Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Nauðsynleg fátækt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Elísabetu Ýri Atladóttur

Alltof oft heldur fólk að fátækt sé óumflýjanlegur partur af samfélaginu. Að það sé nauðsynlegt að hafa fátækustu stéttirnar svo hlutirnir gangi yfirleitt upp fyrir restina. Ef fátæktin væri ekki til staðar þá yrði allt svo dýrt. Og þá væru allir fátækir, ekki satt?

Verðbólga, höfrungahlaup og fall einkarekinna fyrirtækja er notað sem rök gegn því að launalægstu stéttirnar, langoftast kvennastéttir, fái launaleiðréttingu. Ef þessar fá hærri laun, þá heimta öll hin hærri laun líka. Ef þær komast of nálægt menntuðum kollegum sínum í launum, þá verði háskólamenntaða fólkið brjálað og höfrungahlaupið byrjar. Konur í láglaunastörfum, þær sem sjá um umönnun aldraðra, sem vinna á leikskólum og huga að vellíðan yngstu kynslóðanna, sem þrífa og þræla sér út til að samfélagið gangi upp, þær verða að vera fátækar.

Ef hún er ekki lengur fátæk þá hlýt ég að enda fátæk – það er kjarninn í umræðunni. Jafnari laun milli ófaglærðra og faglærðra er látinn hljóma eins og verið sé að brjóta á menntuðu fólki, án þess að skoða vinnuálag hinna ófaglærðu, sem er ekkert minna eða ómerkilegra en hinna. Hræðsluáróður um að menntað fólk muni krefjast launahækkunar ef skítugi, ómenntaði lýðurinn nálgast það í launum verður ekki smekklegri sama hversu oft hann er endurtekinn.

Ég er á þeirri skoðun að enga fátækt þurfi til að samfélagið gangi upp. Verðlag á vörum og þjónustu þarf ekki að rjúka upp, ekki ef viljinn er fyrir hendi að setja hömlur á gráðuga atvinnurekendur sem smyrja vel á arðinn sinn. Ég er sannfærð um að flest vel innréttað, menntað fólk hefur engar áhyggjur af því að ófaglærðir kollegar þeirra komist nær því í launum. Að það sé frekar almennur vilji til að koma fram við það eins jafningja og manneskjur heldur en nauðsynlega þjáningarþræla sem eiga að halda uppi kaupmættinum fyrir okkur hin. Samfélagið verður ekki fátækara fyrir vikið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -