Laugardagur 27. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Fastandi í 10 daga eftir ofátið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einhver allra besta aðferð til að létta sig á sál og líkama er að fasta um lengri eða skemmri tíma. Undanfarin ár hef ég stundað föstur reglulega. Þá hef ég verið án matar í þrjá til sex daga eftir atvikum. Þannig hef ég náð að létta mig um 250-500 grömm á dag. Á árinu 2023 fastaði ég allar vikur frá sunnudagskveldi til fimmtudagsmorguns. Fyrstu sex mánuðina léttist ég um 14 kíló, en svo kom babb í bátinn og ég stóð í stað. Ég léttist á föstunni, en þyngdist að sama skapi á neysludögunum. Þótt ég teldi mér trú um annað liggur svarið í því að ég borðaði einfaldlega of mikið þegar föstunni sleppti. Þetta var ekki beint ofát en samt nóg til þess að 1,5 kíló var á tómu hringsóli. En svo settu jólin allt úr skorðum.

10 daga fastan gekk yfir án hungurverkja

Í byrjun janúar á þessu ári tók ég mína lengstu föstu þegar ég bragðaði ekki mat í 10 daga. Þetta var að ráði kunningja míns sem hefur þá reglu að fasta í 20 daga í janúar og ná þannig af sér jólafitunni og létta jafnframt geðið. Þessi náungi er reynslubolti á þessu sviði. Hann hafði stundað föstur í 3-4 daga en sagði að það væru mistök. Erfiðasti tíminn til að fasta eru fyrstu 2-3 dagarnir með skerandi hungurverkjum. Síðan léttist róðurinn og hungrið víkur að mestu. Þetta fékk ég staðfest á eigin skinni á 10 daga föstunni. Þegar fyrstu fjórir dagarnir voru að baki, leið mér hreint ljómandi vel og ég svaf eins og ungbarn. 10 daga fastan gekk yfir án hungurverkja. Ég léttist um fjögur kíló og var alsæll.

Það er viðurkennt af flestum að föstur gera fólki gott. Þetta snýst ekki aðeins um að létta sig heldur hreinsa líkamann. Þessu fylgir sú andlega og líkamlega vellíðan sem er svo eftirsóknarverð. Nútímafólk glímir við vanda sem tengist ofneyslu af ýmsu tagi. Fíkniefnavandamál eru af þessum toga. Sá vandi hefur fylgt manninum eins lengi og áfengi og önnur hugbreytandi efni hafa verið til staðar. Í samfélagi allsnægta í dag er ofát með tilheyrandi þyngdaraukningu og tengdum sjúkdómum eitt allra stærsta heilbrigðisvandamálið. Áunnin sykursýki, hjartasjúkdómar og stress eru af þessum toga og drepa fólk fyrir aldur fram. Og það er áríðandi að fólk geri sér grein fyrir stöðunni áður en í algjört óefni er komið og snúi gæfuhjólinu sér í hag.

Vanlíðan, svimi og slen

Flestir þekkja þynnkuna sem fylgir ofáti. Vanlíðan, svimi og slen er fylgifiskur þess að borða yfir sig, hvort sem um er að ræða sykurjukk, hveitimat eða feitt kjöt. Margir glíma við máttleysi og ofþyngd eftir matargleði um hátíðirnar og sumir fá hjartaáfall og gjalda jafnvel fyrir með lífi sínu. En þetta er ekkert grín og fæstum er sjálfrátt. Ofát er sprottið af matarfíkn sem er illviðráðanleg líkt og fíkn í áfengi, tóbak eða dóp. Það sem matarfíkillinn getur gert er að stjórna blóðsykrinum og halda sig síðan við ákveðið matarplan og fösturnar. Þessu til viðbótar er hreyfing lífsnauðsynleg.

Svo þarf aðeins að setja í sig hrygg

En það er engin ástæða fyrir þá sem eru í yfirþyngd að örvænta. Lausnin á þessu ástandi er sáraeinföld og felst í að skerpa á viljastyrknum og hefja fösturnar samhliða skynsamlegu mataræði. Svo þarf aðeins að setja í sig hrygg, rísa á fætur og hefja reglubundna hreyfingu hvort sem er í ræktinni eða útivist á borð við göngur á fjöll. Verkefni Ferðafélags Íslands, Tifað á tinda, er kjörin leið til að komast inn á rétta braut og létta á samvisku og líkama.

- Auglýsing -

Reynslan sýnir að reglubundin hreyfing gefur fólki ekki aðeins aukinn styrk og vinnur gegn ofþyngd. Átök sem fylgja fjallgöngum létta fólki lund og vinna gegn þunglyndi, kvíða og öðrum þeim andlegu sjúkdómum sem herja á fólk í nútímasamfélagi. Þessi ávinningur kemur til viðbótar því ýta fitunni frá og byggja upp vöðva. Enn einn ávinningurinn og ekki sá sísti er félagslegi þátturinn. Maður er manns gaman og þeir sem tekið hafa þátt í hópverkefnum á fjöllum þekkja, að þar myndast vinabönd sem sum eru varanleg.

Sönn lífsgæði felast í því að losna undan yfirþyngd og finna gleðina og styrkinn sem fylgir því að koma sál og líkama í jafnvægi. Frestun á vandanum leiðir af sér óhamingju og jafnvel lífsháska. Það er ekki eftir neinu að bíða.

 

- Auglýsing -

Pistillinn birtist í nýjast tölublaði Víns og matar:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -