Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Meðvituð eða ómeðvituð útilokun á innflytjendum?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Íslendingar eru aldir upp við það að mæra íslenska tungu, standa vörð um hana og vernda. Hvort sem menn eru þannig stemmdir gagnvart íslenskunni eða hafa frjálslyndari viðhorf, er ljóst að kunnátta og færni í íslensku er einn megin lykillinn að virkri þátttöku í samfélaginu.

Innflytjendur á Íslandi eru nú nærri sjötíu þúsund. Þeir eru um fimmti hver starfandi á vinnumarkaði og ómissandi hluti af íslensku samfélagi þ.m.t. hagkerfi. Vinnuframlagi þeirra er fagnað, en heimamenn leggja meðvitað eða ómeðvitað stein í götu þeirra þegar kemur að því að opna dyrnar að íslensku málsamfélagi. Þessum dyrum er oftar en ekki skellt í lás og iðulega gripið í það sem talið er fljótlegast: ensku. Hún er vissulega handhæg brú –  útbreitt heimsmál – en getur virkað sem hindrun. Hvernig stendur á því að við heimamenn erum svona tregir til að hleypa innflytjendum inn fyrir þröskuldinn á „hinu ástkæra ylhýra“? Hvað veldur? Er það þjóðernisleg varnarstaða, sem gengur út á að halda í einhvern meintan „hreinleika“ eða leti, skortur á umburðarlyndi fyrir íslensku með hreim og bjagaðri málfræði? Er það ótti við hið ókunna, eða er það kannski meðvitaður ásetningur að halda innflytjendum sem lengst frá almennri þátttöku í samfélaginu? Hver er þín afstaða lesandi góður?

Víða í nágrannalöndum okkar – t.d. í Noregi, Svíþjóð, Belgíu og Þýskalandi – er innflytjendum boðin ókeypis tungumálanámskeið. Í Svíþjóð eru t.a.m. í boði allt að fimm, tíu vikna námskeið að lágmarki tvö hundruð stundir hvert. Þar gerir vinnumarkaðurinn kröfur um lágmarksþekkingu á sænsku. Slíkar kröfur eru heimamönnum og aðfluttum í hag. Hér á landi eru engar slíkar kröfur.  Hér eru engin ókeypis íslenskunámskeið fyrir innflytjendur. Eitt námskeið kostar á fullu verði allt að fimmtíu þúsund krónur og er kennt utan vinnutíma, sem oft er langur. Námskeiðin eru niðurgreidd, en aðeins fyrir þá sem eru stéttarfélagsbundnir. Aðrir þurfa að greiða fullt verð úr eigin vasa. Þetta fyrirkomulag er engan veginn hvetjandi.

Er það hugmyndin um að vernda þurfi íslenskuna fyrir óæskilegum erlendum áhrifum (gamalt þrástef) eða hugmyndin um innflytjendur sem „vinnuafl“ umfram manneskjur og þátttakendur í og hluti af íslensku samfélagi og menningu, sem ræður þessu? Er þetta andvaraleysi sök þeirra sem ráða lögum og lofum á vinnumarkaði, stjórnvalda, beggja eða bera fleiri ábyrgð?

Ef raunverulegur áhugi er fyrir því að auðvelda innflytjendum aðgang að samfélaginu gerist það ekki síst gegnum málsamfélagið – þar vega ókeypis íslenskunámskeið þungt. Eins og málum er háttað leikur vafi á raunverulegum áhuga meðal ráðenda á vinnumarkaði, yfirvalda og margra fleiri.

- Auglýsing -

::::::::::::::::

Höfundur er dr. Hallfríður Þórarinsdóttir (a.k.a. Frida Thorarins) menningarmannfræðingur sem stundar rannsóknir og fræðslu á innflytjendalandinu Íslandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -