Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Minn eigin D:fi-strákur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar ég var í tíunda bekk var ég að hitta strák. Hann var voða sætur, í öðrum skóla en ég sjálf, sem hentaði mér vel – ég hafði deilt bekk með flestum bekkjarbræðrum mínum í næstum tíu ár, svo rómantískar tilfinningar voru af skornum skammti, með fullri virðingu fyrir þeim. Þeir fengu sérstaka ánægju út úr því að stríða mér á kærastanum, grínuðust til að mynda á háþróaðan hátt með nafnið hans, en hann átti rætur að rekja til Suður-Evrópu. Suðrænn og seiðandi. Sniðugir alltaf, strákarnir.

Þetta samband entist vissulega stutt, eins og gengur, en hafði varanleg áhrif að einu leyti. Drengurinn sá notaði ótæpilegt magn af vaxi í hárið á sér og þá eingöngu eina tegund sem ég fékk þarna fyrstu kynni mín af, en sannarlega ekki þau síðustu.

Það er vaxið D:fi sem um ræðir og ég þori að veðja að flestar stelpur á mínum aldri, sem á annað borð höfðu áhuga á strákum á unglingsárunum, þekkja vel lyktina af því. Hugsanlega svo vel að lyktin fari umsvifalaust með þær um það bil fimmtán ár aftur í tímann.

Nú, aftur að kærastanum og vaxinu. Lyktin af D:fi er sterk, einhvers konar ananasilmur blandaður við eitthvað annað. Þegar hann hafði verið heima hjá mér að kvöldi og eytt töluverðum tíma á öðrum koddanum mínum (já, alltaf tveir koddar), þá var D:fi-ilmurinn lengi fastur í koddaverinu. Mér fannst lyktin ægilega góð og játa það fúslega að hafa þefað reglulega af koddanum heilu kvöldin eftir brottför drengsins.

Sambandið, ef samband má kalla, endaði, en ást mín á vaxinu dvínaði hins vegar ekki. Ég veit ekki hvort það var tilviljun, en næstu strákar sem komu á eftir þeim með suðræna nafnið notuðu allir sama vax, í miklu magni, vel að merkja. Alltaf þótti mér lyktin jafn góð. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ilmurinn af D:fi sé einhvers konar frjósemisaukandi seiður í mínu tilfelli.

Þegar ég síðan byrjaði með strák á öðru ári í menntaskóla, sem var með töluvert þykkara fax en þeir sem á undan komu, varð ég fyrir töluverðum vonbrigðum þegar ég komst að því að vaxið sem hann notaði var hreint ekki hið margrómaða D:fi. Hann sagði að það dygði hreinlega ekki almennilega fyrir hans grófa hár. Ég reyndi að sannfæra hann um að prófa, bara aðeins að prófa, en allt kom fyrir ekki. Að lokum sætti ég mig við D:fi-leysið. Þar sem þetta samband entist vel vandist ég því að finna ekki sterkan ananasilminn. Hann varð eins og fjarlæg minning. Í dag er ég í sambúð með manni sem notar ekki heldur D:fi, hefur aldrei gert í okkar sambandi.

- Auglýsing -

En um daginn lét ég klippa á mér hárið stutt. Mig hafði langað að prófa það lengi og lét loks slag standa. Með nýrri greiðslu koma nýjar áherslur og nú vantaði mig vax. Hvað annað gat orðið fyrir valinu en hið goðsagnakennda D:fi?

Það kallaði á mig eins og Pepsi Max á gamlan max-fíkil. Kúrði þarna í hillunni í Hagkaupum og frá því stafaði yfirnáttúrulegum ljóma. Hvað annað gat ég gert en að taka það upp? Þetta var svarið – það sem ég hafði leitað að. Ég opnaði dolluna og þefaði. Minningarnar flæddu og ég var allt í einu orðin fimmtán ára, með tvo kodda og strák með suðrænt nafn á öðrum þeirra. Skítt með strákinn (sorrí), en lyktin, maður minn! Ég komst á eitthvert æðra stig. Að sjálfsögðu fór ég með vaxdolluna að kassanum og borgaði, hvað annað? Ég gat verið minn eigin D:fi-strákur.

Mynd: Dutyfree

Stuttu síðar fékk ég Covid og án þess að taka eftir því fyrst um sinn þá minnkaði lyktarskynið verulega. Í mínu tilfelli var það svo sem allt í lagi. Lyktarskynið er nefnilega einn af mínum ofurkröftum – en það getur líka verið Akkilesarhæll. Nefið er ofurnæmt og ég finn það sem ég kalla ógeðslega lykt eða ýldulykt af einhverju á meðan aðrir klóra sér í höfðinu og skilja ekkert í mér. Ég hef fundið ælulykt í bíó sem enginn annar fann. Ég finn áfengislykt eins og sporhundur væri. Þú gætir aldrei nokkurn tíma logið því að mér að þú værir edrú, hafir þú fengið þér drykk. Ég finn það bara á lyktinni – og já, líka í gegnum tyggjó og ilmvötn. Þetta er ekkert með vilja gert, svona er bara nefið á mér.

- Auglýsing -

Ég elska síðan lyktina af hreinsiefnum svo mikið að ég hef frá því að ég var lítil gjarnan farið inn á hreinsiefnaganginn í kjörbúðum og nokkrum sinnum í röð dregið djúpt andann í gegnum nefið. Getum kallað það mína eigin hugleiðslu og núvitund.

Ég var sem sagt ekkert svo miður mín yfir því að missa þennan hæfileika tímabundið. Jafnvel þótt það væri til frambúðar – þá kannski yrði lyktarskyn mitt bara svipað og hjá öðrum. Ekki meiri ælulykt í bíó og allt það.

Þetta þýðir að lyktin sem ég fann af mínu elskaða vaxi í eigin hári var frekar mild. Ég fann rétt aðeins léttan ananasinn og kunni vel við það. Svo mætti ég í vinnuna, búin að setja vel af D:fi í faxið til þess að halda öllu vandlega á sínum stað. Ég gekk til samstarfskonu minnar og ætlaði að athuga hvort hún ætti svipaðar minningar af vaxinu góða. Ég sveiflaði hárinu framan í hana (þótt það sveiflist kannski ekki mikið svona stutt og með tonn af vaxi í sér) og spurði hvort hún þekkti lyktina. Ég fylgist með henni bretta upp á nefið og segja svo: „Úff, já, unglingsstrákarnir í grunnskóla voru allir löðrandi í þessu. Þetta lá yfir heilu göngunum í skólanum.“ Ég tengdi auðvitað við minninguna, en botnaði ekkert í svipnum á henni. Svo ég sagði við hana, hróðug: „Ég elska þessa lykt! Nú get ég verið minn eigin D:fi-strákur.“ Hún hló, en tók kannski ekki jafn spennt undir það og ég hafði búist við, en ég hugsaði ekki meira út í það. Allavega ekki fyrr en lyktarskynið tók að koma til baka. Þá fór ég að átta mig á því hvað svipurinn hafði þýtt. Hin dásamlega lykt unglingsára minna var nefnilega ansi sterk. Reyndar alveg svakalega sterk. Ég fann hana eins og ský yfir mér hvert sem ég fór og komst að því að það er eitt lykilatriði við lyktina af D:fi: hún dofnar ekki. Ekki yfir allan daginn. Hún er jafn sterk að kvöldi eins og um morguninn þegar ég makaði deiginu í hárið á mér. Hinn ljúfi ananasilmur var gjörsamlega yfirþyrmandi og ég var nánast farin að finna bragðið af vaxinu. Þá skildi ég loks hvernig lyktin gat loðað svona lengi við koddann minn, sælla minninga.

Ég átta mig á því núna að ef til vill lituðu hormón unglingsáranna ást mína á D:fi töluvert. Svo er líka til nokkuð sem heitir nostalgía, eða þáþrá. Ég er hugsanlega þungt haldin af því fyrirbæri.

Ég hef því stungið D:fi-dollunni inn í skáp í bili. Ég treysti mér ekki alveg til þess að henda henni. Það er nefnilega ágætt að vita af henni og eiga þess kost annað slagið að þefa létt upp úr dollunni – en loka henni svo kirfilega á eftir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -