Þriðjudagur 10. september, 2024
4.9 C
Reykjavik

Ég hitti latan lygara í sundi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í sund með konu minni og þriggja ára syni okkar. Það eru fáir hlutir sem gleðja hann jafn mikið og að leika sér í sundlaugum. Við reynum að fara hverja helgi í sund og höfum gert undanfarin tvö ár en að vetri til eru ekki margir góðir kostir á höfuðborgarsvæðinu sem henta ungum börnum. Okkar niðurstaða er sú að heppilegast sé að fara Dalslaug í Úlfarsárdal þegar kalt er í veðri. Þar er hlý og góð innilaug og margt skemmtilegt dót fyrir krakka til að leika með.

Seinustu helgi biðum við feðgar saman í anddyri laugarinnar meðan móðir hans var að klæða sig eftir sundferðina. Allt í einu kemur þrammandi inn maður, um það bil 60 ára gamall, og hefur ræðuhöld fyrir alla þá sem stóðu í rýminu. Hann talaði stanslaust í rúma mínútu um hversu fá stæði væru hjá sundlauginni og að hann hafi neyðst til að leggja ólöglega. Á þeim tímapunkti gat ég ekki annað en stigið inn í og sagði að hann væri einfaldlega latur, það væri nóg af lausum stæðum en hann nennti ekki að labba meira en þá 50 metra sem hann gerði.

Hann átti greinilega ekki von á að einhver myndi afhjúpa bullið í honum og hélt áfram að ljúga að mér og öðrum á svæðinu. „Ég fór alveg út á enda bílastæðisins og það var allt fullt,“ svaraði maðurinn. Ég spurði þá hvort hann hafi athugað bílastæðin hjá grunnskólanum sem er hinu megin við sundlaugina en þau stæði eru í nokkur hundruð metra fjarlægð frá sundlauginni. Hann svaraði þeirri spurningu ekki heldur fór að kvarta yfir þremur hjólagrindum sem standa á svæðinu. Hver hjólagrind tekur pláss á við einn stóran jeppa en hann vildi meina að hægt væri að byggja 30 stæði í stað þessara hjólagrinda. Á þeim tímapunkti áttaði ég mig á því að það var ekki hægt að ræða við manninn.

Maðurinn vildi meina að hægt væri að byggja tíu bílastæði fyrir hverja hjólastæðagrind

Leiðir okkar skildu og ég fór með fjölskyldu minni í bílinn okkar. Þegar við komum að bílnum okkar fékk ég staðfestingu á því sem mig grunaði. Maðurinn hafði greinilega logið. Ekki aðeins voru laus stæði heldur voru þau 32 talsins ásamt fjórum fyrir rafbíla. Svona er þetta allar helgar hjá sundlauginni fyrir hádegi. Hálffullt bílastæði (og tómt hjá skólanum) en samt eru ávallt 5-15 bílar sem eru lagðir ólöglega og hindra aðgengi gangandi, hjólandi og stundum keyrandi. Aðrir láta sér nægja að skemma grasið á svæðinu. Svona hefur þetta verið síðan sundlaugin opnaði í lok 2021. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk í hjólastól kemst um svæðið án þess að þurfa fara krókaleiðir eða hreinlega vera á götunni.

Lagt upp við skilti sem bannar bílum að leggja

En af hverju gerir fólk þetta? Hver var tilgangur þess að ljúga að mér þegar það lá í augum uppi að þetta væri lygi? Er ástæðan einhvers konar bílastæðafjölgunarmálstaður sem ég skil ekki?

Ég get alveg vel ímyndað mér að það séu ákveðnir álagspunktar á svæðinu og þá séu þessi stæði er ekki nógu mörg. Á sólríku sumareftirmiðdegi þegar Fram er að keppa við KR og sundlaugin er opin. En það er ekki neinn álagspunktur milli 9:00 og 12:00 um helgar og hefur ekki verið síðan sundlaugin opnaði. Mér finnst í raun magnað að hraustir einstaklingar, eins og þessi lygari greinilega var, geti í alvöru ekki labbað í auka 90-120 sekúndur og kjósi frekar að leggja ólöglega.

Kannski var fyrsta hugsun mín hin rétta. Kannski eru Íslendingar virkilega svona latir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -