Laugardagur 24. febrúar, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Er kreppa á næsta leiti?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að undanförnu hafa ýmis merki borið með sér að stutt sé í næstu kreppu hér á landi. Má þar nefna gjaldþrot WOW air, tal um hættu á aukinni verðbólgu vegna nýrra kjarasamninga og fréttir af offramboði á nýjum íbúðum í miðbæ Reykjavíkur.

Staðan hérlendis hefur þó líklega sjaldan verið betri og þá sérstaklega í samanburði við síðasta góðæri sem lauk haustið 2008. Þá var sögulega mjög lágt atvinnuleysi og mikil umframeftirspurn eftir starfstéttum eins og á fjármálamarkaði og í byggingageiranum. Mikill viðskiptahalli við útlönd og sögulega hátt raungengi á íslensku krónunni ásamt mikilli erlendri skuldsetningu.

Segja má að staðan í dag sé allt önnur. Má þar fyrst nefna minni skuldsetningu hjá íslenskum heimilum, góða stöðu ríkissjóðs og aukið aðhald með fjármálum sveitarfélaga. Staða íslenskra lífeyrissjóða er einnig gríðarlega góð.

Helstu merki um ofhitnun hagkerfis eru lykilþættir eins og mikill vöxtur útlána, óraunhæft gengi íslensku krónunnar, eignabóla á fasteignamarkaði, mikil hækkun hjá fyrirtækjum í Kauphöll fjármögnuð með lántökum og mikil skuldsetning helstu útflutningsgreina.

Eftir hrunið haustið 2008 fóru bankar að setja mun meiri kröfur varðandi útlán vegna íbúðakaupa. Má þar nefna lög um fasteignalán til neytenda. Einnig setti Fjármálaeftirlitið reglur árið 2017 um að veðsetningarhlutfall fasteigna megi að hámarki nema 85% en vegna fyrstu íbúðakaupa getur hlutfallið farið í 90%.

Lög um opinber fjármál tóku gildi í byrjun árs 2016. Með setningu þeirra er hinu opinbera settar mun þrengri skorður varðandi frávik frá fjárlögum. Þar ber hæst að fjármála- og efnahagsráðherra ber að leggja fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára þann 1. apríl ár hvert þar sem fram koma markmið í opinberum fjármálum. Sveitarfélög þurfa síðan að hafa fjármálaáætlun Alþingis til grundvallar við gerð sinna fjárhagsáætlana.

- Auglýsing -

Með tilkomu þessarra laga hefur reynst mun erfiðara en áður að lofa milljarða útgjaldaaukningu til hinna ýmsu málaflokka korteri fyrir kosningar. Þannig má árlegur halli á fjárlögum ekki nema meiru en 2,5% af landsframleiðslu.

Sama á við um sveitarfélögin. Líkt og margir muna voru mörg þeirra mjög skuldsett eftir bankahrunið. Aðhald með þeim í dag er mikið og má þar nefna eftitlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Atvinnuleysi, verðbólga og lækkun íbúðaverðs

- Auglýsing -

Það sem flest heimili hafa áhyggjur er hins vegar þrennt. Aukið atvinnuleysi, aukin verðbólga og lækkun íbúðaverðs. Slíkt er óhjákvæmilegt með reglulegu millibili í íslensku efnahagslífi og á það við um flest önnur lönd líka. Á árunum 1982 til 1986 var 36% raunlækkun á fasteignamarkaði. Á þeim tíma var mikil verðbólga sem ekki þekkist með sama móti í dag.

Eftir að Kringlan var vígð árið 1987 samfara skattlausa árinu varð 20% raunlækkun á fasteignum frá 1988 til 1996. Eftir þjóðarsáttina árið 1990 fór verðbólga að minnka en með aflabresti á þorski árið 1992 varð framhald á niðursveiflu áranna á undan. Niðursveifla á fasteignamarkaði var lítil í kjölfar þess að netbólan sprakk ásamt hryðjuverkunum á Tvíburaturnanna þann 11. september árið 2001. Frá 2001 til 2002 nam raunlækkun einungis 1%. Frá 2008 til loka árs 2009 í kjölfar bankahrunsins nam raunlækkun hins vegar 36%.

Hagstofan birti nýja þjóðhagsspá þann 10. maí fyrir árin 2019 til 2024. Ekki voru allir sáttir með spá Hagstofunnar. Þannig gagnrýndi Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar hana harkalega og sagði hana óraunhæfa á flestum sviðum. Óraunhæf spá um hagvöxt, vanmetin áhrif nýrra kjarasamninga, sama spá um atvinnuleysi og verðbólgu og í fyrri spám og engri breytingu á gengi íslensku krónunnar næstu árin var á meðal þess sem hann nefndi.

Ljóst er að kólnun er að verða í íslensku efnahagslífi. Aukið atvinnuleysi, hækkandi verðbólga, lækkun krónunnar og þróun íbúðaverðs gæti hæglega breyst til hins verra í haust. Þar ræður auðvitað líka hvernig ferðaþjónustan mun ganga í sumar en flugferðum hingað fækkar töluvert við fráfall Wow air. Mjög ólíklegt er þó að næsta niðursveifla verði í einhverri líkingu við það sem gerðist í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -