Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Förum fyrr að sofa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Ólafur Stephensen

Ég var einu sinni B-maður. Eða það hélt ég. Átti erfitt með að vakna á morgnana og vann bezt á kvöldin og nóttunni. Ég hélt að þetta væru mín líffræðilegu örlög.

Það er ekkert óskaplega langt síðan ég, tæplega fimmtugur, kynntist konu sem er yfirleitt farin að geispa upp úr kvöldmat. Og af því að mér finnst skemmtilegt að vera með henni, hvort heldur er vakandi eða sofandi, ákvað ég að breyta háttum mínum. Núna fer ég að sofa klukkan tíu á kvöldin og er farinn út að hlaupa klukkan hálfsjö á morgnana. Allt í einu er ég A-maður, sem mætir ofurhress í vinnuna upp úr klukkan átta og fer eldsnemma í háttinn. Þetta var ekki erfið breyting.

Flýta klukkunni …

Ég hef aðeins velt þessari lífsstílsbreytingu fyrir mér í tengslum við umræðu um að breyta klukkunni á Íslandi. Sú umræða sveiflast reyndar til og frá. Fyrir tveimur áratugum eða svo lagði Vilhjálmur Egilsson fram hvert frumvarpið á fætur öðru á Alþingi um að Íslendingar flýttu klukkunni og tækju upp sumartíma þannig að aldrei yrði meira en klukkustundar tímamunur á Íslandi og helztu viðskiptalöndum okkar í Vestur-Evrópu.

Meginröksemdin var að þannig yrði auðveldara fyrir viðskiptalífið að vera í sambandi við fólk í fyrirtækjum annars staðar í Vestur-Evrópu. Vilhjálmur og meðflutningsmenn hans bentu líka á að dagsbirtu myndi njóta lengur á kvöldin yfir sumartímann, það myndi bæta sumarstemninguna, ýta undir útivist og gott ef ekki auka sölu bæði á bjór og grillkjöti, örva efnahagslífið og minnka kjötfjöllin. Mér fannst þetta að mörgu leyti skynsamleg röksemdafærsla en frumvörpin náðu aldrei fram að ganga.

- Auglýsing -

… eða seinka henni?

Nú er allt í einu að skapast einhver ógurleg stemning fyrir því að snúa klukkunni í hina áttina og seinka henni um klukkutíma þannig að hún sé „rétt“ miðað við hnattstöðu Íslands. Tillöguflutningur Bjartrar framtíðar um málið er eitt af því sem þess flokks verður helzt minnzt fyrir og nú hefur starfshópur á vegum forsætisráðherra tekið málið upp á sína arma. Nýja aðalröksemdin er að seinkun klukkunnar  myndi hjálpa íslenzkum unglingum að vakna á morgnana af því að þá yrði bjartara. Rannsóknir hafa víst sýnt að þeir sofi alltof lítið, sem kemur náttúrlega niður á flestu sem þeir eiga að vera að gera á meðan þeir eru vakandi.

En er nú alveg víst að sá vandi leysist með því að færa klukkuna? Þurfa foreldrar ekki bara að reka krakkana sína fyrr í rúmið og sýna jafnvel gott fordæmi? Mér finnst röksemdafærsla Tryggva Helgasonar barnalæknis í nýjustu ritstjórnargrein Læknablaðsins sannfærandi, en hann segir að í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um kosti og galla þess að breyta klukkunni hafi kostirnir verið dregnir skýrt fram en gallarnir síður. Tryggvi segir rannsóknir benda til að styttri birtutími eftir að skóla lýkur – sem er alveg augljós afleiðing þess að seinka klukkunni – dragi til dæmis úr hreyfingu ungmenna.

- Auglýsing -

Tryggvi telur þessa einhliða framsetningu hafa litað fjölmiðlaumræðuna. „Það var ekki annað að heyra af umræðunni en að svefnvandi unglinga væri auðleyst mál með klukkubreytingu og í raun val um hvort við fræddum þjóðina um mikilvægi svefnsins eða bara einfaldlega breyttum klukkunni og þá væri sá vandi úr sögunni. Að það væri bara fínt að leysa of stuttan svefn hjá heilli þjóð svona. Fulltrúarnir í ráðgjafahópi ráðherra hafa sýnt með sínum fyrri skrifum að þeir gera sér grein fyrir að of stuttur svefn er flóknara vandamál en svo, en fjölmiðlaumræðan var á þennan veg,“ skrifar hann.

Hvað með sumarkvöldin?

Málið snýst reyndar ekki bara um ungmennin og einbeitinguna. Í mínum hugsa væri það mikill skaði að missa heilan klukkutíma sólarljóss á sumarkvöldunum sem nýtast í svo margt skemmtilegt; útivist á borð við fjallgöngur, golf og veiði, grill og hangs á pallinum yfir góðum mat og drykk. Þótt ég sé orðinn A-maður horfist ég algjörlega í augu við að það er minna stuð, rómantík og stemning á morgnana en á unaðslegum sumarkvöldum.

Eins og barnalæknirinn bendir á er skýrsla starfshóps forsætisráðherra svolítið einhliða og umfjöllun um hana ennþá meira einhliða. Það hefur þannig heldur lítið verið gert úr öðrum valkosti sem starfshópurinn dregur fram; „Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu. Með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.“

Förum fyrr í háttinn

Þetta er auðvitað bezti kosturinn – fólk fer bara fyrr að sofa, a.m.k. á veturna, og er betur búið undir daginn. Allt hringl með klukkuna er þá óþarft. Jújú, kannski á ríkið að gangast fyrir auglýsingaherferð til að hvetja okkur til að fara fyrr í háttinn, en svo má kannski líka bara treysta því að einstaklingurinn taki skynsamlegar ákvarðanir byggðar á þekkingu sem hann aflar sér. Þetta krefst mögulega einhvers aga og skipulags – en gamall B-maður trúir ykkur hér með fyrir því að breytingin er auðveldari en margur heldur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -