Héðinn vinnur að bætingu geðheilbrigðismála: „Hversu illa þarf þér að líða til að þú sért veikur?“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í Þvottahúsinu er formaður Geðhjálpar og stefnumótunarfræðingur forsætisráðuneytisins, Héðinn Unnsteinsson en hann er einmitt fyrirmynd Björn Thors í verðlaunasýningu Þjóðleikhússins, Vertu úlfur.

„Ég fer inn í kerfið árið 1992 af því að í menntaskóla 1989 upplifi ég þunglyndi, sem sagt dett niður, kvíðinn og ómögulegur, hvað ber framtíðin í skauti sér og allt þetta og 1992 fer ég svo í fyrstu uppheimaferðina og ég fer strax að skipta mér af kerfinu,“ segir Héðinn fljótlegar í viðtalinu og á þá við um geðheilbrigðiskerfið.

Héðinn og Snorri Ingimarsson heitinn, læknir og mannvinur skrifuðu saman bækling árið 1994. Það var svo árið eftir að þáverandi framkvæmdastjóri Geðhjálpar bað Héðinn um að halda fyrirlestur um sína reynslu fyrir nemendur í ónefndum framhaldsskóla. En þegar framkvæmdastjórinn hafði lokið máli sínu segir hann, Jæja krakkar, þá er komið að brjálæðingnum, gjörið svo vel, segir Héðinn og brosir yfir því hvernig hann var kynntur til leiks á sínum fyrsta fyrirlestri.

 

Héðinn Unnsteinsson
Ljósmynd: Aðsend

„Mér fannst skynsamlegra að reyna að hafa áhrif á kerfið innan frá í stað þess að standa fyrir utan það.”

„Pabbi kvaddi mig en faðmaði hann”

Héðinn hefur verið mikið í sviðsljósinu síðustu 20 ár í tengslum við geðheilbrigðismál og þó einkum síðustu tvö fyrir tilstilli bókarinnar Vertu úlfur sem hann skrifaði um ævi sína. Samnefndur einleikur Björns Thors hefur verið sýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússin í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur en leikritið sló rækilega í gegn. Einleikurinn hlaut hvorki meira né minna en sjö Grímuverðlaun.

„Hann er það góður að á frumsýningu fyrir um ári síðan þá kvaddi pabbi mig og faðmaði hann,” segir Héðinn í lýsingum sínum á leikhæfileikum Björn Thors sem gerði það að verkum að pabbi Héðins þekkti þá ekki í sundur.

Héðinn starfar á sviði stjórnsýslu við stefnumótun innan forsætismálaráðuneytisins og tók góðar tíu mínutur í byrjun viðtals til að fara yfir hlutverk hans innan stjórnsýslunnar sem og hugmyndir hans að skilvirkari samfélagsstrúktúr.

„Þarna kemur aftur að þessu við-i, hvernig skilgreinum við, við getum byrjað vítt og sagt, ég er heimsborgari, ég er Evropubúi, ég er norðurlandabúi, ég er Íslendingur og ég bý á Eyrabakka,” segir Héðinn er talið berst að því marrgflókna skrifræði sem hann vinnur í sem stefnumótunarfræðingur hjá forsætisráðuneytinu.

„Þá er spurningin, getum við sagt við erum höfuðborgarbúar, getum við sameinað þessi sveitarfélög?”

Hugafarsvíkkandi efni framtíðin í geðheilbrigðismálum

Í viðtalinu fóru þeir yfir hvernig hið hefðbundna geðheilbrigðiskerfi virðist vera að færast úr stað og að taka miklum breytingum. Meðferðir og meðhöndlun á geðsjúkum hefur að miklu leyti einkennst af lyfjagjöfum með misgóðum árangri. Héðinn sér fyrir sér miklar breytingar á kerfinu með tilkomu nýrra aðferða geðheilunar í formi hugarfarsvíkkandi efna. Efnin sem hann nefnir í því samhengi er fyrst og fremst Psilosobin sem er virka efnið í um 250 tegundum af sveppum en einnig talar hann um MDMA, DMT, Mescalin, LSD og Ketamin. Allt eru þetta efni sem hafa í gegnum tíðina verið flokkuð og litið á sem fíkniefni og fyrir vikið fordæmd og litið hornauga. Nú virðist öldin önnur og spáir Héðinn því að aðeins sé um nokkur ár að ræða þar til við erum farin á sjá þessar meðferðir í raun innan íslensks geðheilbrigðiskerfis. Hann vill einnig meina að ekki veiti af sökum brýnnar nauðsynjar vegna síhækkandi greiningarhlutfalls sem og mikilli aukningu á greiningategundum. Nú virðist sem allt geti flokkast sem geðræn áskorun, meira að segja sorg og reiði hefur fengið sína eigin greiningu og fyrir vikið litið á sem frávik. 

„Og nú er svo komið að ekki bara út frá Psilosobini sem er virka efnið í 250 -260 sveppategundum heldur líka MDMA, DMT, LSD eru komnir sirka 10 milljarðar dala sem eru sirka 1.400 milljarðar króna víðsvegar um heiminn.” 

„Þetta eru fyrirtæki, lyfjaþróunarfyrirtæki, rannsóknarfyrirtæki sem eru að gera rannsóknir á þessum efnum. Þetta er fyrirtæki með 600 milljónir dollara í hlutafé, þetta er ekkert lítið fyrirtæki, um 70 milljarðar og í gegnum þau höfum við verið að reyna að koma því í gegn að Ísland yrði 11 landið í þriðja fasa klíninskra rannsókna, nú er svo komið að þeir vilja koma hingað og það eina sem vantar upp á er reglugerðarbreyting sem þarf að ganga í gegn,” segir Héðinn um samvinnu hans við lyfjarannsóknarfyrirtækið Compass Pathways.

„Það er fullt af fólki að prófa sig áfram með þessi efni og það væri gæfa fólgin í því að svona fyrirtæki kæmi og myndi hefja sína klínisku rannsókn með 30-40 manns sem myndu taka þátt og það myndi bæta svo mikilli þekkingu inn í samfélagið, ef það gerist ekki munum við halda áfam að prófa okkur áfram einhversstaðar og það er hætta á bakslagi svo það yrði bara jákvætt ef það færi svona.”

Gríðarleg aukning á greiningum geðsjúkdóma

Héðinn talar um að í sögu meintra frávika, geðraskana, hefur í orðræðunni farið frá tunglsýki, að geðveiki, geðsjúkdómi, geðröskun og nú það nýjasta geðræn áskorun eða andlegri vanlíðan.  Fjöldi greininga hefur stóraukist á síðustu 150 árum eða frá 6 frávilkum árið 1883 í tæplega 600 í dag samkvæmt svokölluðu DSM5- greiningarkerfinu.

Gunnar spyr hann hvað valdi þessari gríðarlegu aukningu á greiningum allskonar innan geðheilbrigðis. „Það er margt í gangi, í fyrsta lagi erum 7,9 milljarðar manna á þessari jörðu og við erum náttúrulega samála um það að það sé einhver hlutlægur veruleiki en samt getum við sagt að hlutlægur veruleiki sé bara 7,9 milljarðar hlutlægra upplifana.”

Héðinn tekur einnig dæmi frá árinu 1950 þar sem bresk stjórnvöld mat sem svo að sirka 1% Lundunarbúa byggju við einskonar geðræn frávik. Í dag reiknast þeim til að um hlutfallið sé nálægt 20%. Hlutfall við erum einnig að sjá sambærielgt hér á landi.

Þessu tengt má geta þess að hagsmunum til að mynda geðlyfjaiðnaðarins, sem er um 110.000 milljarðar íslenskra króna á ári á heimsvísu.

„Það kann vel að vera því velta geðlyfja árið 2020, var 850 milljarðar dala í heiminum, það eru 110.000 milljarða íslenskra króna, 110 föld fjárlög,“ segir Héðinn er Gunnar spyr hann hvort hækkandi greiningarhlutfall geti ekki stafað að einhverjum hluta af sívaxandi geðlyfjaframleiðslu.

„Þunglyndi er ekki borð, stóll eða bíll, þetta er ekki hlutlægt fyrirbrigði. Sjúkdómarnir sjálfir eru einkennaknippi,“ segir Héðinn og heldur áfram.

„Við mennirnir sækjumst eftir einu í lífinu og það er vellíðan og við forðumst sársauka, þetta er bara innritað í okkur, þannig að vangaveltan er þessi, Hvenær verður vanlíðan að fráviki, hversu illa þarf þér að líða til að þú sért veikur?“

„Manía fyrir mér upplifði ég aldrei sem neitt annað en stjórnlausa tengsla hugsun“

Andleg reynsla getur verið lausn

Í tengslum við geðrænar áskoranir af ýmsum toga virðist lausnin oft vera sú sama, að maðurinn komist úr þessum efnisviðjum og yfir í andann. Þessi hugmynd um andlega vakningu er alls ekki ný af nálinni vill Héðinn meina. Hvað varðar andlega reynslu sem lausn við geðrænum kvillum tók Gunnar fyrir tvær sögur úr raunheimum. 

Fyrri sagan var saga sem hann heyrði af vini sínum sem lengi vel hefur glímt við andleg þyngsli, kvíða og ráðaleysi samhliða alkahólisma. Hann hafi því tekið ákvörðun um að fara tvisvar í svokallað guided fulldose trip á sveppum. Þetta ferðalag hans gerði það að verkum að hann sá ýmislegt í dýpi eigins hugarfars sem hann ekki hafði séð áður, lýgi egósins kallaði hann það. Samt sem áður fannst honum að hann hefði ekki náð þessari tengingu að fullu sem innsæi hans sagði honum að stæði til boða. Því tók hann ákvörðun um að fara enn lengra og endaði í shamanskri Ayahuasca athöfn. Þar gerðust hlutir sem hann lýsir sem svo að sprenging hafi orðið í vitundinni og taugakerfi hans einfaldlega verið endurræst. Hann segist hafa í vissum skilning upplifað dauðann, dauða hins þjakaða egós.  

Gunnar lýsir því hvernig það hefði verið sem hann væri að tala við annan mann, breytingin á honum var þvílík og í raun með ólíkindum. Þunglyndislyf sem þessi vinur hans hafði tekið samfelld í tuttugu ár voru strax orðin óþörf og hætti hann neyslu þeirra samstundis, matarræði og hreyfing fóru allt í einu að skipta hann máli ásamt daglegri hugleiðslu og útiveru. 

Héðinn jánkaði þessu og sagðist oft hafa heyrt þessar sögur en samt sem áður sé mikilvægt að hafa varan á í þessum efnum ef viðfangsefnin eru til dæmis í geðrofi eða þvíumlíkt geta slík tilfelli verið stórhættuleg og því mikilvægt að ramma ferlið inn á fagmannlegan hátt.

Seinni sagan sem Gunnar sagði honum var hans eigin reynsla. Hann sagði Héðni frá því þegar hann sjálfur var greindur með þunglyndi árið 2000 og í kjölfarið settur á SSRI lyf. Nokkrum árum seinna segir Gunnar að hann hafði leyst þau lyf af hólmi með kannabis og kókaíni. Við tók margra ára brölt sem svo endaði sumarið 2016 þar sem Gunnar var rifinn inn í andlega reynslu. Andlega reynslu sem tók alla hans skynjun úr efnisheiminum og yfir í algjört afstöðuleysi. Þessi gagngerða andlega reynsla Gunnars skilaði honum gjörbreyttum með fullvissu í hjarta um bjarta framtíð. Síðan hann varð þessari reynslu aðnjótandi hefur líf hans verið í stöðugri bataþróun frá því ástandi sem einkenndist af neyslu, þunglyndi, sveiflum, hvatvísi, athyglisbresti og oflæti. 

Héðinn tók vel í þessa frásögn og ítrekaði það að við vitum í raun svo lítið um hvernig vitundin virkar. Hann undirstrikaði mikilvægi auðmýktar sem við verðum að bera í hjarta okkar í vísindum í dag. Lokað hugafar gagnvart nýjum og óþekktum aðferðum framkalli  stöðnun og það sé einfaldlega ekki í boði þegar öllu er á botninn hvolft. Héðinn talaði einnig um að í þessu samhengi værum við mennirnir að missa þessa við-tengingu, vitundin er að verða meira og meira einkavædd og að manninum finnist hann vera rétthafi stöðugrar gleði og hamingju. 

Hann minntist á tengslarof mannsins við náttúruna og nefndi í þvi samhengi dæmi þar sem almannavarnir gáfu út tilkynningu þess efnis að hraunrennslinu á Reykjanesskaga yrði gefið leyfi til að flæða yfir Suðurstrandaveg ef svo bæri við, eins og hraunið hefði eitthvað spurt um leyfi. En hann vildi meina að þetta væri svo skýrt dæmi um hvernig maðurinn reynir alltaf að öðlast stjórn á öllum sköpuðum hlutum.

 

Héðinn ræðir við Wiium bræður
Ljósmynd: YouTube skjáskot

„Á þessum forsendum skaðalögmáls John Stewards Mill sem er þetta að hvert siðað samfélag má svipta einstakling frelsi sé hann hættulegur sjálfum sér eða öðrum og það er grundvöllur allra vestrænnar löggjafar í sviptingarmálum og núna eins og í Covid málunum erum við líka búin að nota þetta lögmál til þess að takmarka frelsi einstaklinga í tvö ár af því að þeir eru mögulega hætturlegir,“ segir Héðinn og hlær.

Sviptingar í sviptingamálum

Í lokin spyr Gunnar Héðinn hvort við getum byggt nýtt og betrumbætt geðheilbrigðiskerfi á grunni hins gamla. Héðinn vildi meina að það væri hægt en margt þurfi að breytast í grunninn. Í tengslum við það nefnir hann grundvallarlögmálið sem felst í að þjónusta skjólstæðinginn í stað að það þurfi alltaf að mæta í sífellu kröfum heilbrigðiskerfisins sem og lyfjaiðnaðarins.

„Dómstóllinn er farinn að taka miklu meiri tillit til mannréttinda einstaklinga,“ segir Héðinn og bætir svo við. 

„Svo hefur vitundarvakning Geðhjálpar og fleiri orðið til þess að lögmannafélagið og lögfræðingar eru farnir að sýna þessu miklu meiri áhuga, þessum sviptingarmálum. Hérna áður fyrr var það bara þannig að nauðungarvistun og sviptingar bara gengu í gegn einhverveginn, dómsvaldið og lögfræðingar bara stimpluðu ákvörðun læknanna.“

Héðinn nefnir dæmi um það hvernig nauðungavistun getur haft mikil áhrif á fjölskyldur.

„Það eru dæmi um það að bræður töluðu ekki saman í 30 ár því annar hafði kvittað upp á nauðungarvistun hins og á þeim forsendum var fjöldskyldan tekin út til að bæta lífsgæði til lengri tíma,“ segir Héðinn og bendir á breytingu á sviptingarlögum sem gerðar voru árið 2015 þar sem fjölskyldur voru teknar út úr þessari ákvörðunartöku og sveitarfélagið sett inn í staðinn.“

„Við þurfum að skoða fortíðina með gleraugum nútímans.“ Héðinn segir að það sé tl dæmis mikilvægt þegar mál eins og með Arnarholt séu skoðuð. „Ég er viss um að börnin ykkar eiga eftir að hrista höfuðið yfir því sem við erum að gera í dag.“

Hægt er að horfa á allt viðtalið hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni