Miðvikudagur 1. maí, 2024
7.1 C
Reykjavik

Mikil verðmæti fólgin í samstarfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

ArcanaBio þróar nýja tegund af tæknilausn sem gerir vísindamönnum kleift að útbúa öflug DNA-greiningarpróf á mun fljótlegri og einfaldari hátt en áður.

ArcanaBio er nýtt fyrirtæki í hugbúnaðarlíftækni sem er að þróa nýja tegund af tæknilausn sem býr til DNA-greiningarpróf með hjálp háhraðatölva í skýinu. Um er að ræða próf sem notuð eru til að gera DNA-rannsóknir í ýmsum tilgangi, allt frá því að skoða matvæli fyrir gæðaeftirlit og tegundavottanir, yfir í flóknari notkun á sviði líftækni, t.d. fyrir bakteríu- og örverurannsóknir. Tæknilausnin gerir vísindamönnum, líffræðingum og öðrum sérfræðingum kleift að útbúa öflug DNA-greiningarpróf á mun fljótlegri og einfaldari hátt en áður hefur verið hægt að gera með núverandi lausnum á markaðnum og með umtalsverðum sparnaði segir Kristján Már Gunnarsson, meðstofnandi og yfirmaður viðskiptaþróunar hjá ArcanaBio. „Við teljum okkur vera að opna á nýjar og spennandi leiðir fyrir vísindamenn og líffræðinga með því að bjóða upp á aukna sjálfvirknivæðingu, einfalda flókna ferla ásamt því að auðvelda og flýta fyrir allri þeirri undirbúningsvinnu sem fer í að þróa áreiðanleg próf fyrir ýmsar tegundir DNA-greininga.“

Miklar framfarir
Kristján segir miklar tækniframfarir hafa átt sér stað á síðustu árum með tilkomu smærri og ódýrari vélbúnaðarlausna, bæði í raðgreiningum og í rauntímagreiningum sem ArcanaBio þróar lausnir fyrir. „Þá höfum við átt mjög farsælt samstarf við Advania í Hafnarfirði sem hefur gefið okkur aðgang að mjög öflugri háhraðaþjónustu sem hjálpar okkur mikið við að þróa hugbúðinn hraðar og gera umfangsmiklar tilraunir.“
Fjölbreyttur bakgrunnur

„Við teljum okkur vera að opna á nýjar og spennandi leiðir fyrir vísindamenn og líffræðinga með því að bjóða upp á aukna sjálfvirknivæðingu.“

Meðstofnandi Kristjáns er Dr. Andy McShea en þeir hafa starfað saman síðastliðin fjögur ár að ýmsum verkefnum. „Andy átti upprunalega hugmyndina að lausninni en hann hefur töluverða reynslu að gerð DNA-tæknilausna. Hann var m.a. lykilstjórnandi hjá bandaríska líftæknifyrirtækinu CombiMatrix auk þess sem hann var stjórnandi og ráðgjafi fyrir Bosarge Family Office, sem er einkasjóður bandaríska milljarðamæringsins Ed Bosarge, en þar kom hann að ýmsum líftæknitengdum verkefnum.“

Sjálfur sinnir Kristján viðskiptaþróun eins og fyrr segir auk þess að vinna náið með tækniteyminu sem er að hluta til staðsett bæði í Rúmeníu og Bandaríkjunum. „Meðal fyrri verka minna má m.a. nefna stofnun TeqHire árið 2013 en félagið sérhæfir sig í að útvega fyrirtækjum, bæði hér á landi og erlendis, tæknifólk til starfa og hefur félagið vaxið töluvert. TeqHire fékk t.d. viðurkenningu sem einn af vaxtarsprotunum hjá Samtökum iðnaðarins árið 2016.“
Í teymi ArcanaBio er einnig bandarískur vísindamaður sem þróaði frumgerð af tækninni sem m.a. var nýtt til að þróa fyrsta prófið sem notað var til að greina hinn skaðlega Zika-vírus.

Kristján Már Gunnarsson, meðstofnandi og yfirmaður viðskiptaþróunar hjá ArcanaBio. Mynd / Marino Thorlacius

Rannsaka sýklalyfjaónæmar bakteríur
ArcanaBio er einnig að vinna að gerð rannsóknarverkefnis sem gengur út á að gera hagkvæmari og ódýrari greiningarpróf og ferla til að greina sýklalyfjaónæmi í bakteríum, bæði í mönnum og dýrum hér á landi. Þá stendur til að nota vélnám (e. machine learning) við frekari rannsóknir á gögnunum til að skoða hvaða sýklalyfi bakteríurnar eru líklegar til að mynda ónæmi gegn. Samhliða þessu verkefni stendur til að skoða leiðir til að útbúa hagkvæmar greiningaraðferðir við að skima innfluttar matvörur og fylgjast þannig með sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Sparar tíma og eykur gagnsæi
Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins verða rannsóknarstofur, líftæknifyrirtæki, lyfjaframleiðendur og háskólar. „Það ríkir mikil samkeppni á þessum tugmilljarða-dollara markaði. Við teljum okkur hins vegar vera með töluvert aðgreinanlega lausn sem býður upp á minni hættu á að röng próf séu útbúin fyrir rannsóknir. Töluverður kostnaður getur falist í þróunarferlinu við að útbúa próf, sem á endanum virka ekki sem skyldi og þarf þá að byrja aftur á öllu ferlinu sem getur í sumum tilvikum, aðallega stærri verkefnum, reynst mjög kostnaðarsamt. Þannig er hugbúnaðinum ætlað spara tíma, bjóða upp á aukna sjálfvirknivæðingu og einnig auka gagnsæi í rannsóknarvinnunni.“

- Auglýsing -

Tengsl við frumgreinar
Kristján segir helstu ástæðu þess að ArcanaBio hafi sóst eftir að komast í viðskiptahraðalinn vera þá sérstöku áherslu sem lögð er á sjávarútveginn og matvælageirann. Einnig skipti máli þekking og tengslanet frá mentorum sem koma með verðmætaráðgjöf til fyrirtækjanna. Hann segir að DNA-greiningar muni í náinni framtið verða partur af öllu gæðaeftirliti í matvælaframleiðslu. „Sjávarútvegurinn er mjög spennandi fyrir okkur enda einn stærsti iðnaður landsins. Við erum að skoða DNA-greiningar í gæðaeftirliti í matvælaframleiðslu, t.d til að greina listeríu með ódýrari og fljótlegri aðferðum, m.a fyrir reykhúsin. Einnig þykir okkur spennandi að skoða hvernig við getum mögulega þróað greiningarþjónustu fyrir auðkenningu á matvælum sem kemur t.d. í veg fyrir svindl í matvælaviðskiptum.“

Verðmætin í tengslanetinu
Kristján segir fyrstu tvær vikurnar hafa farið sérstaklega vel af stað og er spenntur fyrir framhaldinu. „Að fá öll þessi tengsl í gegnum hraðalinn er að reynast okkur afar vel. Við eru nú þegar byrjaðir að kynnast og eiga samtöl við margt, mjög öflugt og klárt fólk úr matvælageiranum sem hefur áhuga að vinna með okkur. Þessi snertiflötur hraðalsins er alveg frábær enda er mjög mikilvægt að vinna að markvissum lausnum með því að tala við fólk á ólíkum sviðum með mismunandi þekkingu og reynslu. Það er mikilvægt fyrir okkur að geta unnið með mismunandi tilgátur, spurt spurninga og fengið mikilvæg svör frá öllu þessu reynslumikla fólki. Ég myndi segja að úr þeim samtölum fælust mikil verðmæti fyrir okkur.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita. 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -