Laugardagur 24. febrúar, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ógreidda skítmennið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Síðast en ekki síst
Eftir / Óttarr Proppé

Ég á druslulegan bókarræfil frá árinu 1936. Bókin er þýðing á ævisögu um falsmunkinn Raspútín. Þann sem vafði rússsnesku keisaraynjunni um fingur sér, munið þið, og Boney M. sungu svo eftirminnilega um hér um árið. Höfundur hefur augljóslega megnustu óbeit á viðfangsefni sínu. Svo mjög að hann nefnir Raspútín helst ekki á nafn heldur uppnefnir og kallar hann gjarnan „ógreidda skítmennið“.

Alltaf þegar ég les þá lýsingu hríslast mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Að hugsa sér að vera lýst sem svo. Að teljast ómenni, að vera ekki mennskur. Það er hryllileg tilhugsun. Þó svo maður gæti eflaust fengið vísindamenn á vegum Kára Stéfánssonar til að votta að genin í manni væru úr mannheimum, þá er það ekki það sama og að höndla mennskuna. Fólki er tíðrætt um að einhverjum sé góðmennska í blóð borin meðan annar sé rakið illmenni. Við skynjum mennskuna skýrt og þá ekki síður þegar á skortir. Bíómyndapersónur tala um að þessi eða hinn sé svo mikið Mensch upp á götujiddísku. Það er draumur sérhvers manns að hljóta þau eftirmælin að hann hafi verið góður maður. „Hann var svo mikið Mensch“ segja þau smjattandi á emminu og dragandi seiminn.

En hvað þarf til? Hvernig nærum við mennskuna í okkur og höldum illum öndum í skefjum? Svarið er einfalt. Við erum eins og menn. Þeir sem skara eld að eigin köku og koma illa fram við aðra, hegða sér ekki eins og menn. Sá sem baktalar aðra, níðist á börnum og dýrum, hann er ómenni. Það heitir ekki að hegða sér eins og maður að sýna hroka og oflæti, vera frekur og dónalegur. Ef það er eitthvað sem ég óska mér um árámót þá er það að komast nær því að vera mennskur og vera oftar eins og maður. Jafnvel þegar er hundur í mér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -