Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Noregsför 3. hluti: Tími farsóttar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ámundi Loftsson og eiginkona hans, Unnur Garðarsdóttir, ákváðu að flytja af landi brott nokkrum árum eftir hrunið. Eftir að hafa íhugað nokkra valkosti komust þau að þeirri niðurstöðu að Noregur væri fýsilegur kostur.

Ámundi, sem fæddist árið 1953, hefur drepið víða niður fæti á starfsævi sinni. Hann varði unglingsárunum í sveit og vann þá almenn sveitastörf. Síðar vann hann hjá RARIK, starfaði á vélaverkstæði og einnig stundaði hann sjómennsku í um tíu ára skeið.

Enn síðar starfaði hann við landbúnaðarstörf, eftir að hann og eiginkona hans tóku við búi foreldra hennar í Reykjadal í Þingeyjarsveit. Á þeim tíma þurfti hann að taka nokkrar glímur við landbúnaðarkerfið. Enn síðar vann hann við viðhald á húsum og margt fleira.

Hvað sem því öllu líður þá gengu búferlaflutningar hjónanna ekki snurðulaust og þau hjónin þurftu að heyja nokkrar glímur við kerfið, hvort tveggja hér á landi og í Noregi. Flutningasaga fjölskyldunnar verður reifuð hér í þremur hlutum og fjallar fyrsti hlutinn um ferðalag hennar frá Kópavogi til Seyðisfjarðar og þaðan til Noregs.

Á tíma farsóttar

Þó ekki væru mikil plön um hvað gera skildi hafði ég alltaf eitthvað fyrir stafni þá sautján mánuði sem farsóttin hélt mér föstum í Noregi. Meðal þess var að endurbyggja hjólhýsi fyrir elskulega frænku mína sem hér hefur aðeins komið við sögu. Í þetta fór talsverður tími og fór ég nokkrar ferðir til hennar í þetta verkefni. Einnig hafði ég fengið eignarhald á Cherokee jeppa á íslenskri skráningu. Eigandinn hafði komið á honum til Noregs 2017 var komin í vandræði með hann útaf íslensku skráningunni. Bíllinn var í bílageymslu í fjölbýlishúsi þar sem hann bjó og nágrannarnir farnir að amast við honum. Annaðhvort varð hann að fara með bílinn til Íslands eða losna við hann. Varð úr að ég losaði hann við þennan bíl.

Um haustið 2020 hafði stofnaðist til kunningsskapar við fólk sem býr úti í sveit ekki fjarri heimili okkar Unnar. Þar fékk þessi farkostur að dúsa bak við hrútakofa og síðar fékk ég þar inni í stórri skemmu með jeppann og byrjaði að laga hann.

- Auglýsing -

Komst ég í kynni við bráðflinkan blikksmið sem klippti og beygði fyrir mig allt sem til þurfti við að ryðbæta og laga þennan bíl. Svo var planið að fara á honum til Íslands þegar þar að kæmi. Fórum við líka að svipast um eftir kerru aftan í hann, helst gamla sem kostaði lítið. Þá yrði ekki hár tollur af henni. Við vorum frekar auralítil.

Fleira lagðist mér til sem lagaði fjárhaginn aðeins þann tíma sem farsóttin kyrrsetti mig í Noregi. Jeppinn var kominn í mjög gott lag og beið þess sem í vændum var.

Förin til Íslands

- Auglýsing -

Vorið 2021 var komið að starfslokum Unnar. Hún var að komast á eftirlaun. Farsóttin var að gefa það eftir að ferðir milli landa urðu minna háðar tálmunum. Í júlí fórum við öll þrjú til Íslands með í flugi og höfðum með okkur eins mikinn farangur og hægt var.

Öðru pökkuðum við í jeppann og kerru sem okkur hafði áskotnast og í ópelinn sem Unnur hafði keypt 2018, og áður er getið. Fengum við svo að geyma þetta allt hjá vinum okkar í sveitinni. Við ætluðum bíða þar til farsóttin rénaði betur og farþegasiglingar yrðu greiðari.

Þegar komið var fram á vetur sáum við svo frétt í blaði. Hún var um úrskurð í kærumáli vegna gjaldtöku fyrir farmbréf út af bíl sem hafði komið með bílaferjunni til Íslands. Þar voru þau metin fimmfalt hærri enn eðlilegt var talið. Þótti okkur þetta góð frétt sem jók líkurnar á að kostnaður við skráningu og toll af Ópelnum yrði skaplegur. Þarna var líka komin staðfesting á að ég hafði verið látinn borga allt of mikið fyrir samskonar pappír fáum árum áður, sem að auki var algerlega ónauðsynlegur.

Seint í febrúar fórum við og sóttum bílana og dótið til Noregs og komum til Seyðisfjarðar 15. mars og þar hófst saga sem engan endi ætlar að taka.

Hindruð för

Við höfðum ráðgert að hafa samband við tollinn þegar í land kæmi og fá að vita hve langan tíma við hefðum til skráningar og tollafgreiðslu á bílnum og kerrunni sem voru á norsku skráningunni. Ekki kom þó til þess að þess gerðist þörf þar sem hvort tveggja var kyrrsett þarna á bryggjunni. Þá upphóf tollvörður hróp og köll. „Þau eru komin, þau eru hérna“. Ekki lék nokkur vafi á að tollinum hafði verið gert viðvart um komu okkar og það var greinilega búið að undirbúa og ákveða að för okkar yrði stöðvuð með þessar eigur okkar. Gilti engu hverju við var borið, m.a. því að ég hafi ekki alls fyrir löngu komið til landsins á bíl á norskri skráningu og þá fengið að halda áfram inn í landið. Tollurinn bar við breyttum reglum og fyrirmælum að sunnan. Framhjá þeim yrði ekki komist og þar við sat. Urðum við að skilja kerruna og Ópelinn eftir þarna á bryggjunni og héldum svo áfram á Jeppanum.

Þegar heim kom beið mín tölvupóstur frá Smyril Line þar sem okkur var gert að borga yfir hundrað þúsund krónur fyrir farmbréf vegna bílsins og kerrunnar. Þótti okkur þetta ekki ríma við úrskurðinn um að þessi gjaldtaka væri margfalt hærri en vera bæri. Var því ljóst að hér var spurninga að spyrja og viðbúið að tíma gæti tekið að fá á hreint hvað úr yrði með tollun.

Umbúnaður á dótinu okkar var ekki með þeim hætti að það gæti verið úti undir veðrum og vindum í langan tíma. Það voru rúmdýnur upp á bílnum og stórt sjónvarpstæki á milli þeirra. Ákváðum við þá að fara til Seyðisfjarðar og sækja allt dótið og sjá til með framhaldið. Ef heildarkostnaður við skráningu og toll yrði yfir þeim mörkum sem verðgildi bílsins og kerrunnar stæðu ekki undir því færum við með bílinn út aftur. Þessi eldgamla kerra var einskis virði og mátti þess vegna fara í brotajárn.

Fengum við lánaðan sendibíl í þetta ferðalag og urðu starfsmenn Tollsins og Smyril Line okkur til aðstoðar við að koma dótinu í hann. Það tók drjúgan part úr degi.

Að fáum dögum liðnum fórum við að reyna að afla okkur vitneskju hjá Tollinum um væntanlega álagningu á bílinn og kerruna en gekk ekki vel.

Þá fórum við á skrifstofu Smyril Line í Reykjavík með þetta í huga og höfðum úrskurðinn vegna farmbréfanna með okkur. Sá fundur leiddi ekki heldur til niðurstöðu og greinilegt var að þessi úrskurður var illa þegið innlegg í málið.

Samskiptin við þetta fyrirtæki rötuðu síðan í kostulegan óheilla- og furðufarveg og er þessu máli hvergi nærri lokið. Það er efni í alveg sérstaka frásögn sem á fullt erindi fyrir almenningssjónir.

Ámundi Loftsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -