Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Handan bíbbsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er föstudagur, klukkan er fjögur. Ég er mætt ásamt samborgurum mínum í stórmarkaðinn. Það ríkir kurteisi við innganginn, fyrst þú, svo ég. Inn hér, út þarna. Það heyrist svjúss í rennihurðinni og leiðin er greið.

 

Ég næ í innkaupakerru úr þráðbeinni runu á skilgreindu svæði þar sem allar þjónandi innkaupakerrur bíða eftir að uppfylla örlög sín. Ég þræði langa ganga með háum hillum af þéttröðuðum niðursuðudósum, litaflokkuðu margs konar sjampói og númerastöfluðum bleiupökkum. Allt er á sínum stað, skipulega og nákvæmlega. Ekki róta, ekki stoppa á miðjum gangi, taktu fremst, fylgdu reglunum.

Ég fylli kerruna og fer í kassaröðina. Þar bíða allir prúðir og stilltir. Dauft bíbb ómar frá vöruskannanum í fjarska. Það vottar fyrir ókyrrð. Röðin mjakast. Bíbb. Spennan magnast. Bíbb, bíbb. Maðurinn á undan mér tæmir úr sinni kerru á færibandið. Hann teygir sig í „Næsti“ skiltið. Ég dreg andann. Bless skipulag, bless siðareglur. Skiltið lendir á færibandinu. Halló anarkía. It´s go time!

Ég fleygi mér á kerruna og hamstola hendi ég vörum á færibandið, bíbb, verð að halda í við kassapiltinn, bíbb, efri vörin svitnar, bíbb, kívíin skrölta eftir bandinu. Ég góla eftir poka, bíbb, pokinn kemur fljúgandi, hvert fór hann, bíbb, kassapilturinn æpir tölur, ég borga, verð að muna pinnið, ekki tefja ferlið, bíbb, bíbb, vörur frá næsta manni streyma nú í gegn, bíbb, bíbb, bíbb, ég er komin á pokasvæðið, handan bíbbsins, þar sem ekkert ríkir nema glundroði og ringulreið. Hver á þessi dömubindi? Er þetta lýsið mitt? Keypti ég þessa peru? Er ég að gleyma veskinu?

Ég hendi af handahófi í pokana og með organdi ofurkröftum, einurð og elju brýst ég í gegnum haf yfirgefinna innkaupakerra sem loka leiðinni að útganginum. Ég skal ná út, ég skal ná heim til barnanna minna, ég skal komast í helgarfrí og poppa, eða borða harðfisk, bara svona allt eftir því hvað lendir í pokanum, því þannig er það handan bíbbsins, að mitt verður þitt og þitt mitt.

Góða helgi.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -