Þriðjudagur 15. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Mikið er hrútfúlt að lifa á sögulegum tímum!

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í lok árs 2019 kynntumst við öll og tömdum okkur breyttar venjur vegna heimsfaraldurs. Við hættum að takast í hendur, gættum að handþvotti, settum á okkur grímur og drógum okkur í skel.

Núna þremur árum síðan kynnumst við verðbólgu – jafnmyndarlegri og útþanin unglingabóla á nefi.

Flest okkar finna fyrir verðhækkunum. Húsnæðisverð og -leiga hefur hækkað. Matarkostnaðurinn margfaldaður. Bensínlítrinn dýrari – og launaseðillinn einhvern veginn rýrari.

Helvítis-fokking-fokk!

Hvernig getur verið að við séum komin hingað aftur? Óttablandinn kvíðahnútur yfir verðbólguframhaldinu.

Alla jafna er besta ráðið við kvíða þekking. Ofur einföldun á verðbólgu er þensla og besta ráðið við hækkunum er að draga saman seglin. Sumu fáum við ekki breytt og er óumflýjanlegt eins og stríð, hækkun hráolíuverðs og hækkun stýrivaxta. Við getum þó alltaf litið inn á við og aðlagað hjá okkur sjálfum. Fjárhagur okkar er mismunandi og aðstæður ólíkar, en öll getum við breytt … einhverju.

- Auglýsing -

Spólum 14 ár aftur í tímann og rifjum upp hrunið. Hvar varstu þá? Hvað lærðir þú af þeim tíma?

Sjálf vann ég í húsnæði við Austurvöll. Hávaðinn yfirgnæfði allt og einbeitingin fékk að finna fyrir því. Ég var nýútskrifuð og í mínu fyrsta faglega starfi. Átti ekkert nema myndarlegt námslán og hund – og hafði aldrei haft jafnháar ráðstöfunartekjur. Í „retrospect“ var ég ein af þeim heppnu.

Ég breytti engu ég lifði áfram eins og námsmaður, tók nesti í vinnuna, var bíllaus, verslaði í lágvöruverslunum og eldaði heima á kvöldin.

- Auglýsing -

Í dag er ég hvergi nærri því að geta dregið saman seglin eins og þá og lifað algerlega eins og námsmaður, en að hugsa um neysluna eins og námsmaður er þarft að gera – má vel temja sér.

Neyslumeðvitundina þarf að virkja.

Kaupir þú þér kaffi á hverjum degi? Hversu oft í viku ferðu út að borða? Hversu oft kaupir þú föt? Ferð í frí til útlanda? Hversu oft fyllir þú tankinn á bílnum? Eru einhverjar áskriftir sem þú mættir/gætir sagt upp?

Ef þú spyrð þig tveggja spurninga í hvert skipti sem þú dregur fram kortið ertu komin/n/ð vel á veg.

  1. Þarf ég þetta?
  2. Gæti ég fengið þetta ódýrara annars staðar?

Draga má töluvert úr útgjöldum t.d. með því að fá tilboð frá nokkrum tryggingafélögum og velja þær hagkvæmustu. Setja reglu að kaupa bara „ný“ föt sem voru notuð (kannski að undanskildum t.d. sokkum og nærfötum), sleppa óþarfa rúntum á bílnum, vera meðvitaður um rafmagns- og hitanotkun, gera vikumatseðill, velja lágvöruverslanir, skoða áskriftirnar sínar, fá beingreiðslusamninga og svo framvegis og svo framvegis.

Annað sem vert er að hafa í huga, ef möguleiki er á, og það er að nýta verðbólgutímabilið til að greiða niður skuldir. Höfuðstóll verðtryggðra lána er fljótur að hækka og sömuleiðis vextir og afborganir óverðtryggðra lána. Einn sá mesti og besti sparnaður getur því verið fólgin í að greiða niður eða inn á lánin sín.

Rétt eins og Covid kenndi okkur – þá getur þetta verið hrútfúlt, en ef við vöndum okkur, gerum þetta vel og erum meðvituð saman, þá verður allt, allt í lagi. Verðbólga er eins og veðrið – eitthvað sem við Íslendingar erum með ansi haldbæra reynslu í að klæða okkur samkvæmt. – Eins og gullfallegur texti Braga Valdimars og lagið segir:

„Það styttir alltaf upp, alltaf birtir til, framtíðin mun falla þér í vil.“

Þennan pistil, ásamt ýmsu öðru spennandi efni, má finna í nýjasta tímariti Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -