Skólastýra Tónlistarskóla Akraness keypti körfuboltatreyju á 400.000 krónur á uppboði Skallagríms.
Laugardaginn 11. febrúar síðastliðinn efndi körfuboltadeild Skallagríms til þorrablóts í Borgarnesi. Meðal þess sem þar fór fram var fjáröflun en þar var til að mynda haldið uppboð á treyjum fyrrum leikmanna Skallagríms.
Skessuhorn segir að treyja körfuboltakonunnar Keira Robinson sem er númer 34, hafi selst þar á hæsta verði en Keira er bandarískur leikmaður sem spilaði með meistaradeild Skallagríms þegar liðið vann bikarinn 15. febrúar 2020. Í dag spilar Keira með Haukum í Subway deildinni.
Allir leikmenn liðsins tímabilið 2019-2020 árituðu treyjuna ásamt þjálfurunum, Atla Aðalsteinssyni og Guðrúnu Ámundadóttur. Seldist treyjan á 400.000 krónur en það var skólastýra Tónlistarskóla Akraness, Jónína Erna Arnardóttir sem keypti treyjuna en hún er mikil Skallagrímskona. Á samfélagsmiðlum birti hún mynd af sér í treyjunni og skrifað við hana „Rándýr öskudagur.“
