Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Ég er landkrabbi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ég er landkrabbi, það er ekki flóknara en svo. Ég ætla ekki segja að ég óttist sjóinn, en ég get heldur ekki sagt að ég óttist hann ekki. Ætli sé ekki hægt að segja að ég beri óttablandna virðingu fyrir hafinu. Í þau skipti sem ég hef neyðst til að stíga um borð í skip hefur það verið á forsendum foreldra minna eða grunnskóla. Yfirleitt hefur það verið til þess að sigla út í einhverja eyju eða skoða hvali. Ég get ekki sagt að ég hafi notið mín sérstaklega án þess þó að hafa verið síælandi. Ferðirnar hafa satt best að segja verið hálfleiðinlegar. Allar nema ein.

Þá var ég 16 ára gamall og var nemandi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Ég tók þá ákvörðun að skrá mig í „skíðaferð“ til Vestmannaeyja, en sú ferð var á vegum nemendafélags FB. Ég var mjög spenntur fyrir ferðinni, en ég almennt séð naut mín mikið í ferðum á vegum nemendafélagsins og var virkur þátttakandi í ýmsum nefndum meðan ég var við í nám í skólanum. Ég hafði hins vegar aldrei komið til Vestmannaeyja áður. Ég fékk far til Þorlákshafnar með Jónasi og Mikael, samnemendum mínum, sem voru miklir djammarar, en sjálfur var ég varla byrjaður að smakka áfengi þó að hin raunverulegi tilgangur ferðarinnar hafi verið að drekka áfengi í miklu magni. Í óhófi jafnvel. Þegar ég hugsa til baka þá skil ég ekki af hverju við fórum til Vestmannaeyja því að allt djammið var inni á hótelinu. En það er hvorki hér né þar.

Ég man þegar ég sá gamla Herjólf í fyrsta skipti. „Er þetta Herjólfur?“ sagði ég upphátt við sjálfan mig, en mér fannst þetta vera algjör dallur. Þegar ég gekk um borð með Jónasi og Mikael áttaði ég mig á því að ég hafði gert þau mistök að gleyma að borða. Ég var of spenntur til að muna það. Þeir félagar sögðu mér að hafa litlar áhyggjur af því. Í Herjólfi væri að finna nóg af góðum mat. Enn í dag velti ég fyrir mér hvort þeir hafi verið að ljúga að mér. Ég pantaði mér hamborgara og gott ef þetta var ekki beikonborgari. Ég borðaði hann með bestu lyst og var Herjólfur ekki lagður á stað úr höfn þegar ég var búinn að háma borgarann í mig.

En þegar Herjólfur hóf siglingu sína breyttist veðrið eins og hendi væri veifað. Ég hef ekki séð annað eins veður nema í kvikmyndum á borð við The Perfect Storm. Kannski eru það ýkjur. Ég varð svo fljótt sjóveikur að ég dauðskammast mín. Allt hringsnerist fyrir augum mínum og ég gekk um eins og ég væri dauðadrukkinn, í háum hælum á skautasvelli. Mér leið þó betur þegar ég var úti á dekki og fékk kaldan vindinn og sjóinn í andlitið en gallinn á gjöf Njarðar var sá að það var mikið frost og ég var illa klæddur. Ég neyddist því þessa tæpu fjóra tíma sem ferðin tók að vera inni að halda á mér hita, þótt mér liði hræðilega þar. Ég er mjög glaður að þetta gerðist fyrir tíma snjallsíma, en ég er nokkuð viss um að ég hefði verið nokkuð vinsælt upptökuefni hjá samnemendum mínum.

Þegar ferðin var rúmlega hálfnuð var nokkuð ljóst barátta mín gegn því að æla væri töpuð og ég tók sprett út á dekk til þess að æla fyrir borð. Sú æla samanstóð mestmegnis af þessum beikonborgara sem ég hafði borðað við upphaf ferðarinnar og mér létti talsvert um leið og ég ældi. Það sem ég tók hins vegar ekki eftir þegar ég hljóp út til að æla var kona sem stóð einhverjum tíu metrum frá ælustað mínum og horfði á öldurnar rísa og síga. Hún var greinilega öllu vön.

Þá gerðist það.

Ælan mín fauk beint í andlit hennar í þeim mikla vindi sem við vorum að sigla upp í. Þetta hefur sennilega verið eins og ef Ólafur Stefánsson hefði kastað ælunni, slíkur var krafturinn.

Ég hef aldrei á ævi minni heyrt annað eins óp og þegar konan áttaði sig á sig hvað hafði gerst. Svo hljóp hún inn í skipið og ég sá hana aldrei aftur. Ég lifði ferðina af, þótt tæpt hafi verið og ég skemmti mér konunglega í Vestmannaeyjum.

- Auglýsing -

Ég hugsa reglulega um þessa konu næstum 20 árum síðar.

Pistill þessi birtist fyrst í nýju blaði Mannlífs sem er hægt að lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -