Þriðjudagur 18. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Sum sumur eru sumarlegri en sum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sumarið á suðvesturhorninu hefur verið með eindæmum gott. Eiginlega sögulega gott. Stuttbolaveður nánast dag hvern. Engin þörf fyrir vettlinga. Hver þarf sokka í svona blíðviðri? Fyrir stærðfræðinga og aðra talnaspekúlanta væri fróðlegt að vita hver fylgnin á milli sólardaga sumarsins og stýrivaxtahækkana seðlabankastjóra sé. Hún hlýtur að vera áþreifanleg.

Fyrir þá sem lifa í trú á samsæriskenningar er auðvelt að ætla að íslenska veðrið sé að bæta upp fyrir vöruverðshækkanir og fjárhagsþrengingar íslenskra heimila. Ég vona eftir síðasta útspil frá Seðlabankanum að svo sé. Íslenska sumarið hefur sjaldan verið jafngott við okkur.

„Ó, mér finnst haustið svo æðislegt; haustlitirnir, kertaljós og kósí,“ fullyrða haustunnendur. Í mínum haus er haustið ekkert nema undanfari vetrarins. Lyktin af haustinu er sérstök. Færir mig áratugi aftur í tímann og ég verð barn. Nauðbeygt til að vakna aftur í skólann. Frelsissvipt. 

Kaldur andvarinn myndgerist sem móða á bílrúðunum á morgnana. Fólk fagnar rútínunni. Á meðan öfunda ég farfuglana. 

Oddaflug gæsanna minnir á risastórt aðvörunarskilti um að flýja eyjuna – líkt og örvarnar sem vísa á útgönguleiðirnar í farþegarými flugvéla. Ég kveð gæsirnar með sumrinu, hvísla í átt til þeirra að þeirra verði saknað. Á meðan skotveiðimenn flykkjast út á heiðar landsins til að skjóta sumarið niður. Smjatta á því yfir jólin.

Sumarið var gott en það var líka sorglegt. Harmi þrungið. Ófáir samferðamenn kvöddu. Slysfarir og veikindi. Allt of margar jarðarfarir. Þá hefði rigning alltaf verið álitlegri en tárin sem féllu. Harmurinn fylgir manni frá einni árstíð yfir í þá næstu. Hann skánar ekkert í haustlitunum. Sorgin er ekkert kósí.

- Auglýsing -

Haustlitirnir eru fallegir, en eru sannanlegur vísir að dvala og dauða gróðursins. Litirnir eru skammgóður vermir enda munu haustlægðirnar feykja litum og laufum á haf út. Eftir standa neonlituð auglýsingaskilti sem minna á útsölur og jólin. 

Afborganir af húsnæðislánum og leigu eru fyrir flestar fjölskyldur orðnar sligandi og flestallir merkja muninn. Þess vegna skil ég ekki þessa haustdýrkun – þegar dýrustu mánuðirnir eru fram undan.

Veturinn hefur aldrei verið vinur minn. Barnungri var mér sögð saga til að létta biðina eftir sumrinu. Vetur konungur og sumarið eru eins og ósamstíga hjón sem eiga í endalausu stríði, valdabarátta árstíðanna. Veturinn beitir sínum hörðustu vopnum; vindum og úrkomu á meðan sumarið mætir með mildi. 

- Auglýsing -

Að hausti veit ég hver vinnur yfirstandandi lotu og að sama skapi veit ég að vori að sumarið mun eiga yfirhöndina, og sem dyggasti stuðningsmaður sumarsins er ég strax farin að hlakka til. Föst í þessari rimmu ósamstíga árstíða þá vel ég að fylgja sumrinu – þótt það sé ekki alltaf til fyrirmyndar eða gott.

Mér finnst persónulega að eftir ansi sorglegt veðurfar síðustu sumra að þá megi þetta vara í allavega tvö ár í viðbót, í versta falli þangað til stýrivextirnir lækka niður í fjögur prósent.

 

Lestu þennan pistill og fleiri í nýjasta tölublaði Mannlífs

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -