Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Heima er best

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 4. tölublaði Húsa og híbýla

Við lifum á skrítnum og sögulegum tímum þar sem stór hluti þjóðarinnar er í sóttkví, samkomubann ríkir og margar þjóðir hafa lokað landamærum sínum. Híbýli landsmanna hafa því sennilega aldrei verið mikilvægari en akkúrat núna. Eflaust finnst mörgum best að vera heima á þessum óvissutímum, draga sig í hlé og vera í skjóli frá veiruregninu fyrir utan. En það getur samt sem áður verið erfitt fyrir suma að vera í sama rými svo dögum og jafnvel vikum skiptir. Það kann að vera smávægilegt að fólki leiðist í einangrun miðað við hvað er í húfi fyrir allmannaheill í landinu, en flest eigum við einhvern að sem er í áhættuhópi og okkur þykir vænt um; mömmur og pabba, ömmur og afa, langömmur og langafa, frænkur, frændur, systkini, börn, barnabörn, tengdabörn og vini. Það er ekki síst sá hópur sem þarf að einangra sig eftir fremsta megni.

„En það getur samt sem áður verið erfitt fyrir suma að vera í sama rými svo dögum og jafnvel vikum skiptir.“

Einangrun er samt sem áður ekkert ný af nálinni þegar horft er á söguna og hún er sennilega eitt sterkasta vopnið í baráttunni við að hefta útbreiðslu faraldra. Í spænsku veikinni var til að mynda settur vörður á Holtavörðuheiði til að koma í veg fyrir að einhver frá sýktu svæðunum fyrir sunnan kæmist norður yfir heiðar. En skemmst er frá því að segja að veikin barst aldrei þangað og því augljóst að einangrun virkar. Við þurfum aftur á móti að finna okkur eitthvað bærilegt að gera annað en að hanga í tölvunni eða horfa á sjónvarpið þótt það sé vissulega gott með öðru. Nú er tækifæri til að gera allt það sem okkur hefur langað að gera heima en höfum ekki haft tíma til eins og að taka til í skúffum, mála, negla, þrífa hansagardínur, strauja, festa tölur, breyta uppröðun á húsgögnum, prjóna, elda, baka, sortera myndir, lesa bækur, ljóð og blöð, litaraða bókunum í bókahilluna, pússa silfrið og eldhúsvaskinn, taka til í geymslunni, þrífa ísskápinn og ofninn og affrysta frystinn, fara í gegnum fataskápinn, taka til í skartgripunum, pússa skóna, þrífa fúgurnar á baðinu og sortera erlent klink svo fátt eitt sé nefnt.

Sumir hafa þó kannski háleitari markmið eins og að skrifa bækur og gera vísindalegar uppgötvanir en það gerðu bæði Anna Frank og Isaac Newton. Sá síðarnefndi einangraði sig frá samfélaginu þegar plágan mikla herjaði á London árið 1665 og gerði mikilvæga uppgötvun varðandi þyngdarlögmálið sem flestir kannast við. Það er því ljóst að einangrun vegur þungt í baráttunni við pestir og getur að auki verið uppspretta að einhverju góðu og nýju. Það er okkur í sjálfsval sett hvernig við nýtum einangrunina og munum að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Gleðilega páska.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -