Mánudagur 22. júlí, 2024
9.8 C
Reykjavik

Sólbrennd börn í kvíðakasti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Meirihlutann af minni 15 ára starfsævi hef ég starfað í íslenska menntakerfinu. Ég hef starfað í framhaldsskólum, leikskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum og eðli málsins samkvæmt ber ég mikla virðingu fyrir menntun á öllum stigum. Öll stigin þjóna mikilvægum tilgangi og hlutverki í þroska okkar sem manneskjur. Það er einlæg trú mín.

Því eldri sem ég verð kemst ég að því hversu margir eru ósammála mér í þeim málum. Ég átti samtal í fyrra við hjón sem eiga tvö börn. Annað þeirra er á unglingastigi en hitt er á miðstigi. Þau sögðu mér að það hafi oft komið fyrir á skólagöngu barna þeirra að þau fari með þau til útlanda í fimm vikur í senn. Ekki um jólin eða páska eða neitt svoleiðis. Þau missa þá af 25 kennsludögum á hverju skólaári. Það eru tæplega 15 prósent af öllum kennsludögum skólaársins. Þau halda því bæði fram að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á börn þeirra. Hvorki námslega né andlega. Þegar ég spurði hvort krakkarnir tækju með sér námsefni til útlanda neituðu þau því. Börnin eiga einfaldlega að vinna upp þann mun sem kemur upp þegar þau koma heim.

Annar faðir sem ég ræddi við fullyrti að það tæki dóttur hans einn dag að vinna upp það námsefni sem hún missir af eftir þriggja vikna ferðalag. Önnur hjón sem ég kannast við nefndu eitt sinn við mig að þau líti á grunnskóla sem barnapössun þar til börn fara á miðstig.

Allir þessir foreldrar eiga það sameiginlegt að vera með einhvers konar háskólagráðu svo það gerir þetta ennþá furðulegra. Nú þekki ég ekki börnin þeirra að neinu leyti þannig að það getur verið að þarna séu á ferðinni börn sem standa öðrum svo miklu framar að svona hefur lítil áhrif. Mín upplifun, á þeim tíma sem ég vann í frístundaheimili og félagsmiðstöð, af krökkum sem koma úr svo löngum ferðum er að þau eru oft uppfull af kvíða og stressi vegna þess að þau hafa dregist aftur úr. Sum voru gráti næst

Ég spurði nokkra kennara sem ég þekki út í þeirra upplifun og þeir segja allir svipaðar sögur. Foreldrarnir lofa að krakkarnir muni læra í utanlandsferðinni en því er síðan sjaldan fylgt eftir. Krakkarnir koma síðan heim og þola mismikið það aukaálag sem er lagt á þau vegna þess að þau misstu úr. Það sem vekur athygli mína er að það virðast ekki vera neinar samræmdar reglur um utanlandsferðir nemenda, það virðist vera á valdi hvers skóla að ákveða þær. Kannski eru reglurnar til en skólar fylgi þeim ekki en sama hver ástæðan er þá virðist vera lítið mál fyrir foreldra að taka börn úr skóla til lengri tíma. Einhvers staðar las ég að skólar í Noregi segðu einfaldlega nei við foreldra í svona málum en ég hef þó ekki fengið það staðfest. Það hljómar hins vegar eins og eitthvað sem ætti að taka upp á Íslandi.

Þetta virðist vera frekar nýleg þróun. Eldri kennarar kannast ekki við svona langar ferðir nemanda nema síðustu tíu ár og finnst þeim fleiri nemendur vera fara í slíkar ferðir í dag en áður. En auðvitað ber að hafa í huga ekki eru til nein gögn sem hafa verið tekin saman sem styðja þá kenningu svo það er erfitt að fullyrða mikið í þessum málum.

En þetta veldur mér samt hugarangri. Mér þykir þetta vera óvirðing. Þetta er óvirðing gagnvart kennurum og þetta er óvirðing gagnvart börnunum. Það eru 365 dagar í ári og það fer ekki fram kennsla á 185 þeirra. Það hlýtur að vera hægt að svala ferðaþörfinni á þeim dögum. Ég held að það sé ágætis markmið að fækka sólbrenndum börnum í kvíðakasti eftir ferðir til Tenerife í skólum landsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -