Þriðjudagur 15. október, 2024
7.8 C
Reykjavik

„Heimsfrægð“ við Hverfisgötu og umbrot á „frjálsu senunni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er mikið um „heimsfrægð“ í Þjóðleikhúsinu þessa dagana. Heimsfrumsýning á nýju leikriti eftir heimsfrægan þýskan höfund undir stjórn heimsfrægs leikstjóra – fyrsti hlutinn af glænýjum þríleik og því sannkallaður heimsviðburður. Leikararnir eru að vísu ekki heimsfrægir, en þeir eru allir „stórleikarar“ að því er segir í hástemmdum kynningum leikhússins. Æi herra þjóðleikhússtjóri, er ekki hægt að hlífa okkur við svona skrumi? Við erum ekki að skapa leikhús til að verða heimsfræg, heldur til að vinna okkar eigin samfélagi gagn. Og svo er heimsfrægð svokölluð ekki nokkur minnsta trygging fyrir gæðum – það vitum við báðir mæta vel.

En þó að frumsýningin á Ellen B sé enginn heimsviðburður, þá er hún allrar athygli verð. Marius von Meyenburg er afkastamikið leikskáld; hann stendur á fimmtugu og hefur sent frá sér eitthvað hátt í tuttugu leikrit. Hann er vel verki farinn, skrifar lipur samtöl og kann að byggja upp dramatísk átök milli persóna. Persónusköpunin í Ellen B er hins vegar ekki ýkja djúp sem stafar helst af því, að ég hygg, að skáldinu er öllu meira í mun að taka þátt í „me-too“- umræðunni, sem er hreyfiafl leiksins, en að búa til trúverðugt persónudrama. Formið er klassískt og kunnuglegt: fáeinar persónur eru staddar í afmörkuðu (lokuðu) rými; í fyrstu virðist allt með felldu, stemningin jafnvel létt og afslöppuð, en það varir ekki lengi og smám saman eru gamlar syndir og sjálfsblekkingar dregnar fram úr skápunum og kalla á uppgjör. Mörg fremstu leikskáld síðustu aldar sömdu áhrifamikla leiki með þessu sniði: Strindberg, O´Neill, Sartre, Pinter – svo við nefnum bara þau frægustu! Þegar slíkir leikir heppnast vel, geta þeir tekið áhorfandann afar sterkum tökum og skilið hann eftir djúpt snortinn.

Það gerist nú tæpast að þessu sinni í Þjóðleikhúsinu, þó að áhorfendur fylgdust með af athygli og létu ánægju sína glöggt í ljós í sýningarlok. Það segir sig sjálft að verk sem þessi standa og falla með góðum leik, en ekki síst skynsamlegri hlutverkaskipan. Einn helsti gallinn á sýningu Þjóðleikhússins sýnist mér vera valið á Unni Ösp Stefánsdóttur í hlutverk þeirrar persónu sem má segja að sé miðdepill átakanna. Unnur Ösp gerir vel í því sem hentar henni, en hún er of köld leikkona til að geta opnað fyrir þann kvíða, þann ótta og þá angist sem grípur konuna, þegar hún missir undirtökin; þá fékk túlkunin holan hljóm og tjáningin varð óþægilega forseruð, áreynslukennd. Aldursmunurinn á henni og sambýliskonunni, sem Ebba Katrín Finnsdóttir leikur, er ekki heldur nógu skýr og sumt sem sagt er um hana stemmir ekki rétt vel við það sem við sjáum. Auk þess var erfitt að skynja að á milli þeirra tveggja hefði verið og værinokkur líkamleg ást; Ebba Katrín er efnileg leikkona, en hér varð hún of stíf og fjarlæg. Ég er hræddur um að lítið hefði orðið dramað ef Benedikt Erlingsson hefði ekki fyllt út í „Vonda kallinn“ með úthugsuðum og svipmiklum hætti; þessum ógeðfellda manni er vart hægt að lýsa betur en hann gerði – fyrir nú utan hvað Benedikt hefur góða „replikku“ eins og sagt er á leikhúsmáli og fer vel með móðurmálið; blóminn af yngri leikurum okkar mætti setjast við fótskör hans að læra hvernig skal tala á leiksviði.

Leikritið á heima á minna sviði en stóra sviði Þjóðleikhússins; þetta er kammerleikur sem lifir best í sem mestri nánd sviðs og salar; Kassinn hefði átt að duga því betur. En það er auðséð að leikstjóri og leikmyndateiknari hafa áttað sig á þessum vanda og sú lausn sem þeir hafa fundið er hugvitsamleg og snotur; risastór hvítur sófi á upphækkuðum palli fremst á sviðinu undir ferhyrndu loftljósi skapar þétta umgjörð og kemur í veg fyrir að leikurinn týnist með öllu í rýminu. Engu að síður skil ég ekki hvaða nauðsyn Þjóðleikhúsið telurá því að flytja inn útlending til að annast leikstjórn. Með réttum kröftum á ekki að vera neinn sérstakur vandi að stýra leiknum; þar þarf enga „heimsfrægð“ til; við eigum nóg af innlendum kröftum sem hefðu ráðið jafn vel eða betur við verkefnið, fólki sem aukinheldur þekkir leikendavalið betur en hægt er að ætlast til af útlendingi. Ellen B er kynnt sem fyrsti hluti „þríleiks“ sem frumsýndur verður í heild síðar á þessu ári, leikur nr. 2 fljótlega, en nr. 3 ekki fyrr en í haust. Þetta virðist óneitanlega allkyndug tilhögun, því að verk sem þessi hljóta að njóta sín best í sem skýrustu samhengi; ég geri ráð fyrir að ástæðurnar hljóti að vera praktískar, þó að ég þekki þær ekki. En við sjáum hvað setur og spyrjum að leikslokum.

Einhvers staðar sá ég haft eftir þjóðleikhússtjóra að áhorfendur hefðu enn ekki skilað sér nógu vel aftur eftir kóvidið. Svipaða sögu mun að segja hjá fleiri listastofnunum. Sóttin hefur slegið okkur flest út af laginu með ýmsu móti og staðan verður ugglaust óljós enn um stund. Almennt séð virðist mér Þjóðleikhúsið þó vera að komast á nokkuð góða siglingu eftir að Magnús Geir tók við stjórn þess. Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu hefur farið sér öllu hægar; þar hefur Bubbi níu líf, danska drykkjuleikinn hef ég ekki enn séð, en væntanlegar eru spennandi sýningar, einkum auðvitað Macbeth Shakespeares og Marat/Sade Peters Weiss. Tjarnarbíó, miðstöð frjálsu leikhópanna, hefur starfað af þrótti frá því snemma í haust og frumsýndi nú eftir áramót verk sem þau kalla Ég lifi, leikrænt verk um vanda þess að eldast, í líflegri og á stundum hugmyndaríkri sviðsetningu Rebekku Ingimundardóttur, en sýningin líður því miður fyrir veika byggingu og ósköp fátæklegan texta. Þá er til tíðinda að yngri óperusöngvarar eru að sækja í sig veðrið; Íslenska óperan lætur þessa krafta ónýtta – sem er óskiljanlegt – svo þeir hafa tekið málin í sínar hendur; í haust sá ég tvær prýðilegar sýningar þannig til komnar, Marþöll Þórunnar Guðmundsdóttur í Gamla bíói (sem enn er ídealt fyrir minni óperur) og revíukennda útfærslu á Cosi fan tutte Mozarts í Iðnó; Bjarni Thor Kristinsson stýrði þeim báðum. Þá sýndi hópur ungra söngvara,
sem kallar sig Óð og hefur fengið að hreiðra um sig í Þjóðleikhúskjallaranum (sem leikhúsið fær prik fyrir), einkar skemmtilega útgáfu á Ástardrykk Donizettis í fyrra. Nú eftir nokkrar vikur ætla þau svo að frumsýna aðra af frægustu óperum þessa meistara bel-cantosis, Don Pasquale. En við verðum að bíða fram í mars eftir lífsmarki frá Íslensku óperunni sjálfri sem þá hefur boðað nýja uppfærslu á hinni ódauðlegu Madame Butterfly Puccinis.
Þannig að, sem sagt, það er margs að hlakka til fyrir okkur leikhúsunnendur á næstu vikum og mánuðum.

Jón Viðar Jónsson

Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið
Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið
Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið
Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið
Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið
Mynd / Jorri Þjóðleikhúsið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -