Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Grænklæddi draugurinn í Drangaskörðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einhverja mögnuðustu náttúrusmíð Íslands er að finna í Drangaskörðum á Ströndum. Formfögur tindaröð á ysta nesi við utanverða Drangavík er gullfalleg að formi til. Drangarnir eru sex að tölu með skörðum á milli. Vinsælt er að ganga fyrir Drangana. Sunnanvert er þó fjaran seinfarin. Erfitt getur verið fyrir fólk að sig í stórgrýtinu en það gengur samt vel í rólegheitunum. Ef fólk ætlar að fara auðveldustu leiðina um Signýjargötuskarð þarf að fara á fjöru. Reyndar er einnig hægt að fara um Kálfsskarð en sú leið er snarbrött og ekki fyrir alla. Drangamenn fóru þó yfirleitt þá leið þegar þeir fóru fyrir en ekki yfir Skarðafjall eins og var þó algengara. Hermt er Kálfsskarð sé nefnt svo vegna þess að menn hafi teymt kvígu yfir skarðið. 

Grænklæddi maðurinn

 

Í Skarðafjalli, ofan við Drangaskörð eru sagnir um að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi haldið til í hellisskúta í felum fyrir yfirvöldum. Eyvindur og Halla eignuðust barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763 en barnið lifði aðeins í tvo daga. Þetta var skömmu áður en hjónin voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar. Einhverjir telja sig hafa heyrt útburðarvæl í Drangavík. 

Fullyrt er að reimt sé í Drangaskörðum. Þar er gjarnan vísað til manns í grænni úlpu sem hefur sést á sveimi í skörðunum. Eitt sinn voru tveir menn að koma um Kálfsskarð og höfðu mælt sér mót við þann þriðja sem sótti þá á sjó, sunnanvert við Skörðin. Meðan hann beið þeirra sá hann mennina í Kálfskarði en þá við þriðja mann. Sá var í grænni úlpu. Þegar fundum manna bar saman spurði hann félagana tvo hver þriðji maðurinn væri. Þeir komu af fjöllum og könnuðust ekki við að hafa hitt nokkurn mann í skarðinu. Sýnt þótti að þarna hefði sá grænklæddi verið á ferð. 

Hundurinn sem hvarf

Sagan segir að þarna sé einnig hundur á sveimi. Skyggnir menn hafa séð hann elta ferðalanga um skörðin. Eitt sinn voru Drangamenn að fara til veiða á sel og tófu. Einn fór siglandi og ætlaði að hitta félaga sína sunnan við Drangaskörð. Hafði annar göngumanna ætlað að taka með hund en sá sem sigldi mótmælti því þar sem þá myndi tófan forða sér. Áður en fundum þeirra bar saman beið sá á bátnum undir Dröngunum. Sér hann að félagarnir koma gangandi og á hælum þeirra skoppaði hundur. Bölvaði sá sem beið þar sem hann taldi einsýnt að félagar hans hefðu farið gegn ráðum sínum og tekið hundinn með og tófan þá halda sig í felum. Þegar þeir hittust í fjörunni undir Kálfsskarði spurði maðurinn eftir hundinum. „Við tókum hann ekki með,” var svarið. Hundurinn hafði þá ekki verið þessa heims fremur en grænklæddi maðurinn. Hermt er að það fari á stundum um þá sem ferðast einir um skörðin eftir að skyggja tekur eða í þoku. Göngumanni verður þá gjarnan hugsað til hunds og grænklædds manns sem eru á sveimi og stundum bregður þeim félögum fyrir. Í Drangavík er svo hrollvekjan sú að útburðarvælið rjúfi þögnina í þokunni.

- Auglýsing -

Ítalski greifinn

Þeir sem hyggjast faðma að sér Drangana eiga nokkra möguleika til að komast þangað Hægt er að sigla í Drangavík eða aka að ósi Hvalár og ganga þaðan í Drangavík um 18 kílómetra leið með allan útbúnað á bakinu. Yfir Hvalá er göngubrú. Leiðin liggur fyrir Engjanes og inn í þann fagra Eyvindarfjörð þar sem ekki hefur verið búseta manna svo vitað sé. Ítalskur greifi, Felix Von Longo-Liebenstein, keypti fjörðinn fyrir margt löngu á 25 milljónir króna og ætlaði sér að reisa þar sumarhús og vernda svo þá fögru náttúru sem þar er að finna. Eftir heimsókn í fjörðinn og nokkra hrakninga í sudda og þoku hvarf greifinn frá þeim áformum. Seinna seldi hann vatnsréttindi tengd jörðinni til þeirra sem hugðust reisa Hvalárvirkjun. Gengju þau áform eftir yrði vatnsmagnið í Eyvindarfjarðará aðeins þriðjungur að því sem nú er og vart svipur hjá sjón. Við bestu aðstæður er Eyvindarfjörður einn af fegurstu gimsteinum Stranda. Kraftmikil áin liðast niður dalinn og endar í ósi í fjarðarbotninum. Hægt er að vaða yfir ósinn á fjöru en það er ekki talið ráðlegt fyrir óvana. Ofar í ánni er að finna tvær göngubrýr sem gera fólki þetta auðveldara. Fegurð Eyvindarfjarðar er sem betur fer að mestu ósnortin. Það hvarflar að manni að það hefði verið ákveðið níðingsverk að farga ánni í þágu gróðapunga. Eftir að Eyvindarfirði sleppir blasir Drangavíkin við með Drangaskörð sem útvörð í norðri. Hvílík fegurð. 

Hópur göngufólks í Drangavík. Toppgyðjur að skoða Drangaskörð.
Mynd: Tómas Guðbjartsson.

Refur í rústum

Gömlu bæjarhúsin eru hrunin og hvönnin dafnar í rústunum og það eru komnir nýir íbúar. Gönguleiðin liggur þétt með húsarústunum. Refur skýst fyrir fætur göngumanns. Hann fer þó ekki langt en staldrar við í von um harðfiskbita eða annað góðgæti úr hendi tvífætlings. Í Drangavík eru skjólgóð tjaldstæði víða að finna í gömlum rústum torfbæja eða í grónu landinu. Eftir langa dagleið er ljúft að tjalda og gefa sig svefninum á vald. Gaggið í tófunni nær í gegnum svefninn. Ef heppnin er með vaknar fólk í sólskini og eina sem rýfur þögnina er suð flugunnar og sjófugl sem syngur í fjarska. 

Þeir sem ekki kjósa að ganga frá Hvalá og í Drangavík eiga annan möguleika. Strandferðir halda uppi siglingum á þessar slóðir sumarlangt. Þeir skjóta farþegum í land á gúmmbáti þar sem þess er óskað. Síðan er tilvalið að láta þá sigla að Dröngum með farangur og vera sem léttastur á göngunni. Ferðafélag Íslands hefur einmitt boðið upp á slíkar ferðir undanfarin sumur. Kjörið er að byrja ferðina í Norpðurfirði þar sem Ferðafélag Íslands heldur úti gistiskála með öllum þægindum. Ef siglt er í Drangavík er gengið fyrir skörðin og tjaldað á Dröngum og gengið upp í hálendið, ofan bæjarins, daginn eftir með viðkomu í náttúrulaug. 

- Auglýsing -
Fjaran undir sunnanverðum Drangaskörðum er seinfarin og grýtt.
Mynd: Reynir Traustason.

Frá Drangavík að Dröngum er um 12 kílómetra leið. Hægt er að fara yfir fjallið, sem er mun styttra, en þá missir fólk af þeim undurfögru Drangaskörðum. Fljótlega eftir að lagt er upp sleppir götunum og strípað fjörugrjótið tekur við. Tímaáætlanir gera ráð fyrir að vera á fjöru við ófæruna vestan við Signýjargötuskarð. Fólk þarf að gefa sér góðan tíma til að klöngrast þá tæplega tvo kílómetra sem eru að gönguskarðinu. 

Fjalla-Eyvindur

Alls eru skörðin sex að tölu. Leiðin upp í Signýjargötuskarð er stutt og snörp. Göngumaður fylgir glöggum götum sem skáskera hlíðina. Í Signýjargötuskarði er tilvalið að fá sér að borða í grasi gróinni hlíð og láta hugann reika til liðinna tíma. Útsýnið er stórfenglegt, hvort sem litið er suður eða norður. Kálfatindar, Glissa og Eyrarfjall blasa við í suðri. Norðanvert er Geirólfsgnúpur við Reykjarfjörð og Kálfatindur á Hornbjargi í fjarska. Návígið við Drangana er yfirþyrmandi.

Drangaskörðin eru í senn hrikaleg og falleg.
Mynd Reynir Traustason

Þarna standa þeir í röð og maðurinn rennur saman við þá himnesku mynd. Maður og fjall verða eitt. Hugurinn reikar til Höllu og Fjalla-Eyvindar sem bjó ekki aðeins í Skarðafjalli um tíma, heldur líka í Geirólfsgnúpi. Austantil í honum er Grundarhorn. Þar er hilla í klettahlíðinni sem nefnst Eyvindarhilla.Talið er að Fjalla-Eyvindur hafi gert sér þar skýli. Kofarústir úr grjóti og fúnir raftar fundust þar. Algengt var fyrr á öldum að afbrotamenn leituðu skjóls á Ströndum eða það sem stundum var kallað, norður fyrir hníf og gaffal. Við svipumst um eftur grænklædda manninum og hundinum. En þarna í brakandi sólskininu er ekkert að sjá nema kannski refi á stangli. Líklega birtast skuggaverurnar frekar í þoku og sudda. 

 

Á slóðum Eiríks Rauða

 

Gangan með Dröngunum norðanverðum er mun léttari. Grónar götur kynslóðanna tryggja göngufólki léttari yfirferð en var hinum megin. Göngufólkið er á þreföldum hraða ef miðað er við gönguna í fjörunni. Sex kílómetra leið tekur innan við tvo tíma. Bæjarhúsin á Dröngum blasa svo við. Reykur liðast upp úr strompi. Bærinn stendur  á litlu nesi, undir Bæiarfjalli sem hamramúli prýðir. Falleg á, Húsá, liðast um grundir, skammt norðan við bæinn. 

Náttúrulaug á ótilgreindum stað í grennd við Dranga.
Mynd: Reynir Traustason

Þetta er sögufrægur staður.  Þorvaldur, Ásvaldsson nam þarna land. Sonur hans, Eiríkur rauði, fæddist þarna og sonarsonur hans, Leifur heppni Eiríksson, á því þarna sínar rætur. Heimamenn á Dröngum halda úti tjaldsvæði með salerni og sturtu. Þar væsir ekki um fólk. Að kveldi er tilvalið að grilla og rifja upp daginn sem er að baki. Grænklæddi draugurinn og hundurinn munu þá koma við sögu rétt eins og útburðarvæl í Drangavík. Að baki er gönguferð um slóðir sem slá flestu öðru út í dulúð og hrikalegri fegurð. 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -