Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hornsteinn lagður að nýrri götu í Fellabæ: „Gaman að taka þátt í þessu í þessu fína vorviðri““

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag var lagður hornsteinn að nýrri götu í Fellabæ. Gatan er í svokölluðum Brúnum í bænum og mun hljóta nafnið Selbrún. Búist er við að fyrstu íbúðirnar við götuna verði tilbúnar til búsetu eftir um það bil ár.

Fellabær er í þriggja kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en þar bjuggu um 400 manns árið 2020. Samkvæmt Austurfrétt áformar fyrirtækið Hrafnshóll að byggja 40 íbúðir við hina nýju götu. Hrafnshóll hefur undanfarin ár sérhæft sig í að nýta öll þau úrræði sem ríkið býður upp á til að örva húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni síðustu ár. Hefur fyrirtækið til að mynda byggt hús á Vopnafirði.

„Við höfum byggt á annað hundrað íbúðir í kringum Ísland. Við byggjum bara hagkvæmar íbúðir úti á landi,“ sagði Sigurður Garðarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hrafnshóls við athöfnina í dag.

Það sem gera íbúðirnar við Selbrún nokkuð sérstæðar er það að þær eru sérstaklega hannaðar fyrir hlutdeildarlán, úrræði sem á að nýtast tekjulægri einstaklingum. Hafa slík lán ekki verið veitt áður til framkvæmda á Austurlandi  „Við höfum verið að nýta okkur þessar leiðir sem í goði eru. Þetta eru samfélagsverkefni sem við höfum tekist á við með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ráðuneytinu og sveitarfélögunum,“ sagði Sigurður við Austurfrétt.

Sigurður Ingi Jóhannesson innviðaráðherra, var einn þeirra sem lagði handarfar sitt í steypuna sem verður hornsteinn Selbrúnar. „Það er mjög mikilvægt fyrir ríkisvaldið og stjórnvöld að hafa mismunandi verkfæri til að bregðast við framboðs eða eftirspurnarhliðinni,“ sagði hann í athöfninni og bætti við: „Það er gaman að taka þátt í þessu í þessu fína vorviðri.“

Bæjarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, lagði einnig sitt handarfar í steypuna. „Ég fagna því að þetta góða verkefni sé loks að komast af stað. Selbrúnin hefur verið tilbúin til framkvæmda í nokkurn tíma. Þegar fulltrúar Hrafnhóls komu til fundar við okkur og við bentum á þennan stað vaknaði strax áhugi. Síðan hafa verið í gangi hugmyndir um útfærslur sem loks sér nú fyrir endann á,“ sagði hann.

- Auglýsing -

Þriðja og síðasta lófann í hornsteininn lagði Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þriðja lófann í hornsteininum á Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. „Við leggjum metnað okkar í að styðja við sveitarfélögin. Í fyrra settum við af stað stórt verkefni, Tryggð byggð, sem er samstarf ríkis og sveitarfélaga. Á vegum þess eru 400 íbúðir í byggingu með þeim tækjum sem stjórnvöld hafa lagt til.“

Framkvæmdir við Selbrún hefjast ekki strax, þrátt fyrir hornsteininn en deiliskipulag svæðisins er enn í ferli. Klárist það á eðlilegum tíma, stefnir Hrafnhóll á að hefja framkvæmdir efir verslunarmannahelgina. Náist það má búast við að hægt verði að flytja inn í fyrstu íbúðirnar eftir páska á næsta ári.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -