Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Fyrirmyndarkennarinn og virðingin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haraldur Ólafsson sendi inn pistil:

Brynjar Birgisson ræðir um kennslu barna í Mannlífi 23. mars sl. Ástæða er til að þakka Brynjari fyrir að hrinda umræðu af þessu tagi af stað.  Það er nefnilega mikil þörf á að ræða meira um nám, kennslu og virðingu í víðara samhengi.

Kaupmaður, sem fær ábendingar um að mjölið sé maðkað, kannar ástandið á mjölinu og reynir að bæta úr ef tilefni er til, en lætur vangaveltur um hvort sér sé sýnd nægileg virðing eiga sig.  Þannig vangaveltur stunda menn bara í einokunarverslun.  Kaupmaðurinn setur heldur ekki upp snúð ef viðskiptavinurinn verslar ekki við hann í nokkra daga eða vikur, hann býður viðskiptavininn velkominn þegar hann kemur aftur.

Eins hlýtur fyrirmyndarkennarinn að skoða sannleiksgildi þess sem foreldrar segja ef þeir fullyrða að börnin læri lítið í skólanum.  Hann hlýtur svo að reyna að bæta úr, ef það reynist rétt. Fyrirmyndarkennarinn veit að vangaveltur um virðingarleysi foreldra skila litlu og að best virðing fæst fyrir vel unnin störf.  Kennari barns sem er á leið í ferðalag hlýtur að gefa góð ráð við kennslu í ferðalaginu og taka barninu svo fagnandi þegar það kemur aftur.  Það er virðingarvert.

Allir sem kennt hafa vita að einkakennsla getur skilað miklu.  Í fjölskylduferð til útlanda er samvera barna með foreldrum með allra mesta móti og þess vegna eru kjöraðstæður fyrir einkakennslu.  Það er vandalaust að benda á börn sem hafa lært öll þau kvæði sem þau kunna á sundlaugarbakka í útlöndum eða uppi í sveit, en ekki í skólanum.  Ég tel það reyndar sjálfstætt áhyggjuefni og vona að Brynjar sé því sammála. Ýmislegt, t.d. hlutfall treglæsra nemenda við lok grunnskóla bendir til þess að það viðhorf foreldra að það skaði lítið að taka börn úr skóla í allt að nokkrar vikur sé ekki úr lausu lofti gripið. Það væri virðingarvert að reyna að takast á við þetta vandamál.

Eitt af því sem mikilvægt er að kenna börnum er að fara vel með rök og tölur.  Það getur verið freistandi að varpa fram tölum sem við fyrstu sýn styðja einhvern málstað, en gera það ekki þegar betur er að gáð.  Börnin eiga að læra að gá betur og það er hlutverk okkar kennaranna að hjálpa þeim við að læra það.  Gott er að kennarinn sé fyrirmynd.  Brynjar leggur til að einhverjir af þeim 185 dögum á ári, sem ekki eru kennsludagar, séu nýttir til ferðalaga.  Við fyrstu sýn mætti halda að það mætti duga, en ef betur er að gáð er það ekki þannig.  Tveggja daga helgarfrí nýtist ekki til að fara til útlanda og um jólin er hefð fyrir því að rækta samband við stórfjölskyldu.  Dagarnir sem til ráðstöfunar eru fyrir ferðalög eru því mun færri en 185.  Þar við bætist að samræma þarf frí margra aðila, og það getur verið vandasamt.  Síðast en ekki síst er dýrt að ferðast á hefðbundnum sumarleyfistíma og það er rétt að hafa í huga að það eru ekki allar fjölskyldur loðnar um lófa.  Það getur með öðrum orðum verið vandasamt fyrir foreldra að skipuleggja utanlandsferðir fyrir fjölskylduna og til mikils ætlast að meint virðingarleysi vegna fjarveru barna vegi þungt við slíkt skipulag.

- Auglýsing -

Höfundur er kennari

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -