Föstudagur 26. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vinsælasta spurningin þegar hinir svokölluðu sumarfrísmánuðir nálgast er án efa hvað eigi að gera í sumarfríinu. Henni fylgir ákveðin pressa og felur í sér aðrar undirliggjandi spurningar: Hvað ætlar þú að gera sem er skemmtilegt, uppátækjasamt, öðruvísi og spennandi? Í henni felst einnig fullyrðingin um að áunnið orlofið verði leyst út á sumarmánuðunum. Jafnframt er óskrifuð regla að bannað sé að svara einhverju leiðinlegu.

Ég er ekki sumarfrístýpan og þar af leiðandi þreytir spurningin mig. Iðulega svara ég „leiðinlega“ og veld viðmælanda ákveðnum vonbrigðum. Sko nei, ég ætla ekki að gera neitt … sem þykir frásagnarvert né heldur er ég þess vís á að leysa út orlofið mitt í þær vikur sem kallast sumar á Íslandi.

Hugsanlega hefur mér mislukkaðist að læra að taka sumarfrí. Yfir skólaárin voru sumrin alla jafna vertíð. Tíminn var nýttur til að safna í forða og frekari fjárráða fyrir veturinn. Eftir skólann mistókst mér viljandi eða óviljandi að eignast börn, svo ég er og hef aldrei verið háð skólafríum barna eða leikskólalokunum. Þar af leiðandi hef ég ætíð mátt sæta rest með frí í júlí, og annað hvort þurft að leysa fríið mitt út fyrr eða seinna. Þrátt fyrir allt er sumarið uppáhaldstíminn minn.

Margt er líkt með lifnaðarháttum Íslendinga og bjarna; á sumrin vökum við – á veturna liggjum við í híði. Búsetan á norðurhveli er æði strembin; dimmir vetrarmánuðirnir og kuldinn gera það að verkum að útivera er síður eftirsóknarverð og allt verður torveldara. Dagurinn er svo stuttur að varla tekur því að fara á fætur. Mér dytti því seint í hug að ferðast til útlanda á besta tíma ársins. Satt best að segja finnst mér hugmyndin glapræði, þrátt fyrir rigninguna og rokið á suðvesturhorninu. Að fara til útlanda „bara af því bara“ finnst mér ruglað bruðl. Sérstaklega í ljósi þess að landið okkar er á heimsmælikvarða og náttúruperlurnar margar. Ef sólarþyrstir eru við að skrælna má alltaf sækja sólina á Norður- eða Austurlandið og hitann sömuleiðis.

Á meðan samfélagsmiðlafærslur frá vinum sýna mér strandlengjur og fjarlæg höf þá er öfund mín lítil sem engin. Mér finnst fátt betra en að setjast út í garð og horfa á sumarblómin og ógróðurinn vaxa. Ég kýs að nota árstímann til að hanga lengur úti með hundinum á kvöldin, njóta bjartra nátta og miðnætursólarinnar. Hafið þið einhvern tíma tekið eftir því að alltaf í kringum miðnætti kemur blankalogn – eins og vindurinn sé lagstur til hvílu eftir langan dag?

Á meðan sundlaugagarðurinn á Tenerife lokar um klukkan átta eru flestar laugar landsins opnar til klukkan tíu. Ég elska að eiga auðveldara með að vakna til vinnu og þurfa ekki að skafa eða hanga í umferðateppu. Ég elska að stökkva niður í bæ og hitta kæran vin upp úr þurru eða rífa fram grillið og sötra á svölunum. Ég dýrka að þurfa ekki að klæðast sokkum og á sama tíma finna fyrir fresku og köldu loftinu. Þess vegna vel ég að vinna í „sumarfríinu“ og tek mér svo almennilegt frí frá amstrinu á veturna.

- Auglýsing -

Sumarið fyrir mér er frí frá rest af ári.
Og til að svara spurningunni þá ætla ég að blómstra; af því að lífið er loksins, eftir langan vetur, orðið bærilegt.

Þennan pistil og fleiri má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -