Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Sýning til heiðurs Guðjóni Arnari Kristjánssyni: Einn aflasælasti togaraskipstjóri landsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður og formaður Frjálslynda flokksins, lést á 74. aldursári árið 2018. Guðjón Arnar Kristjánsson var fæddur á Ísafirði 5. júlí 1944. Guðjón Arnar lauk stýrimannanámi á Ísafirði 1965 og fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík ári síðar. Hann hóf ungur sjómennsku, var háseti, matsveinn og vélstjóri frá 15 ára aldri en síðar stýrimaður og skipstjóri, allt fram til 1997.

Sýning til heiðurs Guðjóni

Sýning til heiðurs Guðjóni hefur verið sett upp á Ísafirði. Sýningin spannar langan feril Guðjóns og er hægt að skoða muni sem komu við í hans sjómannslífi. Mannlíf fór á stúfana og fékk að verða vitni af því þegar hringt var inn í sýningarskálann.

Bernhard Överby var lengi stýrimaður hjá Guðjóni Arnari. Mynd tekin á sýningu til heiðurs Guðjóni Arnari Kristjánssyni á Ísafirði í júní 2022. Ljósmyndari: Þorsteinn Traustason.
Mynd tekin á sýningu til heiðurs Guðjóni Arnari Kristjánssyni á Ísafirði í júní 2022. Ljósmyndari: Þorsteinn Traustason.

Ungur til forystu og skrifaði mikið í blöðin

Guðjón Arnar valdist ungur til forystu í félögum stéttar sinnar, var formaður Skipstjóra- og stýrimannfélagsins Bylgjunnar 1975–1984 og forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1983–1999. Jafnframt átti hann sæti í ýmsum nefndum og ráðum, svo sem Verðlagsráði sjávarútvegsins og Starfsgreinaráði sjávarútvegsins. Hann sat í stjórn Fiskveiðasjóðs, í skólanefnd Stýrimannaskólans í Reykjavík, í stjórn Fiskifélags Íslands og í stjórn Slysavarnaskóla sjómanna og var um tíma varafiskimálastjóri. Hann skrifaði ávallt mikið í blöð um málefni sjávarútvegs og sjómanna sérstaklega.

Jafnframt forystustörfum í samtökum sjómanna tók Guðjón Arnar þátt í stjórnmálum og sat á Alþingi sjö sinnum sem varamaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1991–1995. En vegna ágreinings um sjávarútvegsmál sagði hann skilið við flokk sinn og stofnaði með öðrum Frjálslynda flokkinn og var kosinn þingmaður hans 1999, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en síðar Norðvesturkjördæmi. Hann sat á Alþingi í tíu ár sem aðalmaður, fram til 2009, en samtals á 18 þingum ef allt er talið. Hann var formaður Frjálslynda flokksins 2003–2010. Hann átti lengst af þingferils síns sæti í sjávarútvegs- eða samgöngunefnd, en einnig var hann um tíma í fjárlaganefnd og tók þátt í störfum Vestnorræna ráðsins síðustu ár sín hér.

Heilsteyptur og drengskaparmaður

Guðjón Arnar sýndi snemma af sér dugnað og áræðni, varð einn aflasælasti togaraskipstjóri landsins og þekktur fyrir hreysti og kappsemi um borð í skipum sínum. Hann hafði ánægju af félagsstörfum og var ungur valinn til forystu í samtökum sjómanna. Hann stóð vörð um réttindi þeirra á talsverðum breytingatímum við upptöku kvótakerfis. Á það kerfi var hann gagnrýninn og það leiddi hann öðru fremur til virkra stjórnmálastarfa. Það munaði um Guðjón Arnar hér í þinginu. Hann var fastur fyrir, sérlega talnaglöggur og setti sig vel inn í mál. En togaraskipstjórinn reyndist ljúfur í samskiptum, glaðlyndur og fús til sátta og því einstaklega þægilegur að vinna með. Hann var heilsteyptur maður og drengskaparmaður sem jafnan lagði góðum málum lið.

Mynd tekin á sýningu til heiðurs Guðjóni Arnari Kristjánssyni á Ísafirði í júní 2022. Kristján Andri Guðjónsson, sonur kappans, og Jóna Símona Bjarnadóttir safnastjóri, Ljósmyndari: Þorsteinn Traustason.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -