Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.1 C
Reykjavik

Martröð í Miðhúsaskógi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2011 ákvað ég og þáverandi unnusta mín að fara með eins árs gamla dóttur okkar í sumarbústaðarferð í Miðhúsaskóg. Það var vetur og snjóþungt, en þar sem ég er frá Fellabæ fyrir austan, þar sem snjóar stundum í júní, hafði það engin áhrif á helgarplönin. En þetta voru helgarplön, sem áttu eftir að vera okkur minnisstæð langa, langa lengi.

Við komum nokkuð seint á föstudagskvöldi að bústaðnum, en þegar ég ætlaði að keyra niður að bílastæðinu sem fylgdi honum var það ekki hægt því þar var haugur af snjó, jafnvel of stór haugur fyrir mitt austfirska egó. Þá var ekki annað í stöðunni en að bakka til baka upp brekkuna og leggja fyrir framan bústaðinn. En það gekk ekki betur en svo en að ég festi bílinn á einhverju furðulegu. Ég fór út og sá þá mér til skelfingar að grjóthnullungur lá undir bílnum og á honum sat bíllinn fastur. Þá hafði víst einhverjum snillingnum dottið í hug um sumar að raða steinhnullungum með fram veginum, sem skraut en datt ekki í hug að um veturinn myndi snjóa yfir grjótið og það virka sem gildra fyrir saklausa ökumenn. Ég fór út úr bílnum og valdi nokkur vel valin blótsyrði en fór svo niður á hnén og ákvað að nýta fornleifafræðinám mitt loksins og byrja að grafa í snjónum til að reyna að losa bílinn. Það gerði ég með berum höndum, af því að ég er það mikið karlmenni. Já og af því að ég átti ekki skóflu í bílnum. Allt kom fyrir ekki og ég varð að játa mig sigraðan í bili. Mitt austfirska egó beið hnekki, ég viðurkenni það. Við fórum inn með farangurinn og dóttur okkar og komum okkur fyrir. Ég sótti barnarúmið sem fylgdi þessum VR-bústað enda kominn svefntími hjá dótturinni, en viti menn, auðvitað gat svo auðvelt verkefni ekki verið án vandkvæða. Það reyndist brotið og því algerlega ónothæft. Og hvað gera bændur þá? Ég sá að það voru kveikt ljós í næsta bústað og ákvað því að banka upp á og athuga hvort gestirnir væru með barnarúm sem þeir mættu missa um helgina. Til dyra kom formaður VR, sem mikið hafði verið í fjölmiðlum á þessu ári og með honum var kærasta hans sem einnig var í sömu fréttum. Ég hafði málað í huga mér ljóta mynd af manninum, en hann gat ekki verið almennilegri. Rétti mér barnarúmið með bros á vör og ég skammaðist mín niður í rassgat yfir að hafa málað þessa ljótu mynd af honum, hann var sjálfsagt hinn ágætasti náungi. Þegar ég var kominn aftur með barnarúmið uppgötvaði ég mér til skelfingar að ég var hvorki með símann á mér né kortaveskið, en ég hafði geymt báða hluti í brjóstvasanum á úlpu minni. Eftir að hafa leitað eins og brjálæðingur um allan bústað og inni í bílnum, kviknaði pera í kollinum, loksins. Ég hlaut að hafa misst kortaveskið og símann út úr vasanum þegar ég reyndi að grafa upp bílinn, (berhentur, nota bene). Ég ákvað þá að beita fornleifafræðikunnáttu minni aftur og eftir að hafa grafið nokkra sentímetra niður í snjóinn fann ég bæði kortaveski og síma og eftir að hafa gert C-14 aldursgreiningu, fékk ég staðfest að um mitt dót væri að ræða.

Jæja. Þarna var dóttir mín sofnuð og við hjónaleysin gerðum okkur tilbúin að hafa það kósí fyrir framan sjónvarpið. Við höfðum keypt helgaráskrift að Stöð 2 og ætluðum að njóta okkar í Stöð 2 og „chill“ eins og unga fólkið kallaði þetta á þessu tíma en þetta var áður en Netflix gerði innrás sína inn á íslensk heimili. Maður hefði haldið að eftir að hafa greitt fyrir heila helgi af sjónvarpsefni frá Stöð 2, þá gæti maður horft á sjónvarpsefni frá stöðinni. Ekki við. Það bara virkaði engan veginn, sama á hvaða takka við ýttum eða börðum á sjónvarpið. Og annaðhvort var lokað í símaverinu um helgar á þessum árum eða það svaraði bara enginn. Jæja, við höfðum þó tekið með okkur nokkrar DVD-myndir og þarna var að sjá DVD-tæki svo við áttum að vera góð. Auðvitað vorum við ekki góð, því DVD-spilarinn var ekki í sambandi og helvítis sjónvarpsskenkurinn, sem var risastór og náði yfir sjónvarpið líka, var rígnegldur við vegginn og engin leið að stinga helvítis tækinu í samband. Unnusta mín fyrrverandi hafði tekið ofurþunnu fartölvuna sína með, sem var það þunn að ekki var einu sinni geislaspilari í henni. En hún var með eina kvikmynd vistaða í henni. Og hvaða mynd var það? Nú, auðvitað Willy Wonka and the Chocolate Factory með snillingnum Gene Wilder í aðalhlutverki. Stórkostleg mynd, en svo út úr kú súr(realísk) að maður þyrfti helst að vera helskakkur til að ná henni alveg.

Þegar þarna var komið við sögu var unnustan þáverandi á því að allt sem hefði gengið úrskeiðis, væri fyrirboði einhvers miklu stærra og verra sem ætti eftir að koma fyrir okkur í ferðinni. Bull og vitleysa hélt ég, en annað kom á daginn, þannig séð. Daginn eftir kom über-fúli húsvörðurinn í Miðhúsaskógi til að hjálpa mér að ná bílnum af fáránlega grjótskrautinu. Hann sagði eitthvað í ætt við „Hvernig tókst þér að festa bílinn hérna?“ og með augunum bætti hann við „nautheimski Reykvíkingur.“ Eftir að ég og Frans fúli náðum að losa bílinn með hjálp trjáplanka og austfirskum ökutöktum, þakkaði ég manninum fyrir hjálpina og hélt aftur inn í bústað.

Laugardagurinn gekk án skakkafalla, en þegar við vorum að gera okkur klár í að fara aftur heim, kom þetta sem unnustan hafði fundið á sér. Dóttir okkar var komin inn í bílinn, sem ég hafði í gangi til að hita hann upp. Mamma hennar var að skúra gólfið og ég var að taka allan farangurinn og setja hann í bílinn. Þegar ég hafði sett síðustu töskuna í skottið, sem var litla íþróttataska unnustunnar, gerðist nokkuð sem átti eftir að verða hundleiðinlegt vandamál í hvert sinn sem kólnaði í veðri. Bíllinn læstist. Með lykilinn í startaranum. Enda var bíllinn í gangi, munið þið. Og litla dóttir mín í bílnum. Ég keypti bílinn sumarið áður óafvitandi að í honum leyndist sá galli að á veturna átti hann það til að læsa sér í tíma og ótíma. Mér brá nú ekkert svo því unnustan fyrrverandi var alltaf, og þá meina ég alltaf, með aukalykil að bílnum. Þannig að ég gekk í hægðum mínum til hennar þar sem hún skúraði af miklum móð. Ég bað hana vinsamlegast um lyklana því bíllinn hefði læst sér að gamni sínu. Viti menn, hún hafði sett lyklana í litlu íþróttatöskuna sem ég var nýbúinn að setja í skottið. Við foreldrarnir hlupum út en reyndum að leika okkur svöl þegar við gengum að rúðunni þar sem dóttir okkar sat í barnabílstólnum í bílbeltinu fyrir innan (auðvitað). „Pabbi, koma!“ sagði sú stutta. „Já, ég kem eftir smástund,“ svaraði ég sveittur en rólegur á að líta. „Valería taka í pinnann og toga upp!“ sagði ég í veikri von um að hún fattaði hvað í ósköpunum ég væri að meina, með tilheyrandi látbragði. Hún fattaði auðvitað ekkert hvað pabbi hennar var að reyna að segja og furðaði sig bara á því að við værum ekki að koma í bílinn. Við heyrðum aftur í Frans fúla og báðum hann um hjálp. Andvarpið sagði allt. „Hvað núna, nefaparnir ykkar?“ Hann kom með lögreglugræjur, eða glæpagræjur, fer eftir því hvernig á það er litið, svona græju til að opna bíla án lykla. Ég aðstoðaði hann, en við þurftum að spenna upp hurðina farþegamegin til að koma tólinu meðfram glugganum innanverðum og beið hurðin þess aldrei bætur, var alltaf svolítið belgd og minna einangruð, en við komumst þó í bílinn og gátum haldið heim á leið. Við ákváðum að minnast á það við Frans fúla að Stöð 2 hefði ekki virkað og þá sagði hann af mikilli vandlætingu „Af hverju hringduð þið ekki í mig, ég sé um Stöð 2 hér á svæðinu.“ Mér datt í hug tilvitnun í Adam Sandler, en þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja hana upphátt: „Þessar upplýsingar hefðu komið sér vel Í FYRRADAG!“.

Við komum heim á sunnudagseftirmiðdegi, úttauguð með særð egó eftir helgina, en eftir á hyggja var þetta skemmtileg ferð, þannig séð. Og alveg efni í fína ferðahryllingssögu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -