess að þótt dómsmálaráðherra vilji ólm gera eitthvað eftir alla þessa fjölmiðlaumfjöllun, þá er ekki vilji hjá stjórnvöldum til þess að gefa fólki utan EES-svæðisins meira svigrúm til að setjast hér að heldur en virðist algjörlega nauðsynlegt, ýmist vegna ákalls almennings, atvinnurekenda eða alþjóðalaga.

Eðlilega sýnist hverjum sitt um útlendingamál. En ef það er eitthvað eitt sem einkennir orðræðu þeirra sem eru hissa á máli Muhammeds og telja það óvenjulegt (sem það er á engan hátt), sem og þeirra sem telja stefnuna hér of frjálslynda, er að sýn hvorugs hóps er í samræmi við raunveruleikann.

- Auglýsing -

Og eðlilega ekki, vegna þess að undirliggjandi vandinn er sá, að Ísland skortir útlendingastefnu yfirhöfuð.

Við höfum ekki einu sinni skilgreint hvað það er sem við viljum, né hvað það er sem við viljum forðast. Löggjöfin hefur fyrst og fremst þróast út frá samblöndu af tilviljanakenndum sveiflum í misreglulegum flutningum fólks, einhvers konar lagalegri nauðhyggju, þörf yfirvalda til að líta vel út og síðast en ekki síst taugaveiklun yfir því að hér vilji of margt fólk setjast að.

Það er skiljanlega erfitt að búa til útlendingastefnu sem öllum líkar vel við, en þess heldur þarf hún að vera skýr. Þegar stefnan er engin verður til sú blekking að hér sé löggjöfin mun mannúðlegri og frjálslyndari en hún raunverulega er, allri umræðu til tjóns, hvar sem fólk síðan stendur varðandi það hver sú stefna eigi að lokum að vera. Við þurfum að ná umræðunni upp á það plan að geta sett slíka stefnu og er þar ábyrgðin okkar allra.

- Auglýsing -

Vonandi fær Muhammed að búa hér í friði, án þess að þurfa sífellt að réttlæta tilvist sína fyrir samlöndum sínum, og þótt börnum sé vafalaust best borgið utan svíðandi sviðsljóssins skulum við aldrei gleyma sjö ára barninu sem átti að senda úr landi.

Því þau verða fleiri. 

Viltu birta pistil á man.is? Sendu okkur línu. > 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -