Fiskikóngurinn svarar fyrir ásakanirnar: „Ég held að maður geti bara rifbeinsbrotnað við að hnerra“

top augl

Kristján Berg Ásgeirsson, eða Fiskikóngurinn eins og hann er gjarnan kallaður og eigandi Heitra potta, hefur verið þekktasti fisksali á Íslandi um árabil en hann hefur selt Íslendingum fisk í yfir þrjátíu ár. Frumlegar auglýsingar hans hafa gjarna vakið athygli og þá hefur hann oftar en ekki ratað í fjölmiðla vegna hinna ýmissa mála. Kristján Berg er nokkuð hispurslaus á samfélagsmiðlunum og veigrar sér ekki við því að tjá hug sinn og hefur stundum verið gagnrýndur í kjölfarið.

Fortíð Fiskikóngsins hefur lengi verið á milli tannanna á fólki en árið 1996 var Kristján dæmdur ásamt þremur öðrum mönnum til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar vegna innflutning og sölu á alsælutöflum. Færri vita að Fiskikóngurinn missti aleiguna í Hruninu 2008. Í nýjasta viðtali Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn, ræðir Kristján Berg á opinskáan hátt um fortíðina, deilur við fyrrum starfsmann sinn, Hrunið og fleira.

Mikið fjölmiðlafár hefur verið síðustu daga vegna ásakana Kristjáns Bergs gagnvart læknum og fyrrum starfsfólki sínu þar sem hann hélt því fram á Facebook að starfsfólk geti pantað veikindavottorð fyrir hverju sem er frá læknum. Mannlíf sagði svo frá ásökun fyrrum starfsmanns Fiskikóngsins en hann heldur því fram að Kristján Berg hafi rifbeinsbrotið sig og að þess vegna hafi hann verið svo lengi í veikindaleyfi. Þessu svarar Kristján Berg fyrir í viðtalið Reynis.

„Ég veit ekki hvernig ég á að hafa rifbeinsbrotið þennan einstakling en ef hann er með vídjó af þessu þætti mér gaman að sjá það og ef hann er með einhver vitni,“ segir Kristján Berg og heldur áfram: „Ef ég hef beinbrotið einhvern mann, sem er rosalega alvarlegt, það er bara ofbeldi …“ Þarna grípur Reynir frammi fyrir Kristjáni og spyr: „En þú veist náttúrulega með hann, tókust þið á eða?“

Kristján: „Ég hef aldrei tekist á við hann eða neitt. Hann hefur bara unnið hjá mér og ekkert vesen.“

Reynir: „Er þetta þá bara skáldssaga um rifbeinsbrotið?“

Kristján: „Sko, ég held að maður geti bara rifbeinsbrotnað við að hnerra, hef ég heyrt. Ég hef aldrei slegist við þennan mann eða neitt, hann hefur bara mætt í vinnuna og unnið sitt starf.“

Reynir: „En af hverju er hann að láta þetta frá sér?“

Kristján: „Það væri bara gaman ef þau kæmu í ljós, öll þau skilaboð sem hafa farið okkar á milli. En þetta er svolítið svæsið og ég tel þetta bara fjárkúgun.“

Reynir: „Þannig að hann hefur hætt eftir fjögur ár, ósáttur?“

Kristján: „Mjög ósáttur. En ef einhver er að ásaka mig um beinbrot, sem er mjög alvarleg ásökun, þá erum við bara með dómskerfi, við erum með lögreglu. Ef ég hefði rifbeinsbrotið einhvern þá hefði hann örugglega fengið áverkavottorð og farið að kæra mig. Ég myndi ætla það, ég myndi gera það.“

Reynir: „Þú hlýtur að vita ef eitthvað hefur gerst sem getur gefið tilefni til þess að það hrökkvi í sundur rif. Það hefur ekkert gerst?“

„Nei,“ svaraði Kristján hlæjandi og bætti við: „Þetta er bara fyndið. Þetta er ekki svaravert.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni