Mánudagur 20. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

„Þú mátt brunda yfir andlitið á mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir áratug síðan var ég nemandi í Kvikmyndaskóla Íslands, sem var að mestu leyti frábær reynsla. Eins og gefur að skilja þá þurfa nemendur sem stunda kvikmyndanám að kvikmynda. Í einum ákveðnum áfanga átti bekkurinn að þýða atriði úr erlendum bíómyndum yfir á íslensku og taka atriðin upp. Okkur var úthlutað myndavélum og leikurum en annars máttum við útfæra atriðin á þann veg sem við vildum. Við vorum nokkrir ungir menn saman í bekk og allir vildum við verða næsti Stanley Kubrick, Uwe Boll eða Sidney Lumet og vorum tilbúnir til að hjálpa hver öðrum á því ferðalagi. Ef ég á að vera algjörlega hreinskilinn þá man ég ekki hvaða atriði ég valdi og skiptir það litlu máli. Það sem skiptir öllu máli er atriðið sem Trausti, bekkjarbróðir minn, valdi.

Hann valdi atriði úr kvikmyndinni Leaving Las Vegas þar sem vændiskona sefur hjá aðalsöguhetjunni á hótelherbergi, ef minnið svíkur mig ekki. Trausti vildi hins vegar útfæra þetta á sinn eigin máta og vildi að maðurinn hefði selt allar eignir sínar fyrir utan eina dýnu og væri á kojufylleríi. Trausti var nokkuð naskur þegar kom að framleiðslu og setti sig í samband við fasteignasölu sem leyfði honum að taka upp atriðið í kjallaraherbergi í tveggja hæða húsi í Reykjavík. Við mættum galvaskir á staðinn, tilbúnir í ævintýri. Við vorum mættir með myndavélar, hljóðupptökugræjur, ljósabúnað og allt heila klabbið. Við komum fyrir dýnu og tómum áfengisflöskum og biðum eftir leikurunum, karli og konu á þrítugsaldri. Þau höfðu útskrifast úr Kvikmyndaskólanum af leiklistarbraut árinu á undan og því talsvert sjóaðri en við í tökum. Þau komu sér í búninga og var leikkonan nokkuð létt og djarflega klædd og átti að sitja klofvega yfir mótleikara sínum sem lá á dýnunni, á bakinu, allt atriðið.

Eins og gengur og gerist var atriðið æft nokkrum sinnum og hafði Trausti það alveg á tæru hvernig hann vildi hafa hlutina. Myndavélin átti að vera svona og lýsingin svona. Hann fór yfir atriðið með leikurunum af nákvæmni meðan við hinir stilltum öllum upptökubúnaði upp. Svo hófum við að taka atriðið upp, af fullri alvöru, og verður að segjast að atriðið var nokkuð gróft, málfarslega séð, að mati sumra. Við tókum atriðið tvisvar sinnum upp og gekk vel en Trausti ákvað að gera þetta einu sinni til viðbótar. Þegar atriðið var hálfnað sagði leikkonan eftirfarandi setningu, klædd sem hálfnakin vændiskona.

„Þú mátt ríða mér í rassinn og þú mátt brunda yfir andlitið á mér. Passaðu að það fari ekki í hárið, ég var að þvo það.“

Um leið og leikkonan kláraði þessa setningu sáum við að í hurðargáttinni stóð fasteignasali með tvenn miðaldra hjón sér við hlið sem trúðu ekki eigin augum eða eyrum. Þau voru mætt í opið hús en þess í stað gengu þau inn á okkur að taka upp kvikmynd sem var í þeirra augum greinilega klámmynd.

Ég elska að vera listamaður.

- Auglýsing -

Upphaflega birt í Séð og Heyrt sumarið 2016

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -